Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 14:50:28 (2153)

1996-12-13 14:50:28# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[14:50]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að huga að þessum dæmum sem ég kom með. Þetta eru tvö dæmi af fjölmörgum sem eru í gangi sem ég tel að beinist að því að verið sé að hlunnfara sjómenn um hlut úr þeim afla sem þeir draga að landi. Vera má að það sé rétt fram sett hjá hæstv. fjmrh. að þetta séu ekki tapaðar skatttekjur. En einhvern veginn sé ég það fyrir mér að fyrirtækið sem gerir út skipið geti farið í skattalega meðferð með þennan hluta aflans á allt annan máta en einstaklingurinn sem ber tekjur. Ég er ekki vel að mér í skattarétti, en ég hef þó stórar áhyggjur af því hver þróunin er að verða varðandi fiskveiðistjórnunina og varðandi þetta kvótasvindl sem ég vil kalla að viðgangist.

Ég bar fram nokkrar aðrar fyrirspurnir sem ég vona að tækifæri gefist til að svara úr því að hæstv. fjmrh. var við umræðuna, sem ég vil enn og aftur þakka. Ég ítreka enn að ég tel að hæstv. ríkisstjórn eigi að skipuleggja tíma sinn þannig að þegar mikilverðasta umræðan fer fram á Alþingi, þ.e. 2. umr. og 3. umr. um fjárlög, þá hreinlega beri ríkisstjórninni allri skylda til að vera hér við og gefa svör. Og ég ítreka enn þakkir til þeirra ráðherra sem hér hafa verið og þeirra sem eru nú í salnum, hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh.