Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:32:53 (2124)

1996-12-12 18:32:53# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:32]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist vegna þessara síðustu orðaskipta hæstv. ráðherra og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og komið aðeins inn í þessa umræðu og bent á það að ég og fleiri hafa verið þeirrar skoðunar að lögin frá 1976 séu ekki góð m.a. vegna þess mikla framsals til ráðherra sem þar er heimilað. Þess vegna teldi ég ekkert óeðlilegt að það væru sett ný lög en þau lög ættu m.a. að afnema hin lögin og aftaka þetta mikla framsal sem hæstv. ráðherra hefur. Ég tel að í þessum nýjum lögum, við breyttum þeim reyndar sl. vor, sem ættu að verða til í stað þessa bálks sem við erum nú að samþykkja ætti fyrst og fremst að kveða á um veiðieftirlit eins og Norðmenn og Kanadamenn eru að gera og í öðru lagi ætti að heimila að veiðar á úthafinu séu frjálsar og segja eitthvað nánar um stjórnunarstofnanir. Það þarf alls ekki að færa núgildandi lög um stjórn fiskveiða út yfir öll höf. Þess vegna er ég sammála hæstv. ráðherra að því leyti að núverandi löggjöf er mjög opin. Mér finnst að dómur Hæstaréttar í máli Samherja og íslenska ríkisins, sem hér hefur oft verið vitnað til, einmitt segja okkur að lögin frá 1976 eru ótæk. Við þurfum önnur lög sem takmarka þessar heimildir til ráðherrans. En það erum við ekki að gera nema að mjög takmörkuðu leyti með þessum ítarlega lagabálki sem hér er til umræðu.