Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 13:41:07 (2145)

1996-12-13 13:41:07# 121. lþ. 43.1 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., SvanJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[13:41]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Samkvæmt 3. mgr. þessarar greinar er gert ráð fyrir því að ráðherra geti látið úthafsútgerðirnar greiða fyrir aðgang að úthafinu auk þess gjalds sem þeim bera að greiða fyrir eftirlit. Það kom fram í hv. nefnd að ráðherra hyggst nýta sér þessa heimild og innheimta gjaldið. Það þýðir að þær útgerðir sem hafa verið að vinna veiðireynslu í úthafinu verða að láta af hendi 15% af þeim aflaheimildum sem þær ættu að fá miðað við reynslu. Þetta er veiðileyfagjald, herra forseti, en það vekur furðu að þeir einu sem stjórnarliðar virðast telja að eigi að geta greitt veiðileyfagjald eru þeir sem eru á úthafinu og stunda áhættusömustu veiðarnar. Og það sem vekur enn meiri furðu er að þessum aðilum er ekki gert að greiða fyrir í krónum og aurum heldur í þorskígildum sem úthlutað verður til þeirra sem núna hafa veiðiheimildir innan lögsögunnar. Þeir sem fá veiðiheimildum úthlutað ókeypis innan lögsögu verður einnig úthlutað því sem úthafsútgerðirnar verða skertar um. Hvar er jafnræðisreglan, herra forseti? Ég segi nei. (Gripið fram í: Við veiðileyfagjaldi?)