Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 20:37:10 (1994)

1996-12-10 20:37:10# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á umferðarlögunum. Ég vil taka fram að ég sit í allshn. þingsins og skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara.

Það voru einkum tvö samhangandi atriði, herra forseti, sem stóðu í undirritaðri við yfirferðina á frv. Það er í fyrsta lagi það atriði að heimila æfingaakstur frá 16 ára aldri, þ.e. sex mánuðum fyrr en heimilt er samkvæmt núgildandi lögum. Á Norðurlöndunum tíðkast að heimila æfingaakstur frá 16 ára aldri þó að ökuleyfisaldurinn þar sé 18 ár. Ég er sannfærð um að lengra æfingatímabil er æskilegt, þ.e. lengja það upp í eitt ár eins og hér, en hef ekki nógu góða sannfæringu fyrir því hvers vegna ökuleyfisaldurinn hér á að vera 17 ár á meðan hann er 18 ár í velflestum nágrannalanda okkar öðrum en Englandi.

Þar sem það varð niðurstaðan í nefndinni að fá dómsmrn. til að gera könnun á viðhorfum fólks til þess að breyta ökuleyfisaldrinum frá 17 og upp í 18 ár, þá féllst ég á að hafa ekki fyrirvara og hafa ástandið óbreytt því það er vissulega rétt að slík breyting þyrfti að fá nokkurn aðdraganda. Ég tel að með þessu nefndaráliti og ræðu hv. formanns nefndarinnar sé búið að koma þessu máli í umræðu. Að mínu mati er þetta enn eitt dæmið um það hvað við veitum unglingum meiri ábyrgð fyrr en aðrar þjóðir í kringum okkur og ég er ekki alveg sannfærð um að það sé til góðs í þessu tilviki. Slys á ungu fólki og ungum ökumönnum eru að mínu mati allt of mörg þó að ekki sé alveg ljóst hvort þau stafa fyrst og fremst af reynsluleysi eða bæði af ungum aldri og reynsluleysi. Ég tel því eðlilegast að við fylgdum nágrannalöndunum, ekki síst núna þegar ungt fólk ferðast mikið til útlanda og það getur hugsanlega skapað viss vandamál ef ökuleyfisaldurinn er ekki samræmdur. Ég fagna því væntanlegri könnun og vona að niðurstöður hennar sýni hver afstaða almennings er til þessa atriðis, ekki síst afstaða ungs fólks og foreldra þess.

Varðandi breytingartillögu Vilhjálms Egilssonar og fleiri um að hækka hámarkshraða upp í 110 km, vil ég aðeins taka fram að afstaða okkar kvennalistakvenna er sú að þetta sé vond tillaga. Við teljum að vegakerfi okkar geti ekki tekið við þessum umferðarhraða. Við erum búin að sjá mikil samanburðargögn frá öðrum löndum og þessi hraði virðist hvergi vera leyfður nema þar sem um aðskildar ökubrautir er að ræða þannig að framúrakstur verði ekki hættulegur. Ég mun því ekki greiða þeirri breytingartillögu mitt atkvæði.