Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:00:12 (2009)

1996-12-10 22:00:12# 121. lþ. 38.9 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:00]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 294 og frhnál. á þskj. 293 við frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Brtt. eru frá meiri hluta efh.- og viðskn. Auk þess vil ég, hæstv. forseti, vekja athygli á því að ég er með í undirbúningi eina brtt. í viðbót og óska eftir að geta gert grein fyrir henni og óska því eftir því að þessari umræðu ljúki ekki í kvöld. Þær brtt. sem hér liggja fyrir eru í fimm liðum. Í 1. lið brtt. er lögð til lagfæring á orðalagi í 1. gr. frv. til samræmis við gildandi lög.

Í 2. lið brtt. er lagt til að smávægileg breyting verði gerð á orðalagi í 3. gr. til þess að koma í veg fyrir að mistúlka megi ákvæðið. Þetta fjallar um frestun á hlutabréfaafslætti.

Í 3. lið brtt. er lagt til að tekjuskattsprósenta 10. gr. frv. verði lækkuð um 0,09 prósentustig. Þetta er gert til að auka svigrúm sveitarfélaga til hækkunar á útsvari í sama hlutfall til að mæta auknum kostnaði í fullnustu lífeyrissjóðsskuldbindinga grunnskólakennara vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga.

Í 4. lið brtt. eru lagðar til breytingar á gildistökuákvæði til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á frv. við 2. umr. og í 5. lið brtt. er lagt til að hátekjuskattur verði framlengdur um eitt ár til viðbótar með tillögum til breytinga á ákvæðum I og IV til bráðabirgða í lögunum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.