Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 15:21:28 (1972)

1996-12-10 15:21:28# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[15:21]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Fjáraukalagafrv. það sem við erum að ræða hér er nánast gerður hlutur. Fjármunum hefur þegar verið ráðstafað og afgreiðsla Alþingis er aðeins formsatriði. Þetta er auðvitað gömul saga og það er kannski erfitt að gera við þessu í einhverjum tilvikum. En ég held að það sé oft og tíðum matsatriði. 430 millj. kr. framlag vegna hallareksturs sjúkrahúsanna í Reykjavík, það má velta því fyrir sér. Sá halli var fullkomlega fyrirsjáanlegur við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Á þetta benti minni hlutinn við afgreiðslu yfirstandandi fjárlaga og gerði sérstakar tillögur um fjárveitingar vegna málsins. Ég segi það, herra forseti, að hefðu stjórnarliðar fallist á varnaðarorð stjórnarandstöðunnar og tillögur um aukin framlög við afgreiðslu þeirra fjárlaga þá stæðum við ekki frammi fyrir því að ræða þær aukafjárveitingar sem hér er verið að fjalla um nema að litlu leyti.

Það má segja það sama um sjúkratryggingar sem augljóslega voru verulega vanmetnar. Þetta er endurtekning ár frá ári og ástæða til að það breytist. Ég geri mér sterklega vonir um að með breytingum á meðferð fjárreiðna ríkisins takist það. En til þess að það verði gert tel ég að verkefnavísar sem núna eru gefnir út eftir að fjárlög hafa verið gerð upp ættu að liggja fyrir áður en til fjárlagatillagna er boðað.

Það eru alltaf uppi hugmyndir um niðurskurð og sparnað á þeim mikilvæga lið sem heitir heilbrigðismál og tryggingamál. Hugmyndir eru um niðurskurð og sparnað á málefnum sem varða fjölskyldur og einstaklinga svo miklu. En þær hafa ekki reynst raunhæfar. Þær skapa sífellt stríðsástand og óróa. Útgjöld til heilbrigðismála hafa árlega verið helsti skotspónn sparnaðaraðgerða. Það er í sjálfu sér eðlilegt að menn horfi til þessa málaflokks þar sem til hans renna um 41,6% af útgjöldum ríkisins, eða nú um 52 milljarðar í fjárlagafrv. Það þarf að sjálfsögðu að gæta aðhalds og huga af kostgæfni að því hvernig þessari háu fjárhæð er varið. Það er rétt að það er stöðugt verkefni að sýna ráðdeild og sparnað í þessum mikilvæga málaflokki. En á hinn bóginn er nauðsynlegt að minna á ákveðnar staðreyndir svo menn gleymi sér ekki alveg í umræðunni um þörf á niðurskurði í heilbrigðismálum og gleymi sér í fullyrðingum um óhjákvæmilegan vöxt í heilbrigðiskerfinu næstu árin.

Tekjudreifing í þjóðfélaginu er ekki réttlát. Það eru staðreyndir að hlutur fjármagnsins hefur verið að aukast, hlutur launþeganna í landinu hefur verið að minnka og launamismunurinn hefur verið að vaxa. Þau jaðaráhrif sem hafa verið nefnd til sögunnar stuðla beinlínis að því að sá hluti vinnuaflsins, sem á mesta möguleika á vinnumarkaðnum gagnvart vinnuveitendum sínum, getur beinlínis gert kröfu um það að aukið vinnuframlag verði þeim einnig bætt. Þetta þýðir að hærri skattar sem leiða af auknu vinnuframlagi séu bættir í launum og fyrirtækin ganga að því að greiða raunverulega hærri skatta í formi hærri launa. Þau taka á sig þann kostnað ef um er að ræða eftirsótt fólk á vinnumarkaði. Jafnvel þetta atriði stuðlar að auknum launamun á sama tíma og lífskjarasamanburðurinn síðasta vetur, með allri þeirri umræðu sem þá varð, leiddi í ljós að taxtalaun og dagvinnulaun Íslendinga eru orðin slík að þau hrökkva ekki til að framfleyta fjölskyldu. Láglaunafólkið á Íslandi er í þessu launa- og skattkerfi dæmt til að reyna að ná endum saman með vinnutíma sem er allt að þremur mánuðum lengri á ári en gerist meðal grannþjóða okkar þannig að tekjudreifingin á Íslandi er ekki réttlát. Hún stefnir ekki í rétta átt.

Í því fjárlagafrv. sem við munum ræða fljótlega eru ekki neinar tillögur um úrræði sem boða betri stefnu eða stefnu sem tekur á þessum málum. Það er satt að segja nöturlegt vegna þess að úr því að það er ekki gert einmitt núna þegar við stöndum frammi fyrir allherjarkjarasamningum við gerbreytt skilyrði eftir samdráttarskeiðið og í nýju góðæri þá er það fyrsta skilyrði til þess að stjórnvöld geti náð árangri að þau leggi fram efnahagsstefnu, fjárlagafrv. og skattafrv. sem eru þess eðlis að þau sannfæri ekki bara forustumenn launþega heldur launþegana í landinu um að hugur fylgi máli. Það virðist svo sannarlega ekki vera alvara í því af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda að gera hvort tveggja, að breyta skattkerfinu í þá átt að það verði vinnuhvetjandi en ekki letjandi eða að vinna gegn óréttlátri tekjudreifingu, að stuðla að réttlátri tekjudreifingu og að sýna fram á að þessi efnahagsstefna verði haldbær eins og hún reyndist nú reyndar vera í hallærinu. Hún reyndist vera haldbær í hallærinu og því ætti hún að duga í góðærinu, hún ætti að þola góðærið.

Ef skoðuð eru fjárlögin 1984, en það ár var síðast afgangur af rekstri ríkissjóðs, þá kemur í ljós að til heilbrigðis- og tryggingamála það ár var varið 37% af útgjöldum fjárlaganna, samanborið við fjárlagafrv. fyrir næsta ár --- það er ástæða til að ræða þetta, herra forseti, því ég er að koma að fjáraukalagafrv.; þetta eru ákveðnar grunnforsendur sem tengjast þeirri umræðu --- samanborið við fjárlagafrv. ársins 1997 þar sem fjárhlutfallið er 41,6%. Þetta er í raun ekki meiri aukning en búast má við. Það kemur raunar á óvart hversu lítil breyting er á þeim árum frá 1984 þegar þess er gætt að hluti aukningarinnar, og ef til vill öll aukningin, er út af félagslega þættinum sem hefur færst yfir. Þarna munar rúmlega 4 milljörðum kr. sem útgjöldin eru hærri samkvæmt fjárlagafrv. ársins 1997 miðað við hlutfallið í fjárlögum ársins 1984.

Okkur má vera það ljóst að greiðslur einstaklinga vegna ýmissa læknisverka hafa aukist og létta því ákveðnum hluta af auknum kostnaði við heilbrigðiskerfið í heild fyrir ríkissjóð. En það breytir því ekki að hlutur ríkissjóðs hefur ekki aukist umtalsvert á síðustu 16 árum. Rúmlega 4 milljarða kr. hækkun er minna en ætla mætti miðað við þá umræðu sem verið hefur á undanförnum árum um þensluna og sjálfvirka aukningu í heilbrigðiskerfinu. Til fróðleiks má geta þess að þar sem önnur útgjöld ríkisins og sveitarfélaga hafa aukist meira en aukning til heilbrigðismála hafa heildarútgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, lækkað úr 17,72% í 16,85%. Það upplýsir að þessir aðilar, þ.e. opinberir aðilar, verja minni hluta af sínum heildartekjum til heilbrigðismála á síðasta ári en þeir gerðu 1984.

[15:30]

Herra forseti. Það er ástæða til að gagnrýna enn og aftur að sífellt er verið að sækja um gjaldaheimildir umfram það sem ætlunin er að nota. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað sett fram sömu gagnrýni og spurt hvers vegna sé sótt um hærri fjárveitingar en útlit er á að þörf sé fyrir. Það er bágt til þess að vita að auknar tekjur fyrir árið 1996 skuli vera vegna aukinna skulda heimilanna, vegna aukins innflutnings og vegna aukinna lána til heimilanna. Það bætir afkomu ríkissjóðs verulega að heimilin skuli auka skuldir. Þetta tel ég mikið áhyggjuefni.

Það er líka rétt að velta fyrir sér hvernig horfurnar eru um afkomu ríkissjóðs fyrir árið 1996. Þá má búast við að lánsfjárþörf ríkisins fyrir 1996 stefni í allt að 44 milljarða kr. og það er rétt að geta þess að það er um 17 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.

Fram hefur komið í umræðunni að það þurfi að veita 1,4 milljarða til heilbrigðiskerfisins. Stjórnarandstaðan benti á síðasta ári á að það mundi verða stórt gat og það vill svo til að álit Ríkisendurskoðunar er að enn þá vanti 500 millj. Og hvað er svo lagt upp með fyrir árið 1997? Það var óskað eftir fjárheimildum frá heilbrrn. um 54 milljarða. Og hverjar eru tillögurnar sem við erum að fjalla um? Það er gert ráð fyrir 52 milljörðum og þá vantar 2 milljarða. Ég fullyrði að það er stórt gat sem á eftir að stoppa upp í.

Það er ástæða, herra forseti, til að nefna þetta vegna þess að þetta mun koma fram á næsta ári á svipaðan máta og nú. Það var fullyrt við umræðuna á síðasta ári að staðið yrði við áætlanir sem settar voru fram. Staðreyndir liggja fyrir og ef ég nefni nokkrar athyglisverðar stikktölur um halla, þá minni ég á að ég hélt því fram í haust að halli eða fjárvöntun í heilbrigðiskerfinu væri sannarlega um 1 milljarður kr. Þá er rétt að tína til hvernig staðan er nákvæmlega núna í desember á árinu 1996. Þá er hallinn hjá Ríkisspítölunum uppsafnaður upp á 260 millj. Hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur upp á 185 millj. Hjá Sjúkrahúsi Akraness 40 millj., hjá Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 40 millj., hjá Sólvangi í Hafnarfirði 8 millj., hjá Sjúkrahúsi Patreksfjarðar 2 millj. Svona er hægt að halda lengi áfram. Það eru þessir hlutir sem ég tel að hefði átt að lagfæra. Það hefði átt að koma rekstri þessara stofnana á hreint. Þá hefði verið hægt að leggja upp með fjárlög sem vit væri í.

Það er ástæða, herra forseti, til að vekja athygli á því að í fjárlögum er gert ráð fyrir sparnaði vegna lyfjakaupa upp á um 400 millj. með útboðum og vegna aukinnar samkeppni. Og hver er svo reynslan til dagsins í dag? Jú, lyfjakaupareikningur fyrir einstakan mánuð hefur aldrei verið hærri en síðasta mánuð og það er engan veginn unnt að álíta að hlutdeild ríkisins minnki vegna minni lyfjanotkunar.

Þá er einnig meiningin að spara 100 millj. í rannsóknum og röntgengreiningum. Spara um 100 millj. Hver gæti trúað því nema sá sem er ómeðvitaður um þær staðreyndir að biðlistar hafa ekki verið lengri á öllum sviðum læknisfræðinnar nema það sem lýtur að hjartaaðgerðum á undanförnum árum.

Í fjárlagafrv. er áætlað að lækka tannlæknakostnað um 80 millj. kr. og það ætla menn að gera með hertum reglum og hertu eftirliti. Hverjum dettur það í hug að svona áform náist fram eins og má sjá í fjárlagafrv. fyrir árið 1997?

Herra forseti. Ég sagði að það vantaði 1 milljarð í fjárlagafrv. vegna heilbrrn. Ég stend við það. En ég vil benda á að ef menn skoða frv. út frá rekstrargrunni og með vísan í októberskýrslu Seðlabankans um peninga, gengi og greiðslujöfnuð þá er líklega 3--4 milljarða kr. halli á frv. Þetta kemur fram á bls. 14 í því riti. Með þessum orðum, herra forseti, er ég að reyna að varpa réttu ljósi á fjármálaástandið eins og það er og, með leyfi forseta, vil ég vitna til þessarar umræddu skýrslu:

,,Munur á greiðslugrunni og rekstrargrunni liggur í meginatriðum í því að á greiðslugrunni eru tekjur og gjöld bókuð þegar þau koma til greiðslu en á rekstrargrunni þegar til þeirra er stofnað. Mest munar í þessu sambandi um áfallnar lífeyrisskuldbindingar umfram það sem er formlega greitt til lífeyrissjóða og mismun áfallinna og greiddra vaxta.`` Og þá kemur setningin, herra forseti: ,,Lauslega má áætla að munurinn á rekstrargrunni og greiðslugrunni sé a.m.k. um það bil 4 milljarðar kr. um þessar mundir þannig að 1,1 milljarðs afgangur samkvæmt fjárlögum nú samsvarar um það bil 3 milljarða kr. halla á rekstrargrunni.``

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að í raun erum við að leggja upp með fjárlagafrv. sem á að vinnast og þá fjárlög sem eiga að vinnast á rekstrargrunni og það þýðir að í stað þess að vera með afgang upp á rúman milljarð, þá erum við í raun að fara af stað með halla upp á 3 milljarða. Þetta eru atriði sem ég tel að þörf sé á að skoða. Auðvitað er þetta eftir því hvaða forsendur menn gefa sér og eftir hvaða forsendum menn vinna út frá.

Ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að vitna í það sem ég var að segja hér áðan um ástandið í heilbrigðismálunum. Til fjárln. hafa borist fjölmörg erindi, hvert erindið á fætur öðru sem staðfestir það sem ég hef verið að segja hér. Það er slíkur bunki af erindum sem berst til fjárln. um heilbrigðismál og varðandi heilbrigðiskaflann að það þyrfti nánast fræðing til þess að fara í gegnum allar þær ályktanir og umsagnir um biðlista, um fjárvöntun. En ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í örfá svör sem okkur hafa borist. Sérstaklega spurði undirritaður um málefni sem varða glasafrjóvgun og mér barst nú rétt áðan svar við þeirri fyrirspurn og svarið segir mér að áætlaður fjöldi glasafrjóvgunarmeðferða fyrir 1996 sé um 300. Auk þess eru framkvæmdar tæknisæðingar, um 200 meðferðir á ári. Núna bíða 477 pör eftir meðferð, þar af eru um 80 pör að bíða eftir smásjárfrjóvgun sem vonandi hefst í mars 1997. Herra forseti. Ég hafði þau svör frá heilbrrn. að þessar aðgerðir ættu að hefjast í september eða október á þessu ári, en það er eins og annað að það stendur nánast ekki steinn yfir steini í þeim svörum sem maður fær, hvort sem það er frá umræddu ráðuneyti eða öðrum. Það er ástæða til að nefna fjölmörg atriði.

Herra forseti. Ég tel að það sé ekki fært annað en að ræða um málefni aldraðra nokkuð við þessa umræðu og að menn geri sér grein fyrir því hvernig aldraðir eru staddir í dag eftir þá aðgerð sem meiri hlutinn hér á Alþingi eða hæstv. ríkisstjórn þvingaði í gegn þegar bætur til elli- og örorkulífeyrisþega voru aftengdar og eiga að vera háðar almennu verðlagi í landinu. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 2% hækkun til þessara aðila. Það hlýtur að vera krafa uppi um að þeirra afkoma tengist við laun. Ég geri sérstaka athugasemd við grunnlífeyri aldraðra sem var stofnað til með lögum árið 1946 með sérstakri skattheimtu. Ég geri sérstaka athugasemd við það að þeir skuli fá lakari meðferð en önnur eftirlaun hjá ríkinu. Grunnlífeyrir átti að vera fyrir alla 67 ára og eldri, án tillits til tekna, en hefur verið tekjutengdur síðan 1992 og óverðtryggður frá síðustu áramótum. Eftirlaun ríkisstarfsmanna eru aftur á móti tryggð með hlutfalli af launum sem eru greidd fyrir þau störf sem viðkomandi hefur farið úr en almennir lífeyrissjóðir miða við vísitölu neysluverðs. Verðtrygging grunnlífeyris var fyrir aftenginguna miðuð við launataxta verkamanna en þeim töxtum vil ég meina að hafi vísvitandi verið haldið niðri vegna þessara og annarra viðmiðana, t.d. ákvæðistaxta. Þetta hefur leitt til þess að upphæðin er nú aðeins 10% af verkamannalaunum en var um 21% árið 1969 þegar almennu lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir. Vegna þess hve seint sjóðirnir voru stofnaðir skiptir grunnlífeyririnn mjög miku máli.

Herra forseti. Það væri ástæða til að fara nákvæmlega yfir stöðu eldri borgara í þessari ræðu, en það er kannski líka ástæða til að draga þá umræðu til fjárlagaumræðunnar því að það verður að mínu mati að flytja tillögur og ég trúi ekki öðru en hv. Alþingi samþykki það að tengja afkomu elli- og örorkulífeyrisþega við almenn laun í landinu. Annað gengur ekki.

Til að styðja þá framsetningu sem ég hef sett fram er rétt að fara nokkuð yfir þá biðlista sem eru í heilbrigðisgeiranum og vitna þá til nokkurra atriða frá landlækni. Hvað halda menn að þeir séu margir sem bíða eftir aðgerðum á bæklunardeildum á Landspítala, Borgarspítala, Landakotsspítala og St. Jósefsspítala? Það eru 1.367 sem sannanlega bíða eftir bæklunaraðgerð. Hvað þýðir þessi tala? Hún þýðir að það er enn meiri fjárvöntun í kerfinu heldur en ég hef verið að ræða um hér. Það eru 1.108 sem bíða eftir aðgerðum á háls-, nef- og eyrnadeild. Það eru 300 sem bíða á biðlistum eftir aðgerðum á þvagfæradeild. Það eru 410 sem bíða aðgerða á öðrum deildum. Einu biðlistarnir sem náðst hefur að stytta er fyrir hjartaþræðingar og hjartaskurðlækningar og er það auðvitað vel. En eftir sem áður er mjög mikill þrýstingur í kerfinu og það verður að taka á þeim málum. Að því mun koma að krafan verði svo hávær að kerfið springi.

Herra forseti. Eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom inn á vil ég fara nokkrum orðum um hækkun fjárheimilda vegna endurmats á eftirlaunum fyrrv. bankastjóra Útvegsbankans. Þar var fyrir 15 aðila, eins og hér hefur komið fram, óskað eftir 70 millj. kr. hækkun fjárheimildar á liðnum Uppbætur á lífeyri. Fjárþörf á þessum lið mun aukast vegna endurmats sem gert hefur verið á eftirlaunum fyrrv. bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands. Lagt er til að fjárheimild verði hækkuð um 25 millj. til þess að gera upp vangreidd eftirlaun þeirra á tímabilinu frá því í desember 1993 fram í ágúst 1996 og áætlað er að árlegur kostnaðarauki vegna þessa verði um 7 millj. kr. á ári. Gert hefur verið ráð fyrir þessari hækkun í fjárlögum 1997. En ég vil vekja sérstaka athygli á þessu máli vegna þess að ég tel að nánast allir launþegar á Íslandi eigi hönk upp í bakið á ríkisvaldinu vegna þessara aðgerða. Það er óréttlæti sem verið er að framkvæma hér. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort þeir einstaklingar sem þarna er um að ræða séu ekki í störfum annars staðar. Svo er rétt að spyrja um það hvort fyrrv. bankastjórar og aðstoðarbankastjórar fái ekki greidd eftirlaun úr ríkissjóði til viðbótar fyrir önnur störf. Eða koma þau kannski til frádráttar, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði um á þingi í haust?

Herra forseti. Ég fer ekki fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Það gefst tækifæri til þess við 3. umr. Ég reikna ekki með því að fá skýringar á ýmsum einstökum liðum en ég vildi aðeins vekja athygli á þeim atriðum sem ég hef þegar nefnt. Og að lokum er ástæða til að hafa orð á því að framkvæmdarvaldið tekur sér of mikið vald til ráðstöfunar fjármuna án þess að leita samþykkis löggjafarvaldsins. En í þeim tilvikum sem það er unnt á framkvæmdarvaldið alls ekki að ráðstafa fjármunum án heimilda. Þetta er meginatriðið í því sem ég hef verið að ræða um, herra forseti. Og ég hef farið nokkuð inn á fjárlagagerðina vegna þess að þetta tengist óhjákvæmilega þeim niðurstöðum sem við reiknum með að hafa í höndunum á sama tíma að ári.