Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 20:33:57 (2136)

1996-12-12 20:33:57# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[20:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir afar málefnalega umræðu sem hér hefur farið fram. Ég átti reyndar ekki von á því að hún yrði þetta löng en ég sé ekki eftir þeim tíma sem í hana hefur farið. Hér hefur verið rætt af yfirvegun um málefni fatlaðra og margt komið fram sem ástæða er til að velta fyrir sér. Ég er mjög ánægður yfir þeim tóni sem hefur verið í þessari umræðu. Ég held nefnilega að okkur greini ekki á um endamarkið, ef svo mætti segja, þ.e. að reyna að búa vel að fötluðum samborgurum okkar. Það kann að vera meiningarmunur um forgangsröðun, það kann að vera meiningarmunur um áherslur en meginmarkmiðið held ég að við getum verið sammála um og það er vel. Þessi mál á að vera hægt að ræða með þeim hætti sem hér hefur verið gert í kvöld.

Það eru örfá atriði sem mig langar til að fara aðeins út í. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson dró nokkuð í efa að nóg reynsla yrði fengin af reynslusveitarfélagaverkefninu og því hefði verið hyggilegra að bíða. Ég skal ekki fullyrða að þessi yfirfærsla takist 1. janúar 1999. Það er hugsanlegt að fari með þetta verkefni eins og með yfirfærslu grunnskólans að því verði frestað, en ég held að það sé hins vegar mikilvægt að marka stefnuna þannig að menn viti hvert þeir eru fara og hvert þeir eru að stefna og hvað þeir eru að undirbúa. Ég vona hins vegar að þetta takist 1. janúar 1999. Þá verður fengin umtalsverð, og ég vænti mikilvæg, reynsla af reynslusveitarfélagaverkefninu á Akureyri og reyndar í Vestmannaeyjum líka því þar er gengið að þessu verki á grundvelli reynslusveitarfélagaverkefnisins. Á Húsavík hins vegar og á Hornafirði er það á grundvelli laganna um málefni fatlaðra samkvæmt heimild í 13. gr. Það er ekki þáttur í reynslusveitarfélagaverkefninu í þessum tveimur sveitarfélögum. Um reynslusveitarfélagaverkefnið almennt vil ég segja að það hefur gengið hægar en ég átti von á þegar ég kom í ráðuneytið að ná lendingu í ýmsum efnum. Þó hefur það náðst sem mikilvægast er, að koma ýmsum þáttum út til einstakra sveitarfélaga til að prófa hvort þeir passi þar. Það var náttúrlega fyrst og fremst tilgangurinn með reynslusveitarfélagaverkefninu. Ég held að menn hafi verið of stórhuga og ráðist í of mikið, reynslusveitarfélögin hafi verið of mörg og menn hafi dreift kröftunum fullmikið.

Varðandi það hve mörg ár þurfi að líða til þess að marktæk reynsla fáist þá geta menn haft ýmsar skoðanir á því. Ég held að í Norðurlandi eystra verði komin býsna sterk vísbending um hvernig sveitarfélög geta staðið að þessu máli eftir tvö ár.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson taldi þessa tillögu snemmbæra. Það er út af fyrir sig rétt að tillagan um yfirfærsluna er fyrr á ferðinni heldur en menn gerðu ráð fyrir þegar lögin um reynslusveitarfélög voru samþykkt. En Samband íslenskra sveitarfélaga leitaði eftir því að fá þennan málaflokk og gerði um það samþykktir. Samtök fatlaðra gerðu það einnig. Og ég taldi að stjórnvöld ættu að bregðast vel við þessum óskum og reyna að koma þessari yfirfærslu á.

Til hvers er verið að þessu? spurði hv. þm. Hvert er markmiðið með að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna? Í mínum huga er markmiðið það að reyna að bæta þjónustuna við hina fötluðu. Það er algerlega númer eitt og ef það tekst ekki þá eigum við ekki að gera þetta. Ég held líka að þá nýtist fjármunir betur vegna nálægðar. Þar sé bæði hægt að veita betri þjónustu og nýta fjármuni með markvissari hætti þegar nálægðin og staðþekkingin kemur til.

Menn hafa sumir haft áhyggjur af því hvernig lítil sveitarfélög geti staðið að þessu verki. Það er þegar fengið módel af því í Norðurlandi eystra þar sem tvö stór bæjarfélög taka verkefnið að sér en sveitarfélögin í kring standa að því með þeim. Það er hægt að finna margvíslegt form á því hvernig sveitarfélögin geta tekið við þessu.

Ég tel að málefni fatlaðra séu í tiltölulega góðu lagi á Norðurlandi vestra undir prýðilegri stjórn Sveins Allans Morthens sem er þar svæðisstjóri. Ég get vel hugsað mér að svæðisstjórnin á Sauðárkróki haldi áfram utan um þessi málefni á Norðurlandi vestra, hugsanlega á vegum Sambands sveitarfélaga í Norðurlandi vestra. Það er líka hægt að hugsa sér það að svæðisstjórnin á Sauðárkróki, eða það batterí sem þar er, yfirtaki málefnin í Skagafirði og að Húnvetningar komi sér upp öðru batteríi. Ég ekkert mjög hræddur um að það leysist ekki. Auðvitað þarf að koma jöfnun á milli sveitarfélaga, eins og t.d. er með grunnskólann. Það er eðlilegt að hluti af því framlagi sem ríkið leggur til í verkefnið verði í því formi að komi til jöfnunar eins og er með grunnskólann. Við höfum náttúrlega mikla reynslu af samvinnu lítilla sveitarfélaga og ég get sagt frá því að mitt sveitarfélag hefur í milli 20 og 30 ár, líklega nær 30 ár, verið aðili ásamt sex öðrum litlum sveitarfélögum að rekstri grunnskóla. Eftir því sem ég veit best hefur það gengið vel að því leyti til að ég man ekki til að hafi nokkurn tímann orðið árekstrar út af fjármálum eða rígur á milli sveitarfélaganna út af þessum skólarekstri. Það hefur verið prýðilegt samkomulag og engir erfiðleikar varðandi hinn praktíska rekstur á þeim skóla svo mér sé kunnugt um í allan þennan tíma. Þannig að sveitarfélög geta auðvitað komið sér saman um verkefni.

Ég geri ráð fyrir því að þegar 1. janúar 1999 rennur upp hafi allmörg sveitarfélög sameinast til viðbótar þeim sem þegar eru sameinuð og málin leysast að einhverju leyti á þann hátt.

Hv. 5. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, gerði athugasemdir við það að þarna væru tvær nefndir, önnur í að endurskoða lögin um málefni fatlaðra og hin um að endurskoða lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég skal útskýra af hverju ég gerði þetta svona. Það var vegna þess að þegar nefndirnar voru skipaðar var ekki búið að taka þessa ákvörðun um yfirfærslu og ég gerði reyndar ekki ráð fyrir því að hún yrði tekin svo snemma sem raun bar vitni, að yfirfæra þennan málaflokk til sveitarfélaganna. Annar málaflokkurinn reiknaði ég með að mundi um einhvern tiltekinn tíma a.m.k. tilheyra sveitarfélögunum en hinn mundi verða áfram á forræði ríkisins og þess vegna urðu nefndirnar tvær. Önnur hefur þegar skilað af sér. Hin er að því komin að skila af sér og ég vonast eftir að geta lagt fram frv. um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga fljótlega eftir jól. En í framhaldi af starfi þessara tveggja nefnda tel ég einboðið að við þurfum að setja upp eina nefnd sem gengi í það verk að fella saman þessi tvenn lög.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira en endurtek þakkir mínar fyrir ágætar umræður um þetta tiltekna þingmál.