Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:46:48 (2262)

1996-12-16 15:46:48# 121. lþ. 45.5 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv. 152/1996, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:46]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. sjútvn. og breytingartillögum sem meiri hlutinn gerir við frv. til laga um breyting á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið ýmsa aðila á sinn fund til að kynna sér efni þess og hugsanleg áhrif þeirra breytinga sem þar voru lagðar til. Eftir þá athugun leggur meiri hlutinn til að gerðar verði þrjár efnislegar breytingar á frv. sjálfu sem lýst er á þskj. 362. Brtt. meiri hlutans eru þess efnis að við 1. gr., í stað þess að nefndar eru 4., 5. og 6. gr., um hluta Þróunarsjóðs, komi: 4. og 6. gr. Sams konar breyting verði gerð á 5. gr. en ný 7. gr., um gildistöku, verði þannig:

,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Kemur 2. gr. til framkvæmda þegar umboði núverandi stjórnar lýkur og 6. gr. kemur til framkvæmda við gerð efnahags- og rekstrarreiknings ársins 1998. 4. gr. laganna (nr. 92/1994) fellur úr gildi 31. desember 2008, 5. gr. þeirra fellur úr gildi frá og með gjaldárinu 1997 og 6. gr. þeirra frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 2008. Að öðru leyti gilda lögin til 31. desember 2009. Skulu eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Hafrannsóknastofnunarinnar og andvirði þeirra varið til hafrannsókna.``

Þá leggjum við í meiri hlutanum einnig til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er verði ákvæði til bráðabirgða III í lögunum og orðist þannig:

,,Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal greiða styrk til úreldingar krókabáta á sóknardögum til 1. júlí 1997. Skal úreldingarstyrkur nema allt að 80% af húftryggingarverðmæti. Gilda ákvæði 7. og 8. gr. laga nr. 92/1994, sem og ákvæði til bráðabirgða II, sbr. lög nr. 89/1995, að öðru leyti um styrkveitingu þessa. Skal það styrkhlutfall, sem ákveðið er á grundvelli þessa ákvæðis, einnig gilda um krókabáta á sóknardögum sem úreltir eru á tímabilinu frá 1. október 1996 til gildistöku laga þessara, sbr. lög nr. 109/1996.``

Herra forseti. Þessar brtt. bera það með sér að meiri hluti nefndarinnar hefur orðið þess áskynja að enn eru fyrirsjáanleg verkefni þessa sjóðs í úreldingu og er þar með gert ráð fyrir að úrelding krókabáta með því háa hlutfalli sem hér er nefnt, sem gilt hefur að undanförnu, gildi lengur en var ákveðið á síðasta ári, auk þess sem gert er ráð fyrir að gjöld til úreldingarsjóðs vegna stærðar fiskvinnsluhúsa verði ekki innt af hendi eftir næstu áramót en um tilurð þess mun hafa verið rætt fyrr á fundinum þegar rætt var um tryggingagjaldið. Með þeirri breytingu er gengið til móts við nýjar álögur á fiskvinnslustöðvar vegna hækkunar tryggingagjalds á þær.

Að öðru leyti er gert ráð fyrir að fram gangi aðalhugmynd frv. sem er að Þróunarsjóður fjármagni nýtt hafrannsóknaskip sem gerir Hafrannsóknastofnun kleift að koma að og vinna þau verkefni sem henni er ætlað á miðum sem nú eru orðin fjær landi, erfiðari og þurfa því öflugri skip en áður hefur verið.

Ég legg að lokum til að þessar brtt. verði samþykktar ásamt frv. í lok þessarar umræðu og því vísað áfram til 3. umr.