Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 19:54:41 (2132)

1996-12-12 19:54:41# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[19:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar fólk er á öndverðum meiði, er kannski ekki svo auðvelt að takast á um það í tveggja mínútna tali hjá hvorum aðila um sig. Ég er hlynnt því að hið dreifða vald sé í höndum stórra og öflugra sveitarfélaga. Þingmaðurinn vill miðstýrt þriðja stjórnsýslustig. Það mætti prófa að draga upp mynd af þessu. Annars vegar værum við að tala um sveitarfélög af ólíkri stærð, t.d. á Vestfjörðum þar sem við þingmaðurinn þekkjum svo vel til. Þriðja stjórnsýslustigið væri þá væntanlega fyrir Vestfirði eina og sér og væri með ákveðin verkefni og sveitarfélög vísuðu til þeirra og tækju við frá Reykjavík. Eða við sæjum fyrir okkur hugsanlega tvö sveitarfélög á Vestfjörðum. Þau hefðu tekið við verkefnum frá Reykjavík og væru að horfa með mikilli yfirsýn yfir verkefni síns sveitarfélags hvors um sig. Svo verður bara hver og einn að dæma hvort mikill munur er á þessu hugmyndafræðilega eða hvort við erum að tala um það stjórnsýslulega.