Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 15:17:45 (1970)

1996-12-10 15:17:45# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[15:17]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki svarað þessu hér og nú. Ég held að svo sé ekki. En ég minni á að fyrir um það bil tveimur árum eða svo var tekin sú ákvörðun af viðskiptaráðherra að beina því til bankaráðs ríkisviðskiptabankanna að þeir hættu sjálfvirkri viðmiðun við laun annarra aðila, en það hafði tíðkast að bankaráð ríkisviðskiptabankanna tengdu laun bankastjóra við laun hæstaréttardómara. Svo gerist það, eins og kemur fram í bréfi sem Seðlabankinn skrifar fjmrn., að lögð er til grundvallar viðmiðun úr Landsbankanum og þar segir --- þótt bréfið sé trúnaðarmál þá held ég að það sé óhætt að lesa þennan kafla að minnsta kosti hér, með leyfi forseta:

,,Grunnlaun eða föst laun bankastjóra Landsbankans hafi verið þau sömu og hæstaréttardómara til 30. nóv. 1993, þá hafi laun þeirra verið ákveðin 411 þús. kr. á mánuði að viðbættri bankaráðsþóknun 40.343 kr. og að launin hafi verið óbreytt síðan. Einnig að eftirlaun fyrrv. aðstoðarbankastjóra Útvegsbankans skuli miðast við 80% af launum bankastjóra sem ekki þurfi endilega að vera sama hlutfall og laun aðstoðarbankastjóra Landsbankans.``

Hér hef ég lesið úr þessu bréfi og á grundvelli þessarar skoðunar hefur Seðlabankinn reiknað út eftirlaun og eftirlaunahlutföll og þá kemur í ljós að sú hækkun sem þarf að gera frá 1. des. 1993 til loka þessa árs og ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum eru 24,6 eða 24,7 millj. kr. Því miður get ég ekki gefið þessar upplýsingar nákvæmari en þetta ætti að skýra hvers vegna ekki var gert ráð fyrir þessum fjármunum í fjárlögum yfirstandandi árs.