1996-12-11 00:09:22# 121. lþ. 38.19 fundur 162. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[24:09]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ábending eða athugasemd hv. þm. um að það hefur nú ekki gengið alltaf nógu vel að halda lífinu í svæðisbundinni starfsemi og m.a. á heilbrigðissviði. Ég tek sannarlega undir það. Varðandi þá tillögu Alþingis sem samþykkt var, ég held 1990, um að komið skyldi á fót skrifstofu heilbrigðismála í hverju kjördæmi landsins þá hefur sáralítið og í rauninni ekkert orðið úr efndum á því máli eða atfylgi af hálfu ríkisvaldsins, því miður. Hér er sannarlega um að ræða starfsemi sem fram fer í öllum kjördæmum landsins, þar sem um mikla fjármuni er að tefla, þar sem mikil nauðsyn er á að efla svæðisbundin tök og stýringu með þátttöku heimamanna og jafnframt að gera skilvirkara ráðuneyti heilbrigðismála. Þarna hefur skort viljann, því miður. Þetta var sett í nefndir en það kom ekkert út úr þessu og það varðar tímabilið sem umrædd ríkisstjórn undir forsæti núv. hæstv. forsrh. hefur verið við völd, frá 1991 og hefur ekki gengið sem skyldi. En vel sé þeirri hugsun sem hefur fæðst á landsfundi Sjálfstfl. að gera eitthvað betur í þessum efnum og ég get verið sammála hv. flutningsmanni tillögunnar að það er seint fullreynt, einnig þegar Sjálfstfl. á í hlut.