1996-12-14 00:32:45# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[24:32]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Fjárlög hæstv. ríkisstjórnar eru til umræðu og hafa þau orðið mörgum tilefni til athugasemda í dag. Fjárlög eru stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar í efnahagsmálum og ein mikilvægasta efnahagslega ákvörðunin sem tekin er í landinu á hverju ári. Þessi stefnuyfirlýsing, þessi bláa bók sem við höfum verið að fjalla um ræður um margt lífsafkomu fjölda fólks og afkomu byggðarlaga. Hvaða sýn birtist okkur svo í þessari bók og stefnu hæstv. ríkisstjórnar? Um það hefur verið nokkuð rætt í kvöld. Það sem stendur e.t.v. upp úr er að þetta fjárlagafrv. boðar eiginlega ekkert annað en tilfinningaleysi, tilfinningaleysi gagnvart viðkvæmum hópum í þjóðfélaginu og algjört skeytingarleysi um þeirra hagi.

Ég fagna því vissulega, herra forseti, að heilbrrh. hefur séð sér fært að sitja hér þar til nú og hlýða á mál mitt því ég ætla vissulega beina nokkrum spurningum til hennar. Ég minnist þess enn fremur að í fyrri hluta umræðunnar í morgun lét hæstv. fjmrh. þess getið þegar hv. þm. Gísli S. Einarsson óskaði eftir nærveru forsrh. að það væri algjör óþarfi þar sem fjmrh. væri í raun verkstjórinn í þessu máli. Ég treysti því auðvitað að verkstjórinn sé enn þá í húsinu, hæstv. fjmrh., og hlýði á mál mitt því ég hef sannarlega ýmislegt við hann að ræða um það sem stendur í þessari bók.

Það er dálítið merkilegt að hugsa til þess að það virðist ráða hálfgerð hentistefna hver verkstjórinn er í þessu máli hverju sinni. Þegar verið er að fjalla um niðurskurð í ríkisbúskapnum hefur það einatt verið svar hæstv. fjmrh. að beina allri gagnrýni til fagráðherranna og þeir hafa oft þurft að sitja undir hörðum dómi og mikilli gagnrýni. En nú bregður svo við og við heyrum það hér og nú, að það er í raun fjmrh. sem er verkstjórinn, það er hann sem ræður ferðinni og þá vitum við það. Ég vil engu að síður tala til hæstv. heilbrrh. í kvöld. Ég vil láta þess getið að þó nokkrar athugasemdir mínar við fjárlagafrv. fjalla um málefni sem eru á vettvangi hæstv. félmrh. þá vorum við hæstv. félmrh. í reynd nokkuð sammála um það fyrri hluta dags að það væri í reynd fjmrh. sem réði ferðinni. Þannig að það væri nóg að hafa hann til staðar og ég sætti mig við það.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka ef á að fjalla um þetta fjárlagafrv. í heild sinni eins og það birtist mér og öðrum sem hafa um það talað hér í dag. Ég sagði að mér fyndist það bera vott um tilfinningaleysi þessarar ríkisstjórnar og ég endurtek það. Þessi ríkisstjórn tók við mjög góðu búi. Hún tók við búi sem var búið að rækta og búa vel í haginn fyrir í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var búið að leggja á fólk mjög erfiðar sparnaðarleiðir bæði í heilbrigðiskerfi og velferðarmálum. Það var búið að búa í haginn fyrir hagvöxt sem nú hefur sýnt sig að vera að verða að veruleika. Þess vegna hefði maður haldið að þetta góða bú gæfi hæstv. ríkisstjórn tilefni til að standa við eitthvað af þeim loforðum sem voru gefin kjósendum í aðdraganda kosninganna. En því miður er ekki að finna mörg merki þess í fjárlagafrv.

Af mörgu er að taka ef við viljum skoða velferðarmál og velferðarstefnu ríkisstjórnarinnar ofan í kjölinn. Ég verð að staldra fyrst við málefni fatlaðra sem enn á ný verða fyrir sparnaðarhníf hæstv. ríkisstjórnar. Á síðustu tveimur árum hefur orðið algjör stefnubreyting í áherslum í þeim málaflokki og svo virðist sem hv. þm. Framsfl. hafi algjörlega gleymt öllum kosningaloforðum sínum þá er þeir settu fólk í fyrirrúm. Ég minnist þess glögglega í aðdraganda kosninganna að vera samferða frambjóðendum Framsfl. á ýmsa fundi sem hagsmunasamtök eða vinnustaðir fatlaðra höfðu boðað til. Þá voru hv. núv. þm. Framsfl. ósparir á loforðin um að standa vörð um þennan viðkvæma málaflokk og efla framlög til áframhaldandi uppbyggingar í þágu fatlaðra.

Herra forseti. Hvorki í síðustu fjárlögum né þeim sem hér eru til umfjöllunar er að finna efndir þessara miklu loforða sem fötluðum og aðstendendum þeirra voru gefin í aðdraganda kosninganna. Menn hafa nú í eins og barnið í ævintýri H. C. Andersens uppgötvað að framsóknarmennirnir voru ekki í neinu frekar en keisarinn. Öll þeirra loforð voru yfirboð og eintómar gyllivonir. Í raun muna menn ekki aðra eins aðför að kjörum fatlaðra og aldraðra síðan þessir hv. þm. komust til valda í þeim ráðuneytum sem fara með helstu velferðarmálin. Það er greinilegt að framsóknarmenn hafa ekki haft þrek eða viljastyrk til að standa gegn niðurskurðargleði sjálfstæðismanna í velferðarmálum þjóðarinnar.

Í fyrra var riðið á vaðið með því að aftengja bætur til elli- og örorkulífeyrisþega við almenna kaupgjaldsþróun í landinu. Sá gjörningur er alveg ótrúlegur. Í stað þess að eiga skjól í samningum launamanna eins og áður hefur tíðkast og þannig að hafa ákveðið öryggi og hlutdeild í kaupmáttaraukningu sem þessir hópar hafa fengið, þá eru aldraðir og fatlaðir nú háðir geðþótta fjmrh. sem á hverjum tíma í fjárlagagerð ákveður hversu mörg prósentustig kjör lífeyrisþega mega hækka um alveg óháð kjörum í landinu. Þannig er nú gert ráð fyrir að bætur megi hækka um 2% á næsta ári óháð því um hvaða kaup og kjör á eftir að semja. Það sjá allir hversu lítil virðing lífeyrisþegum er sýnd með þessum vinnubrögðum. Þetta minnir helst á ölmusuhugsun fyrri tíma. Hugsun sem maður hélt að hefði vikið fyrir mannréttindasjónarmiðum nútímamannsins. Þarna birtist tilfinningaleysi þessarar ríkisstjórnar mjög glögglega.

Það er rétt að minna á að þessir hópar hafa engan samningsrétt um kaup sitt og kjör og því er nauðsynlegt að tryggja þeim réttláta viðmiðun og hlutdeild í samningum á vinnumarkaði. Því vil ég ítreka fyrri áskoranir mínar til hæstv. heilbrrh. um að ráðherrann beiti sér fyrir því að þessi gjörningur verði strax leiðréttur þannig að komið verði fram við lífeyrisþega af virðingu á nýjan leik. Um það þarf að fjalla við umræðu um fjárlög og ég vona að hæstv. heilbrrh. og ekki síður hæstv. fjmrh. verði tilbúinn til að svara á eftir þeirri spurningu minni hvort til greina komi að þeirra mati að leiðrétta þennan misgjörning sem fatlaðir og ellilífeyrisþegar hafa orðið fyrir.

Herra forseti. Það er vegið að lífskjörum fatlaðra á fleiri en einn veg. Sú sátt sem fram til þessa hefur ríkt um uppbyggingu á þjónustu við þá hefur nú á nýjan leik verið rofin af hæstv. ríkisstjórn. Frá því að lög um aðstoð við þroskahefta og síðar lög um aðstoð við fatlaða voru samþykkt hefur ríkt góð sátt um að þessi málaflokkur nyti þess markaða tekjustofns sem lögfestur er með erfðafjársjóði. Þetta var liður í átaki sem nauðsynlegt var að hefja til að færa lífsskilyrði fatlaðra til mannsæmandi ástands. Því er ekki nærri lokið þó svo að hægt og bítandi hafi tekist að lyfta grettistaki í þessum mikilvæga málaflokki. Fatlaðir og aðstandendur þeirra hafa sýnt því skilning þegar erfiðleikar þjóðarbúsins hafa verið miklir og hafa í reynd sýnt stjórnvöldum ótrúlega mikla biðlund þegar grípa hefur þurft til sparnaðar eða hagræðingarráðstafana á erfiðleikatímabilum. Því er það ótrúlegt nú að þegar hagvöxtur eykst og efnahagsbatinn segir til sín í bættum kjörum landsmanna almennt, skuli fatlaðir og aðstandendur þeirra ekki fá að njóta uppskerunnar eins og aðrir.

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála að þessi þjóðfélagshópur býr við lakari kjör en þorri landsmanna. Þessi hópur á verulega undir högg að sækja við að stunda menntun, til að eiga rétt á atvinnu og til búsetu á mannsæmandi hátt. Það verður að segjast hér og endurtaka það að margir þeirra búa við sára fátækt. Það liggur alveg ljóst fyrir að í fjárlögum fyrir árið 1997 hefur ríkisstjórnin enn á ný hugsað sér kyrrstöðu í þessum málum. Kyrrstaðan er staðfest með því að aftengja ákvæði laga um að í Framkvæmdasjóð fatlaðra renni óskertar tekjur erfðafjársjóðs. Ríkisstjórnin ætlar eingöngu að skila 165 millj. kr. af áætluðum tekjum sjóðsins upp á 420 millj. Afgangurinn, 255 millj., á að renna beint í ríkissjóð. Þetta endurspeglast síðan í þeirri staðreynd að lítil aukning verður á rekstrarframlögum til heimila fatlaðra, en aðeins er gert ráð fyrir að eitt heimili fyrir einhverfa taki til starfa á næsta ári. Heimili þetta mun aðeins leysa vanda fimm til sex einhverfra ungmenna sem búa við afar erfiðar aðstæður. Vandi annarra verður áfram óleystur.

Í Reykjavík er óveruleg aukning á rekstrarlið eða um 5 millj. kr. Það dugar skammt til að hefja rekstur á þeim viðfangsefnum sem þegar hefur verið veitt stofnfé til, en það voru tvö sambýli og skammtímavistun sem úthlutað hefur verið til úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.

Herra forseti. Í nýlegri könnun sem var gerð í Reykjavíkurumdæmi á högum fatlaðra komu erfiðar og sárar staðreyndir í ljós. Þar er ljóst að yfir 100 manns bíða eftir viðunandi búsetuúrræði og að margir þeirra búa við sára neyð. Með þeim hraða sem hæstv. ríkisstjórn hyggst leysa vanda þeirra og fjölskyldna þeirra er nokkuð ljóst að þeir mega flestir hverjir bíða langt fram á næstu öld eftir að vandi þeirra verði leystur. Sama myndin blasir við í Reykjaneskjördæmi. Þar eru nú 118 manns á biðlista eftir búsetu og þar af um 20 manns á neyðarbiðlista. Það þarf varla frekari vitnanna við. Þessi mál þola ekki þá bið sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett þennan málaflokk í. Það eru engin rök sem hafa heyrst stundum frá hæstv. fjmrh. þegar hann segir að svo mikið hafi verið gert í þessum málaflokki. Ja, hvað er mikið? Er það að leysa vanda 20% þeirra sem í hlut eiga eða 50% eða hvað er það sem hæstv. ráðherrann á við þegar hann talar um mikið? Það er afstætt hugtak.

[24:45]

Það lætur nærri að um 100 börn úr hverjum árgangi greinist með fötlun, allt frá vægri þroskahömlun upp í alvarlegri og flóknari fatlanir. Það er því alveg ljóst að ekki er hægt að stöðva með öllu þróun í svo flóknum málaflokki sem þessum. Það er lífsnauðsynlegt að halda áfram eðlilegri uppbyggingu úrræða ef ekki á að skapast enn alvarlegra ástand en nú er. Fjöldi þeirra sem nú bíða eftir viðunandi úrræðum hlýtur að vera öllum réttsýnum mönnum mikið áhyggjuefni.

Hæstv. félmrh. hefur við nokkur tækifæri lýst því yfir að hann hafi í hyggju að standa vörð um þennan málaflokk og sagt að hann hafi í hyggju að gera sem mest fyrir sem flesta en ekki mikið fyrir fáa. Betur ef satt væri því ekki sjást þess merki í fjárlagafrv.

Herra forseti. Í gær var mælt fyrir nýju frv. um málefni fatlaðra þar sem fram kemur að stefnt sé að því að færa þennan málaflokk til sveitarfélaganna árið 1999. Ég vara hæstv. ríkisstjórn við því að skera svo niður fjárframlög til málefna fatlaðra í aðdraganda þess að málaflokkurinn verði fluttur. Með því er öllum þeim áformum stefnt í voða svo ekki sé talað um heill og hamingju þeirra fjölmörgu fjölskyldna sem í hlut eiga.

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir brtt. sem er kynnt á þskj. 360 þar sem sú sem hér talar og hv. þm. Össur Skarphéðinsson mæla fyrir því að fjárframlag til málefna fatlaðra í Reykjavík verði aukið frá því sem fram kemur í tillögum meiri hluta fjárln. Ég vona að þessi litla aukning sem hér er mælt fyrir hljóti náð fyrir augum hæstv. fjmrh., verkstjóra ríkisstjórnarinnar, og hv. fjárln. en lagt er til að það komi til viðbótar fjárframlag til rekstrar sambýla í Reykjavík og fjármagn verði sett í það að koma af stað nýjum lið, sem er skammtímavistun. Eins og ég gat um áðan eru þetta einmitt þau úrræði sem þegar liggur fyrir að framkvæmdafé er til fyrir en ljóst er að þær framkvæmdir, sem þegar er búið að veita fjármagni til úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, muni ekki fara af stað nema til þeirra fáist rekstrarfé. Því vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. fjmrh. og hv. fjárln. að þetta verði tekið til vinsamlegrar athugunar, eins og ræðumaður hér á undan nefndi svo.

Þessar tillögur eru þess eðlis að verði þær samykktar verður hægt að tryggja rekstur þessara stofnana a.m.k. þrjá mánuði síðla árs 1997 og með því mundi þeim sem hafa vænst þessara úrræða verða gefin ný von, og ekki síst væri þeim gefin örlítil hlutdeild í efnahagsbata þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka þegar velferðarmálin eru annars vegar og þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ræddar. Það vakti miklar væntingar hjá geðfötluðum og geðsjúkum og aðstandendum þeirra árið 1992 þegar réttindi til að njóta þjónustu voru tryggð með lögum um málefni fatlaðra og jafnframt var það vilji þáv. ríkisstjórnar að gera sérstakt átak í þeirra þágu. Það átak hófst eins og gert var ráð fyrir en nú hefur það því miður gerst að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að ljúka ekki því átaki. Það vantar á að efna þau loforð sem þessu fólki voru gefin með þessu lagaákvæði og ég vil leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þessa ákvörðun sína og bæta geðfötluðum það upp við afgreiðslu fjárlaga, sem þeim var lofað af fyrrv. ríkisstjórn og bæði núverandi og þáv. hæstv. fjmrh. Ég bið hann því vinsamlega að hafa til athugunar þau loforð sem hann gaf þá hvort ekki sé hægt að efna þau í ljósi þess mikla efnahagsbata sem okkur er spáð.

Virðulegi forseti. Það eru margvísleg vandamál sem fatlaðir og aðstandendur þeirra þurfa að glíma við. Ég vil leyfa mér að vitna í grein sem birtist í málgagni hæstv. heilbrrh. Degi-Tímanum, sem ég geri ráð fyrir að sé enn þá málgagn Framsfl., og vil ég fá að lesa nokkrar glefsur úr þeirri grein. Greinin er skrifuð af ungri konu sem heitir Ástrós Sverrisdóttir. Hún er formaður Umsjónarfélags einhverfra og foreldri einhverfs barns. Hún segir, með leyfi forseta:

,,Börn eru greind með einhverfu en hvað tekur við? Áframhaldandi óvissa, óöryggi og bið. Það eru til leiðir til að hjálpa barninu en þær standa ekki til boða núna. Kerfið gleymdi að gera ráð fyrir því að börn mundu fæðast áfram með einhverfu og þar sem þeim mundi fjölga þá þyrfti á einhverri þjónustu að halda.``

Áfram langar mig, með leyfi forseta, að vitna í umrædda grein:

,,Börnum sem greindust með einhverfu hefur verið vísað á barna- og unglingageðdeild Landspítalans og þar hefur lokagreining farið fram. Eftir að barnið var greint með einhverfu fékk það margvíslega þjálfun þar sem m.a. unnu með barninu ráðgjafar og sérfræðingar. Þverfagleg vinna átti sér stað, fagteymi á sviði einhverfu var að störfum nema hvað þjónustan var aldrei eyrnamerkt einhverfunni. Margítrekaðar tilraunir til þess að standa vörð um þessa þjónustu tókust því miður ekki. Margítrekaðar tilraunir barna- og unglingageðdeildar til að fá fjármagn fyrir þessa þjónustu og stöðugildi eyrnamerkta þjónustunni við einhverfa tókust ekki.

Fyrr á þessu ári gerðist svo það sem við í Umsjónarfélagi einhverfra höfðum óttast, þjónustukerfið sprakk og hætti að taka við einhverfum börnum til meðferðar í byrjun þessa árs.

Viðbrögð ráðamanna engin`` heldur greinarhöfundur áfram. ,,Stofnun innan heilbrrn. hættir að taka við einhverfum, stofnun innan félmrn. situr uppi með einhverf börn þó að þar sé ekki gert ráð fyrir aukafjármagni til þess að sinna þessari vinnu.`` Og áfram heldur þessi móðir og segir: ,,Það þarf ekki að hafa mikið fjármálavit til þess að sjá að með því að gera ekki neitt núna fáum við mun dýrari pakka í bakið seinna og þetta er með öllu óásættanlegt.``

Já, þessi unga móðir, herra forseti, telur sig hafa ákveðið fjármálavit og hún sér að það væri góð fjárfesting ef hæstv. ríkisstjórn mundi halda áfram að tryggja þjónustu við þessi börn til að brjóta hvorki þau niður né fjölskyldu þeirra og gera þannig úrræðin seinna meir mun dýrari fyrir þjóðfélagið og fjölskylduna. Því vil ég beina þeirri áskorun minni til hæstv. ríkisstjórnar að þessum málaflokki verði betri gaumur gefinn og tryggt það fjármagn sem þarf til þess að þessi börn fái að vaxa upp í skjóli fjölskyldna sinna, dafna og þroskast og til þess verði sköpuð skilyrði. Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. hafi á þessum málefnum áhuga og því vil ég gjarnan heyra hennar sjónarmið í þeim efnum á eftir og hvað hún hyggist gera til þess að treysta þessa þjónustu.

Herra forseti. Það er ekki hægt að fjalla um fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar án þess að gera rekstrarvanda sjúkrahúsanna að umtalsefni. Það er bæði gagnrýnivert og verulegt áhyggjuefni að meiri hlutinn hafi ekki getað tekið á þeim mikla vanda sem stóru sjúkrahúsin í Reykjavík sannarlega búa við. Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur hafa gengið í gegnum miklar sparnaðar- og hagræðingaraðgerðir á undanförnum árum. Nú er svo komið að sérfræðingar og fagfólk þessara stofnana hafa ítrekað látið í ljós þungar áhyggjur á því ástandi sem hefur verið að skapast í kölfarið. Sjúkrarúmum hefur verið lokað í svo miklum mæli að allt að 25% þeirra eru endanlega og varanlega lokuð á sumum deildum og sjúklingum fjölgar enn þrátt fyrir það og stöðugildum til að sinna sjúklingunum, sem fjölgar, fækkar stöðugt. Í kjölfarið hefur álag á hjúkrunarfólk aukist jafnt og þétt þannig að viðvörunarorð heyrast nú í æ ríkara mæli frá þessum stofnunum um að öryggi sjúklinganna sé ef til vill stefnt í hættu. Biðlistar eftir aðgerðum hafa lengst ískyggilega í kjölfarið og nú eru um 3.000 manns sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum, m.a. bæklunaraðgerðum. Þetta leiðir til þess að fjölmargt fólk bíður sárþjáð og óvinnufært. Dæmi eru um að fólk hafi misst aleigu sína vegna langvarandi atvinnuleysis í kjölfar veikinda. Það hlýtur að vekja áhyggjur hversu miklar fórnir fjölmargir þurfa að færa vegna þessa biðtíma. Það kostar mikla fjármuni, bæði fyrir einstaklinginn, fjölskylduna, atvinnufyrirtækin og þjóðfélagið allt. Því eru æ fleiri sem draga í efa réttmæti þessa mikla niðurskurðar sem umræddum sjúkrastofnunum er ætlað að framkvæma.

Það hefur einnig ítrekað verið vakin athygli á því af læknum og hjúkrunarfólki stofnananna að það beri að staldra við og gaumgæfa vel áframhaldið og velta því alvarlega fyrir sér hvort sparnaðurinn og niðurskurðurinn sé ekki kominn að þeim mörkum að óásættanlegt er. Þessir sömu aðilar hafa bent ítrekað á að aðbúnaður sjúklinga er oft fyrir neðan öll velsæmismörk. Vegna fækkunar sjúkrarúma hefur færst í vöxt að sjúklingar þurfa að leggjast fárveikir á ganga sjúkradeilda og sætta sig við þann lélega aðbúnað sem því fylgir. Það kemur í ljós að að meðaltali liggja á göngum sjúkrahúsanna dag hvern 20--30 sjúklingar eða sá fjöldi sem svarar til heillar legudeildar, sem vantar auðvitað fjármagn til að reka.

Herra forseti. Mönnum sem tengjast hæstv. ríkisstjórn hefur á undanförnum vikum og missirum orðið tíðrætt um sjálfvirka útgjaldaaukningu í heilbrigðismálum án þess að rökstyðja það neitt sérstaklega. Þó ekki sé hægt að segja að heilbrigðismálin geti lotið lögmálum viðskiptalífsins er rétt að vekja athygli á þeirri miklu framleiðsluaukningu sem hefur orðið í íslensku heilbrigðiskerfi á undanförnum árum. Stöðugt fleiri sjúklingar sækja sér heilbrigði, lækningu eða líkn á Landspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur. Helmingur þeirra sem þangað sækja þjónustu kemur úr öðrum kjördæmum en Reykjavík. Má með sanni segja að þessar stofnanir séu sjúkrahús allra landsmanna. Æ fleiri sjúklingum er sinnt með göngudeildarþjónustu eða stoðþjónustu, æ flóknari læknisaðgerðum er beitt til heilla fyrir landsmenn, nýjar aðgerðir og nýjar aðferðir við greiningu skila sjúklingunum mun fyrr út í lífið aftur sem á móti sparar mikla fjármuni fyrir samfélagið. Stöðugur óróleiki ríkir þó um þessa mikilvægu starfsemi. Stjórnendur og starfsfólk þeirra sitja undir ásökunum og dylgjum um að þeir séu í eiginhagsmunagæslu þegar þeir eru í reynd að berjast fyrir hag sinna stofnana og um leið þeirra fjölmörgu skjólstæðinga sem þangað leita og hverra hag þeir bera fyrir brjósti.

[25:00]

Úrræðaleysið í heilbrrn. gagnvart fjmrh. setur viðkvæma starfsemi í uppnám margsinnis á ári hverju. Tillögur um fjárþörf sem vandað er til eru að engu hafðar eða vefengdar sem óraunsæjar og óábyrgar. Þannig eru samþykkt á Alþingi fjárlög sem skammta þessum stofnunum óraunhæfar fjárupphæðir til að mæta þeirri þörf sem sannarlega er fyrir hendi fyrir þjónustu þeirra við sjúka. Þetta leiðir síðan til þess hefðbundna glundroða sem skapast á hverju ári vegna þeirrar nauðar sem menn standa frammi fyrir þegar ljóst er að enn einu sinni hefur verið skammtað of naumt. Þá hefst hinn mikli hráskinnaleikur fjmrh.og heilbrrh. við stjórnendur sjúkrahúsanna með tilheyrandi dylgjum og ásökunum.

Herra forseti. Það er ekki nema von að fólk spyrji hvort það sé nokkuð að því þótt hæft fólk sé farið að gefast upp á þessum hildarleik og flýi land í von um vinnufrið og réttlát ummæli. Ég held að það væri hollt fyrir þá sem hæst hafa talað á þessum neikvæðu nótum um íslenskar heilbrigðisstofnanir og stjórnendur þeirra að hafa í huga að íslensk heilbrigðisþjónusta er skilvirk, mikil að gæðum og ódýr. Við erum fremst meðal jafningja og við verjum síst meira fjármagni til þjónustunnar en þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við. Ríkisstjórnin verður að viðurkenna þessar staðreyndir og skapa þeim stofnunum sem verst standa viðunandi rekstrarumhverfi, fjárveitingar sem eru í takt við þau verkefni sem þessum stofnunum er ætlað að sinna og haga málflutningi sínum á þann veg að ekki sé æ ofan í æ vegið að starfsheiðri þeirra sem sinna þessum mikilvægu velferðarmálum.

Það liggur nú fyrir, herra forseti, að fjárþörf Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna uppsafnaðs vanda ársins í ár og fyrirsjáanlegar fjárvöntun á næsta ári losar 800 millj. Því vil ég beina þeirri spurningu minni til hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh., sem reyndar er horfinn úr sal en hlýðir væntanlega á mál mitt annars staðar frá, hvort hægt sé að búast við því að settar verði fram raunhæfar tillögur um fjárveitingar til sjúkrahúsanna í Reykjavík áður en gengið verður endanlega frá fjárlögum fyrir árið 1997 þannig að þessar stofnanir viti í hvernig umhverfi þær eiga að lifa á næsta ári.

Herra forseti. Fyrr í kvöld voru málefni barnaspítala mjög til umræðu og ég get ekki láti hjá líða að taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá mörgum hv. þm. sem talað hafa á undan mér og mælt mjög eindregið fyrir því að þetta mál hljóti algeran forgang í meðförum ríkisstjórnarinnar, enda hefur tillaga þar að lútandi verið flutt af minni hluta fjárln. og talsmönnum minni hlutans. Það hefur vissulega valdið vonbrigðum að ríkisstjórnin hefur ekki sýnt það með áþreifanlegri hætti að hún hyggist standa við áform um að byggja barnaspítala eins og lengi hefur staðið til. Það hafa eingöngu verið hálfkveðnar vísur um þetta brýna mál og enn á ný bíða menn með óþreyju eftir því að heyra hvort það sé á dagskrá af alvöru að láta það verða að veruleika. Allir vita að umhverfi barna á sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu og á landinu öllu er verulega ábótavant og engan veginn lagað að þörfum og þroska barna. Og á seinni árum hefur þróunin enn fremur verið mjög mikil í þá átt að foreldrar og fjölskyldan taka í enn meira mæli en áður þátt í umönnun barna á sjúkrahúsum. En umhverfi þessara barnadeilda er alls ekki þannig úr garði gert að hægt sé að búa viðunandi að foreldrum sjúkra barna. Úr þessu er því mjög brýnt að bæta.

Hæstv. heilbrrh. hefur ítrekað látið í ljós mikinn áhuga sinn á því að þessi barnaspítali sem áform eru um, rísi sem allra fyrst. Því eru það vissulega vonbrigði þegar fjárlagatillögur eru til umræðu að ekki skuli hafa verið gengið frá því á ábyrgari hátt að áreiðanlega verði gengið í þetta verkefni sem allra fyrst og að draumur allra landsmanna um barnaspítala verði að veruleika. En nú í kvöld hafa fallið orð frá hæstv. heilbrrh. sem fylla mig bjartsýni og ég vona svo sannarlega að henni takist það ætlunarverk sitt að gengið verði þannig frá þessu máli við afgreiðslu fjárlaga að óyggjandi sé að hægt verði að hefjast handa sem allra fyrst þegar stjórnendur Ríkisspítalanna hafa náð því að selja það land sem þeir hafa hug á til að fjármagna bygginguna.

Það er öllum ljóst sem hafa kynnt sér málið til hlítar að þetta er þjóðhagslega mikilvægt mál sem þolir enga bið. Þess vegna lagði minni hlutinn til að sérstök fjárveiting rynni til stofnframkvæmda vegna barnaspítalans og tryggt yrði með óyggjandi hætti að Ríkisspítalar hafi heimild til að ráðstafa andvirði sölu Vífilsstaðalandsins til þess að fjármagna bygginguna. Og ég vil endurtaka fyrir hæstv. heilbrrh. að við bindum miklar vonir við að henni takist að sannfæra félaga sína í ríkisstjórninni um að þetta mál þurfi að hafa algeran forgang.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka og freistandi að tala um margt við þessa fjárlagaumræðu, en ég mun nú fara að stytta mál mitt. Það er liðið fram á nótt og margir eiga eftir að taka til máls. En ég vil aðeins áður en ég lýk máli mínu segja örfá orð um þann málflutning sem hefur verið hafður uppi af fulltrúum meiri hlutans um gildi stöðugleikans í þjóðfélaginu. Vissulega vil ég taka undir þau sjónarmið. Jafnframt hafa fulltrúar meiri hlutans verið ötulir við að vara við þeirri þenslu sem væntanleg framkvæmd við nýtt álver gæti leitt til í þjóðfélaginu. Ég segi væntanleg eða hugsanleg framkvæmd vegna þess að sannarlega eru enn margir óvissuþættir í því máli og mörgum spurningum ósvarað áður en þessu mikla verkefni er siglt í höfn. Í fyrsta lagi verður ekki ljóst fyrr en í marslok hvort forsvarsmönnum Columbia Ventures tekst að tryggja sinn hluta fjármögnunar verkefnisins og þó svo að það takist að tryggja þessar framkvæmdir er ljóst að engar framkvæmdir munu hefjast fyrr en seint á næsta ári. Því getur farið svo að hér verði vaxandi atvinnuleysi strax á næsta ári ef ríkisstjórnin heldur fast við þau áform sín um að stöðva allar opinberar framkvæmdir. Af þessu hafa margir verulegar áhyggjur.

Hvað hyggst hæstv. ríkisstjórn gera ef svo fer að álversframkvæmdir verða ekki að veruleika? Ég held þess vegna að það væri góður kostur fyrir hæstv. ríkisstjórn að taka þá farsælu ákvörðun að hér verði hafist handa strax á næsta ári við að byggja langþráðan barnaspítala.

Herra forseti. Ég vil aðeins staldra við eitt mál sem ég hef verulegar áhyggjur af, þ.e. menntamálin. Margir hafa talað um þau á undanförnum vikum á Alþingi að gefnu tilefni og því er það undrunarefni að áhyggjur meiri hlutans af menntun þjóðarinnar skuli ekki birtast áþreifanlegar í fjárlagafrv. sem hér er til umfjöllunar. Það er vegið að framhaldsskólum landsins og þeir standa svo sannarlega alls ekki vel fyrir margir hverjir. Þeim hefur gengið illa að fullnægja þörfum nemenda. Það segir hið mikla brottfall úr framhaldsskólum landsins mjög glöggt til um, en allt að helmingur nemenda sem hefur nám í framhaldsskólum landsins hverfur á brott strax á fyrsta ári, svo að ég tali ekki um þau óuppfylltu loforð sem hafa verið gefin fötluðum með ákvæðum í framhaldsskólalögunum um að þeir eigi skýlausan rétt á námi á framhaldsskólastigi eins og aðrir íbúar þessa lands. Því vekur það upp áhyggjur að ekki skuli vera gerðar neinar tilraunir til þess að hlúa betur að framhaldsskólum landsins en raun ber vitni í frv. En það sem vekur upp óhug og sýnir enn á nýjan leik tilfinningaleysið sem virðist hrjá þessa ríkisstjórn eru hinir margumræddu fallskattar sem boðaðir eru í frv. Það á með öðrum orðum að leggja nýjan skatt á nemendur sem einhverra hluta vegna vegnar ekki nógu vel innan framhaldsskólans og er ekki endilega þeim sömu nemendum að kenna. Það má miklu fremur beina ábyrgðinni og athyglinni að framhaldsskólunum sjálfum og þeim aðbúnaði sem þeim hefur verið búinn. Það á því að margfalda skömmina. Fyrst á að sauma svo að framhaldsskólunum að þeir verði verr í stakk búnir en áður til að sinna sínu mikilvæga hlutverki og þegar illa gengur verður hægt að leggja sérstakan skatt á nemendur sem ekki hafa staðist kröfurnar eða álagið sem námið hefur haft í för með sér.

Þetta finnst mér vera tilfinningaleysi, herra forseti. Þetta er sama tilfinningaleysið og birtist alls staðar í fjárlagafrv. gagnvart þeim sem á einhvern hátt mega sín minna en hinn sterki meiri hluti í þjóðfélaginu. Ég vona að framsóknarmenn sem nú sitja við völd í helstu velferðarráðuneytum sjái sér fært að dusta rykið af þeim góðu kosningaloforðum sem þeir gáfu í aðdraganda kosninganna síðustu og að e.t.v. takist með því að vekja upp samvisku þeirra áður en eins afdrifaríkar ákvarðanir verða teknar og liggja fyrir í þessu frv. til fjárlaga.