Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 17:06:03 (1987)

1996-12-10 17:06:03# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég tel að margar þær breytingar sem lagðar eru til á umferðarlögunum séu til bóta og muni væntanlega tryggja betra umferðaröryggi. Ég nefni t.d. það sem lagt er til í frv. að rétturinn til að stjórna bifreið feli sjálfkrafa í sér rétt til að stjórna léttu bifhjóli og þar sem lagt er til að enginn megi stjórna torfærutæki nema hann hafi gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið.

Í allshn. sem ég á sæti í var mikið rætt um æfingaaksturinn, eins og formaður nefndar ræddi um. Að vel athuguðu máli tel ég til bóta að hann megi hefjast tólf mánuðum áður en nemandi hefur aldur til að fá ökuskírteini útgefið í stað sex mánaða. Ég hefði þó viljað sjá þær breytingar sem eru lagðar til um þessa tólf mánuði að það miðaðist við 17 ára aldurinn sem mætti hefja þennan æfingaakstur með ökukennara eða leiðbeinanda og að ökuleyfisaldurinn yrði hækkaður í 18 ár eins og er í öllum löndum Evrópu nema í Bretlandi og Írlandi.

Hv. frsm. og formaður nefndarinnar gat þess að nefndin legði áherslu á að viðhorfskönnun færi fram hjá unglingum á aldrinum 17--24 ára og forráðamönnum þeirra til að hækka ökuleyfisaldurinn í 18 ár og að undir það hafi hæstv. dómsmrh. tekið og vil ég fagna því alveg sérstaklega. Ég held einmitt að þegar slík viðhorfskönnun liggur fyrir geti þeir sem að þessum málum koma betur gert sér grein fyrir hvort rétt sé að færa ökuleyfisaldurinn upp í 18 ár, sem er eins og ég sagði í flestum löndum Evrópu. Það er mjög sérkennilegt að við skulum skera okkur úr í þessu efni og allir vita að slysin verða helst hjá yngstu aldurshópunum, 17 og 18 ára. Ég tel mjög brýnt að það sé skoðað með opnu hugarfari hvort við eigum ekki að feta okkur inn á þá braut að hækka ökuleyfisaldurinn.

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nál. allshn. með fyrirvara og lýtur fyrirvari minn að 3. gr. frv. þar sem lagt er til að ökuhraði bifreiða með eftirvagni eða skráð tengitæki megi aldrei verða meiri en 80 km. Það er sem sagt verið að hækka hann úr 70 í 80 og verið er að færa ökuhraða bifreiða með eftirvagni sem er án hemla úr 50 í 60 km/klst. Ég hef langt frá því sannfæringu að við séum að fara inn á rétta braut með því að hækka ökuhraðann á bifreiðum með eftirvagna og tel að það geti valdið því að hraðinn á þessum bifreiðum muni vissulega aukast. Ef menn eru að hugsa um framúrakstur í því sambandi verður bara enn erfiðara að komast fram úr þessum bílum þó að ég sjái rökin þegar menn tala fyrir því að það sé verið að reyna að jafna ökuhraðann vegna framúraksturs.

Það hafa verið gerðar kannanir á slysum vegna þungaflutninga á þjóðvegum landsins og t.d. á síðasta þingi kom fram svar hæstv. dómsmrh. við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um öryggi við þungaflutninga á þjóðvegum og þar var bæði um að ræða eftirvagna og vörubíla almennt og hefur verið um verulegan fjölda slysa að ræða en þar eru gefin upp árin 1992, 1993, 1994 og 1995. Á þessu árabili hefur fjöldi slysa orðið 17 á ári upp í 24 á árinu 1995, 26 árið 1994 og 19 árið 1993. Og fjöldi slasaðra og látinna á þessu tímabili er einnig verulegur og jókst úr 29 í 51 milli áranna 1993 og 1994.

Það hefur verið erfitt að fá fram upplýsingar sérstaklega um tengivagnana og slys vegna þeirra en það sem næst verður komist er könnun sem var gerð um fjölda slysa dráttarbifreiða og dráttarvéla sem hugsanlega hafa verið með eftirvagni, sem ekki er nú nægilega marktæk fyrir þessa umræðu. Þau hafa þó alls á árunum 1993, 1994 og 1995 verið 24 og fjöldi slasaðra 39. Ég tel þess vegna og hef enga sannfæringu fyrir því að hér sé verið að fara inn á rétta braut með því að auka hraðann og vil geta þess af því að fram kemur að Umferðarráð mælir með þessu og er vissulega rétt að í umsögn Umferðarráðs er mælt með þessu. Það varð niðurstaða meiri hlutans í Umferðarráði að mæla með þessari breytingu en þar voru allir ekki sammála því að af sjö sem tóku afstöðu voru þrír á móti að hækka hraðann úr 70 í 80 á bifreiðum með eftirvagna og þar af var m.a. fulltrúi lögreglunnar í Reykjavík og FÍB. Auk þess bendir Ökukennarafélag Íslands á eftirfarandi sem mælir einnig með þessari breytingu en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Vel gæti komið til greina að hafa hann eitthvað lægri á ákveðnum vegum sem af einhverjum ástæðum teldust ekki eins öruggir og t.d. hringvegurinn.`` Hér er ekki gerður neinn greinarmunur á hvort það er hringvegur eða einhver annar vegur heldur er verið að hækka þetta alls staðar upp í 80 km. Ég mun því, virðulegi forseti, sitja hjá við 3. gr. frv. sem fjallar um að auka ökuhraðann.

Ég vil aftur fagna þessari könnun sem allshn. hefur mælt með við dómsmrh. að fari af stað, könnun á því að hækka ökuleyfisaldurinn í 18 ár. Það hefur verið gerð slík könnun. Hún var gerð 1988 á vegum Umferðarráðs. Það var úrtakskönnun sem var gerð á vegum Hagvangs fyrir Umferðarráð. Þar kom fram að rúmlega helmingur þeirra sem voru spurðir eða 53,8% taldi rétt að hækka bílprófsaldurinn og það var kannski sérstaklega athyglisvert mismunandi viðhorf karla og kvenna. Samkvæmt þessari könnun voru konur yfir 80% þeirra sem telja ástæðu til að hækka bílprófsaldurinn og meira en helmingi færri konur minnast þess að hafa setið í bíl með ölvuðum ökumanni heldur en karlar.

Hér er vissulega um annars konar könnun að ræða sem allshn. telur brýnt að fari fram vegna þess að hún tekur til ákveðins markhóps á aldrinum 17--24 ára og forráðamanna þeirra. Ég tel brýnt að slíkri könnun verði hraðað þannig að við getum hér á Alþingi m.a. í ljósi þeirrar könnunar metið hvort rétt sé að stíga inn á þá braut að hækka ökuleyfisaldurinn.