Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 14:52:23 (2247)

1996-12-16 14:52:23# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[14:52]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór rækilega yfir þetta hvort tveggja sem hv. þm. nefndi og taldi að mér hefði yfirsést, þ.e. annars vegar að fram væri komið frv. um Tryggingasjóð einyrkja og eins hitt að í brtt. meiri hlutans ætti að taka fiskvinnsluna út úr Þróunarsjóði. Ég var í sjálfu sér ekki að vísa til þess þegar ég talaði um hliðarráðstafnir gagnvart t.d. landbúnaðinum, því makalausa óréttlæti að hann skuli hafa greitt tryggingagjald í fimm ár án þess að njóta þar réttindanna. Ég var að tala um afkomu greinarinnar og starfsskilyrði. Þó það nú væri að menn væru loksins eftir fimm ár að koma þessum málum í eitthvert horf gagnvart atvinnuleysisbótarétti bænda. En eftir stendur það að samkvæmt umsögn Bændasamtakanna eru um 80 eða 100 millj. kr. íþyngjandi ráðstöfun að ræða fyrir landbúnaðinn sem engar hliðarráðstafanir eru gerðar gagnvart hvað afkomuna snertir.

Um fiskvinnsluna sagði ég, og ég stend við það, að ríkisstjórnin eða meiri hluti hennar virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé nóg að hækka annað en ekki hvort tveggja, þróunarsjóðsgjaldið og tryggingagjaldið á fiskvinnsluna. Og það á að láta það nægja að auka útgjöld hennar um hundruð millj. með hækkun tryggingagjalds en sleppa því að láta hana borga áfram að fullu inn í Þróunarsjóðinn. Og það kalla ég ekki að vera með aðgerðir þó hætt sé við helminginn af þeim álögum, þeim viðbótarálögum sem átti að leggja á greinina nú, því að í sjálfu sér var aldrei ljóst hver framtíðin yrði hvað varðaði útgjöld fiskvinnslunnar í Þróunarsjóð. Mér finnst því þetta satt best að segja ekki mikil eða merkileg rök gagnvart afkomu landvinnslunnar og sérstaklega bolfiskvinnslunnar.

Hvað varðar tekjuöflun í þessi ráð og staðla þá getur það verið pólitík út af fyrir sig að atvinnulífið eigi að bera svona kostnað. En þarna er verið að fara yfir fjárlög og þarna er verið að lögvernda tekjustofninn eða innheimtuna fyrir þessa starfsemi (Forseti hringir.) og þegar smámunir eiga í hlut af þessu tagi eins og 2 millj. til Icepro, þá tel ég, herra forseti, að það sé einfaldara að fara yfir í fjárlög.