1996-12-14 01:13:03# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[25:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir kom víða við í ræðu sinni og beindi til mín nokkrum spurningum. Hún beindi til mín spurningum varðandi barna- og unglingageðdeildina og þann vanda sem þar hefur steðjað að. Ég ætla að minna á að þar hefur starfsfólki fjölgað á liðnu ári um fjóra sérfræðinga og ég tel að nauðsynlegt sé að greiningarstöðin og BUGL vinni betur saman en hingað til hefur tíðkast og það er í skoðun í félmrn. og heilbrrn.

Varðandi það að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk fái ekki réttlát ummæli þá vísa ég því á bug að í heilbrrn. sé ekki venjulega rætt um þetta fólk af fullri virðingu. Ég tel að við eigum besta heilbrigðisstarfsfólk í veröldinni. Ég fullyrði það, enda erum við í bullandi samkeppni við þjóðirnar í kringum okkur.

Um það hvort fjárlög verði raunhæf varðandi stóru sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu, þá vil ég segja að sú nefnd sem vann að samningi sem gerður var síðla sumars um samhæfingu sjúkrahúsanna --- og þeim samningum fylgdi hálfur milljarður --- er nú að fara yfir rekstrarstöðu sjúkrahúsanna og mun skila áliti strax eftir helgi. Það mun því skýrast við 3. umr. hver hin raunverulega þörf sjúkrahúsanna fyrir fjármagn er.

Um Barnaspítala Hringsins hef ég þegar sagt það sem ég þarf að segja og ég vona að hv. þm. treysti þeim orðum sem hér hafa áður verið sögð.