Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 21:13:26 (2001)

1996-12-10 21:13:26# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það kom mér ekki á óvart þegar hv. þm. upplýsti að hann hefði ekki gert neina vísindalega könnun á þessu máli og byggði fyrst og fremst á tilfinningum sínum sem ökumaður. Ég ætla ekkert að lasta þær tilfinningar og ég hef ekki farið í það marga bíltúra með hv. þm. að ég þekki sérstaklega til ágætis hans sem ökumanns. En mér finnst þetta ekki mjög traustur, vísindalegur eða efnislegur grunnur undir tillöguflutning af þessu tagi. Ég verð að segja það alveg eins og er.

Ég held að hv. þm. hefði átt að kynna sér gögn sem liggja fyrir hjá Vegagerð ríkisins, Umferðarráði og öðrum aðilum um t.d. hraðann. Þegar hv. þm. lýsir á skáldlegan hátt hversu fallegt sé að rúlla niður Holtavörðuheiðina að norðan á skráþurrum vegi með jöklasýn, sem sagt í glansbjörtu veðri eins og þegar aðstæður geta orðið bestar þá er það bara ekki frambærilegur málflutningur. Auðvitað koma þeir björtu, þurru og fallegu sólskinsdagar þegar menn eru aleinir á ferð, og ég tala nú ekki um heimfúsir, að það kannski freistar þeirra að aka hraðar og út af fyrir sig er engin stórkostleg áhætta tekin í öryggislegu tilliti við slíkar aðstæður. En við munum aldrei setja hámarkshraðann á íslenska vegakerfið út frá slíkum kjöraðstæðum. Það sem við erum að leita að er skynsamleg málamiðlun, skynsamleg mörk sem taka að breyttu breytanda mið af öllum þeim þáttum sem þarna þarf að vega saman, þar með talið breytilegum skilyrðum, þar með talið misjöfnu ástandi veganna, þar með talið mjög misjöfnum bílum, þar með talið misjöfnum ökumönnum, ungum og gömlum, reynslulitlum og reyndum o.s.frv. Þannig verður að reyna að vega saman þessa þætti og finna hvað er skynsamlegt og farsælt. Að sjálfsögðu verða einstöku ökukappar og menn sem hafa mikið álit á sjálfum sér sem bílstjórar einfaldlega að sætta sig við að þarna er farin málamiðlunarleið. Þannig er það.