Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 17:46:18 (1940)

1996-12-09 17:46:18# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að árétta það sjónarmið sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., er lýtur að úthlutun á kvóta í tegundum sem eru ekki nýttar. Þetta er mjög furðulegt fyrirbrigði og undirstrikar það að aflamarkskerfið er í sjálfu sér ekki lengur framkvæmt þannig að menn séu að horfa á hin upprunalegu markmið t.d. um verndun fiskstofnanna, hagkvæma nýtingu, treysta byggðina eða eitthvað slíkt, heldur er þetta kerfi í sjálfu sér farið að hafa sjálfstæða efnahagslega þýðingu fyrir tilteknar útgerðir. Það getur ekki haft annan tilgang en þann að skapa og búa til efnahagsleg verðmæti fyrir menn til þess að vinna úr þegar menn eru að úthluta aflaheimildum og kvótum með tveimur aukastöfum á hvert skip í tegundum sem við blasir að muni ekki nást. Það hefur gerst ár eftir ár t.d. í loðnunni, rækjunni og ýsunni, að þessar tegundir hafa ekki náðst. Engu að síður hafa þessar aflaheimildir selst á háu verði og skapað hér furðulegt ástand þar sem gríðarlegur söluhagnaður upp á tugi ef ekki hundruð milljóna hefur orðið til, allt á grundvelli aflaheimilda í tegundum sem ekki næst einu sinni að veiða. Þetta er ákaflega afkáralegt og er auðvitað lágmark að þær breytingar verði gerðar að veiðarnar verði gefnar frjálsar á þeim tegundum sem fyrirsjáanlegt er að muni ekki nást, annaðhvort með því móti sem hv. þm. lagði til þ.e. ef aflamarkið næðist ekki á tveimur árum yrði hið þriðja gefið frjálst ellegar að gefa veiðiheimildirnar frjálsar þegar ljóst væri í lok fiskveiðiárs að tegundirnar næðust ekki. Ég vil þess vegna undirstrika og taka mjög undir þetta sjónarmið. Ég held að þetta sé mjög þýðingarmikið í því að reyna að draga úr því mikla óréttlæti sem er samfara þessu kerfi.