Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:59:40 (2265)

1996-12-16 15:59:40# 121. lþ. 45.5 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv. 152/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessum pakka sem tengist breytingum á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins kennir reyndar ýmissa grasa og ekki síst nú eftir að brtt. meiri hlutans hafa litið dagsins ljós. Fyrsta atriðið sem þarna er á ferðinni er það sem snýr að áformum um að fjármagna nýtt hafrannsóknaskip af tekjustofni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Það segir í nál. minni hlutans að við gerum ekki athugasemdir við þau áform og er það rétt. Að sjálfsögðu er ekki umdeilt að mikil þörf er á að fá nýtt hafrannsóknaskip. Ég lýsti hins vegar við 1. umr. málsins fyrirvörum í mínum þingflokki hvað það snertir þegar málið beið 1. umr. að þar væri í raun og veru verið að fara út á braut sem menn þyrftu að átta sig á þegar ríkið væri þá að hverfa frá því að kosta grunnrannsóknir af því tagi sem hafrannsóknir eru.

Það er líka athyglisvert að skoða þetta mál í ljósi sögu alls konar gjaldtöku af þessu tagi og hvernig reynslan sýnir endurtekið að gjöld sem lögð eru á, tekin eru upp í einhverjum yfirlýstum tilgangi, breyta oftar en ekki um eðli og verða mönnum tæki til allt annarra hluta þegar frá líður heldur en upphaflega var stofnað til. Á það var að sjálfsögðu aldrei minnst á sínum tíma þegar þróunarsjóðsgjaldið var að verða til og hækka að til stæði að það yrði síðan tekjustofn í reynd fyrir ríkið til þess að létta af því útgjöldum sem það hafði áður borið. Að vísu eru fordæmi fyrir því frá fyrri tíð að gera sérstakt átak til að bæta tækjakost af þessu tagi með gjaldtökum á sjávarútveginn. Það er að sjálfsögðu skýringin á því að menn sætta sig við þetta að þörfin er brýn og menn vita að bið getur orðið á því að slík hagsmunamál komist í höfn nema menn séu tilbúnir til þess að axla útgjöldin sjálfir innan atvinnugreinarinnar. En auðvitað er það þannig að í grunninn á það að vera hlutskipti ríkisins að sinna grunnrannsóknum. Allt annað er hættulegt og hefur leitt til ófarnaðar þar sem menn hafa lent um of inn á þá braut að grunnrannsóknir séu kostaðar af hagsmunaaðilum sem aftur vill kalla á það að áhersla á hagnýtar rannsóknir og praktískan skammtíma\-ávinning verður of rík en langtímasjónarmið víkja, fræðileg sjónarmið og grundvallarsjónarmið víkja, með afleiðingum sem geta orðið mjög alvarlegar.

Um það, herra forseti, er eins og áður segir ekki deilt að það er orðin mikil þörf á því að taka ákvarðanir um skipakost Hafrannsóknastofnunar og reyndar fleira í hinum opinbera skiparekstri. Landhelgisgæslan er þar í mjög svipaðri stöðu. Það er að því leyti til fagnaðarefni að loksins skuli vera komin hreyfing á þessi mál.

Ég tel sömuleiðis að enginn vafi sé á því að það sé rétt stefna að byggja eitt stórt og öflugt hafrannsóknaskip því að það er nákvæmlega það sem nú vantar mest í íslenskum hafrannsóknum. Það er mun öflugra skip sem fylgir eftir afkastagetu og krafti veiðiskipanna, er fært um að stunda rannsóknir á fjarlægari miðum og meira dýpi en núverandi skipakostur ræður við og getur orðið liður í sókn út á við í þeim efnum. Það kallar á nýtt skip eða a.m.k. mun stærra og öflugra skip en þau sem fyrir eru og ég vefengi ekki þær niðurstöður sérfróðra aðila sem þetta hafa skoðað að vænlegasti kosturinn í þeim efnum sé að byggja skip frekar heldur en leita eftir notuðu. Þá vita menn hvað þeir fá, þá fá menn í hendur nýtt og fullkomið tæki sem svarar kröfum tímans að öllu leyti. Ef verðmunur er ekki meiri heldur en sá sem talinn er í greinargerð að sé milli nýsmíði annars vegar og þess að kaupa t.d. stóran nýlegan vinnslutogara hins vegar, þá er enginn vafi á því í mínum huga að það er rétt stefna að stefna á nýtt skip.

Ég hef hins vegar meiri efasemdir um það sem virðist vera forsendur ákvarðanatökunnar samkvæmt frv., að í framtíðinni verði eingöngu rekin tvö skip af Hafrannsóknastofnun. Ég vek athygli á því að á bls. 4 í athugasemdum með frv. er vitnað í þá samþykkt stjórnar Hafrannsóknastofnunar frá fundi 28. október um að smíða skuli eitt nýtt skip, 65 metra langt og áætlaður kostnaður á bilinu 1.100--1.300 millj., að annaðhvort Árna Friðrikssyni eða Bjarna Sæmundssyni verði lagt og jafnframt lagt í nauðsynlegar endurbætur á því skipi sem rekið verði áfram og að ms. Dröfn verði seld og söluverð hennar, á bilinu 40--60 millj. kr., gangi í þessi endurnýjunarverkefni.

Hér er dálítið öðruvísi fjallað um málin en í þeirri nefnd sem upphaflega vann að þessu á vegum Hafrannsóknastofnunar. Ég vísa þar til fskj. I með fyrirsögninni: Úttekt á skipastól Hafrannsóknastofnunarinnar, samantekt. Þetta er dagsett í apríl 1996 og að því komu tæknideild Fiskifélags Íslands og Fiskveiðasjóðs Íslands sem unnu þetta verkefni. Þar er, samanber útdrátt úr niðurstöðum þeirrar skýrslu á bls. 8 og 9, lagt til að yngra og stærra skipið, Bjarni Sæmundsson, verði rekið áfram samhliða nýju og ráðist verði í breytingar á Bjarna á árinu 1997, að nýsmíði og þá væntanlegt stærsta skip Hafrannsóknastofnunar komi í gagnið fyrir aldamót eða í ársbyrjun 1999 og að notað skip, minnsta skipið, verði keypt á miðju ári 2001. Þar er gert ráð fyrir því að stefnt sé að rekstri þriggja hafrannsóknaskipa en ekki tveggja og það verði Bjarni Sæmundsson sem verði rekinn samhliða hinum tveimur en ekki eldra og minna skipið, Árni Friðriksson.

Það skiptir talsverðu máli, herra forseti, hvor stefnan er tekin í þessum efnum og ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. aðeins út í þessi mál. Þetta hefur mér ekki fundist koma nógu skýrt fram en því miður sýnist mér að forsendur, eins og þær eru lagðar upp af hálfu hæstv. ráðherra í frv. og samanber þessa samþykkt stjórnar Hafrannsóknastofnunar, þar séu menn að reikna með metnaðarminni, ef ég má orða það svo, áætlun í þessum efnum en var meginniðurstaða þeirra sem unnu að úttektinni og fjallað er um í fskj.

Ég hlýt t.d. að spyrja að ef eingöngu yrðu rekin tvö skip, eitt stórt skip, sem sérstaklega væri að sinna djúpvatnsrannsóknum og jafnvel á fjarlægari miðum, væri þar af leiðandi að sjálfsögðu miðað við stærð sína talsvert dýrt í rekstri, og eitt annað skip hvernig Hafrannsóknastofnun hygðist þá til að mynda sinna rannsóknum á grunnsævi, á innfjarðastofnum o.s.frv. Þótt að einhverju leyti megi leysa slík verkefni með því að taka báta á leigu þá er enginn vafi á því í mínum huga að það er mikil þörf á því að eiga lítið en sérhæft rannsóknaskip sem getur sinnt slíkum verkefnum. Það hefur verið mat manna að á þessu sviði liggjum við í raun og veru ekkert síður eftir heldur en hvað varðar djúphafsrannsóknir gagnvart nýtingu ýmissa tegunda upp á grunnslóðinni og allt of hægt hefur miðað í þeim efnum að kortleggja bæði vannýtta eða jafnvel ónýtta stofna og tegundir sem þar halda sig. Ég held, herra forseti, að það væri áhugavert að heyra aðeins betur hverjar hinar eiginlegu áætlanir sem þarna eiga að liggja til grundvallar á komandi árum eru. Að sjálfsögðu er tími til stefnu hvað það snertir að taka endanlegar ákvarðanir um hluti eins og þá til að mynda hvort minnsta skipið verður selt og ekkert annað kemur í staðinn en æskilegast væri að þessir hlutir lægju sem skýrast fyrir.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég nefna þá breytingu sem felst í breytingartillögu meiri hlutans að fallið verði frá því að láta fiskvinnsluna greiða í Þróunarsjóð frá og með næsta ári. Ég fagna þessari breytingu. Hún sýnir þó að í litlu sé örlítinn skilningsvott á þeirri stöðu sem fiskvinnslunni var búin í þessu máli, að ætla henni að greiða hundruð milljóna í þennan úreldingarpott hafandi sáralítið fjármagn fengið nettó út úr úreldingarverkefnum þegar endursöluverð eigna var frá dregið, aðeins 19 millj. kr. enn sem komið er. Jafnvel þó að þar yrðu einhver útgjöld núna fram að næstu áramótunum, þá er ólíklegt að það mundi nema nema broti af þeirri upphæð sem að óbreyttu hefðu orðið örlög fiskvinnslunnar að greiða í Þróunarsjóðinn, eða samdráttarsjóðinn eins og er nú réttnefni á sjóðnum en ekki þróunarsjóður því hann hefur mest lítið komið nálægt nokkru sem hægt er að kalla þróun.

Hins vegar er þó óhjákvæmilegt að staldra aðeins við það hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessara umdeildu ákvæða um úreldingu fiskvinnslustöðva. Það ber vel í veiði að hafa hér hæstv. sjútvrh. vegna þess að ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að þar hafi átt sér stað reginmistök og að í framkvæminni hafi menn gert sig seka um það að standa alls ekki að málum með þeim hætti sem ætlun Alþingis var og sjálfur lagatextinn hljóðar upp á. Það er alls ekki á nokkurn hátt gefið í skyn í viðkomandi lagatexta að það eigi að vera hlutverk stjórnar Þróunarsjóðs að setja einhverjar sérstakar reglur sem þrengi möguleika fiskvinnslustöðva til að fá úreldingu ef þær bera sig eftir slíku. En þá bregður svo við að upplýst er að stjórn sjóðsins hefur sett sér þá vinnureglu að ekki skuli fallist á og gengið til samninga um úreldingu fiskvinnslustöðva þeirra sem eftir slíku leita nema að fyrir liggi fyrir fram kaupandi að umræddri fasteign eftir að hún hefur verið úrelt. Ég skora á menn að kynna sér betur bæði lagatextann eins og hann liggur fyrir og umræður um þetta mál á þinginu á sínum tíma og finna því stoð að þessi takmörkun fáist staðist. Þetta er auðvitað meginástæðan fyrir því að sama og ekki neitt hefur orðið úr úreldingu fiskvinnslustöðva enn sem komið er. Samtals hafa fyrirtæki að andvirði 100 millj. kr. verið úrelt og þegar endursöluverðið er frá dregið þá hafi nettóútgjöld sjóðsins af þessum sökum verið heilar 19 millj. kr. En allmörgum stórum aðilum hefur enn sem komið er verið synjað um úreldingu af þeirri einföldu ástæðu að ekki liggur fyrir kaupandi að eignunum.

Þarna hafa menn sem sagt tekið sér vald til þess að skilyrða eða takmarka mjög hverjir geti nýtt sér þennan rétt og setja það í raun og veru í hendur fasteignamarkaðnum eða slíkum aðilum á hverjum stað. Það verður tilviljanakennt eftir því hvort í viðkomandi byggðarlögum eru tiltækir kaupendur að eignunum eða ekki sem ræður því hvort eitthvert fyrirtæki, einstakir fiskvinnsluaðilar eða aðilar sem hafa rekið fiskvinnslu en eru hættir því geta úrelt sínar eignir eða ekki. Mér finnst þetta, herra forseti, afar sérkennileg ráðstöfun og sérkennileg aðgerð. Ef menn vildu takmarka mjög og skilyrða hverjir gætu og við hvaða kringumstæður menn gætu fengið þessa úreldingu, væntanlega til þess að takmarka umfangið á þessari aðgerð, þá átti að gera það með skýrum og efnislegum hætti í lögunum en ekki með þrengingum af þessu tagi eftir að málið er komið í hendur stjórnar sjóðsins. Ég leyfi mér að segja það, því miður, herra forseti, hlýt ég að segja að ég hef enga trú á því að þessi takmörkun stjórnarinnar fái staðist. Mér sýnist næsta einboðið að ef aðilar sem nú hafa sótt um úreldingu fiskvinnslustöðva en ekki fengið vegna þessarar vinnureglu sjóðsins leiti með sitt mál til dómstóla, þá vinni þeir slík mál.

Auðvitað verður framkvæmdin á þessu öllu meira og minna ómark úr því að svona var að þessu staðið. Ýmsir hafa vitað um þessa reglu og kannski ekki talið ómaksins vert að sækja um úreldingu við þær aðstæður hafandi ekki nokkra trú á því að nokkur kaupandi fyndist að fiskvinnslustöðvum á þeirra svæði eða í þeirra byggðarlagi. Þannig getur þetta beinlínis einnig hafa haft áhrif í þá átt að fæla menn frá því að leita réttar síns í kerfinu.

Það liggur líka í hlutarins eðli að kannski er þörfin fyrir úreldingarsjóð af þessu tagi einmitt mest þar sem ólíklegast er að nokkur kaupandi finnist að eignunum. Það er í sjálfu sér ekki stórt vandamál fyrir aðila sem á fiskvinnsluhús sem er einhvers virði að leysa það mál sjálfur án hjálpar sjóðsins. Ef það er fasteignamarkaður fyrir hendi, þá er sjóðurinn í sjálfu sér ástæðulaus milliliður og ekki mikið um það að segja. En við þær aðstæður að ekki séu líklegir neinir kaupendur þá hefðu getað verið rök fyrir slíku ef menn vildu fækka þessum einingum og/eða eftir atvikum aðstoða menn við að komast út úr málinu, að beita tæki af þessu tagi.

Það eru síðan ekki nokkur rök gagnvart því sem liðið er í framkvæmdinni að nú eigi að loka þessu um áramótin og hætta að leggja gjald á fiskvinnsluna. Eftir standa þau lög sem í gildi hafa verið og þau áform sem uppi voru og sú gjaldtaka sem þegar er orðin á fiskvinnsluna. Ég sé ekki annað en það verði að reyna að klára málið með einhverjum þeim hætti sem fær staðist og núna fram að áramótunum, þann tíma sem enn stendur opið á grundvelli eldri laga að sækja um úreldingu.

[16:15]

Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar eins og ég tel mig hafa rökstutt, herra forseti, að langeðlilegast væri að stjórnin félli frá þessum skilyrðum sem ekki fá staðist og tæki á móti umsóknum fram að áramótum á jafnræðisgrundvelli frá öllum sem vildu láta á þetta reyna og málin yrðu síðan gerð upp. Það er alveg ljóst að það gæti þýtt einhvern kúf umsókna og einhver talsverð útgjöld en síðan yrði það hlutverk sjóðsins, eins og ég tel að alltaf hafi verið ætlunin, að leita eftir því að koma eignunum í verð eftir á. Það er a.m.k. alveg ljóst að ég var þeirrar skoðunar og skildi málið svo að þannig væri framkvæmdin hugsuð og hafi aldrei verið hugsuð öðruvísi enda að mínu mati næsta fáránlegt að láta sér detta í hug að öðruvísi væri hægt að standa að þessu. Í sambærilegum tilvikum svo sem hvað varðar úreldingu í landbúnaðinum, bæði á mjólkurstöðvum og sláturhúsum, hefur nákvæmlega sú leið verið farin að sjóðirnir keyptu eignirnar án tillits til þess hvort eitthvað lægi fyrir um möguleikana til að koma þeim aftur í verð og síðan var einfaldlega farið í þá vinnu eftir á að leita að nýjum nýtingarmöguleikum og nýjum kaupendum.

Herra forseti. Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að um þetta urðu talsverðar umræður í sjútvn. Það var reyndar skoðun okkar í minni hlutanum a.m.k., svo ekki sé fastar að orði kveðið, að framkvæmdin eins og hún hefur verið á þessu fengi ekki staðist og í reynd kom það mönnum í opna skjöldu að svona hefði verið að þessu staðið.

Þá, herra forseti, að því sem lýtur að andláti þessa svokallaða Þróunarsjóðs, Úreldingarsjóðs eða Hagræðingarsjóðs, sem hefur gengið undir ýmsum nöfnum gegnum tíðina. Ég segi fyrir mitt leyti að farið hefur fé betra heldur en þetta allt saman, þegar þetta leggur þá vonandi upp laupana þegar tæpur áratugur verður liðinn af næstu öld. Þetta er satt best að segja nokkuð merkilegur kafli í íslensku sjávarútvegssögunni held ég, þetta sjóðafargan sem sett var upp til þess að draga saman í íslenskum sjávarútvegi og gefið það sérkennilega nafn Þróunarsjóður. En í raun og veru er hugsunin sem að baki býr sú að það sé ekkert um annað að gera þegar erfiðleikar steðja að eða þegar degur tímabundið úr veiðimöguleikum í einhverjum stofnum á heimamiðum en að draga sig inn í skelina og mæta því með tilheyrandi samdrætti og tekjuminnkun í greininni og það kalla menn þróun. Að mínu mati átti þetta mál að snúa akkúrat öfugt. Ef menn vildu á annað borð fara í einhverja kollektíva innheimtu í greininni, til að mynda sjóð, þá átti fyrst og fremst að reyna að beina þeim sjóði að raunverulegri þróun og raunverulegri sókn í greininni, t.d. með því að styðja menn til að leita nýrra möguleika og nýrra verkefna. En það hefur ekki verið gert nema að sáralitlu leyti og kom inn við breytingar í meðförum þingsins á þessu máli þegar það var til umfjöllunar á sínum tíma.

Það er dálítið athyglisvert að bera saman til að mynda framkvæmdina og tíðarandann í þessum efnum á sjötta og sjöunda áratugnum. Þá var við lýði um langa hríð sérstök nefnd sem hafði fjármuni til þess að hvetja menn til að leita nýrra verkefna í sjávarútvegi. Teknir voru á leigu togarar og það var tekin áhætta með útgerðum sem vildu senda sín skip til að reyna fyrir sér við veiðar á fjarlægum miðum. Þá voru Íslendingar að finna ný og gjöful fiskimið í okkar heimshluta, norður í höfum, við austurströnd Grænlands og vestur við Kanada svo dæmi séu tekin. En núna bregðast menn þannig við eða hugðust bregðast þannig við að einasta svarið væri þetta sem falið var í þessu máli. Í þessu skyni hefur sjávarútvegurinn verið skuldsettur um þúsundir millj. kr. sem hann verður síðan með á bakinu, samanber þessi áform, langt fram á næstu öld.

Hér er lýst, af vissum ástæðum og skiljanlegum, ákveðnum efasemdum um að síðan gangi það eftir að afleggja þessa gjaldtöku og loka Þróunarsjóði á árinu 2009 eða hvenær það nú verður. Það má hafa það til marks um það hvort þetta sé mjög trúverðug áform að einungis á fáeinum vikum í meðförum þingsins hafa áformin tekin þeim breytingum að gjaldtakan hefur verið framlengd um þrjú ár. Það er að vísu að hluta til í tengslum við þá breytingu að hlífa fiskvinnslunni við þessari gjaldtöku. En einnig er um það að ræða að menn hafa séð fyrir sér að fleiri verkefni munu kalla á útgjöld og meiri en áður var áætlað.

Að síðustu, herra forseti, vil ég nefna þá brtt. meiri hlutans að gera ráð fyrir framlengingu á ákvæðum um úreldingu krókabáta, þess hluta smábátaflotans sem enn er í því kerfi. Í tengslum við þær upplýsingar sem liggja fyrir hefur afli þessa hluta smábátaflotans verið umtalsverður og það stefnir í ískyggilega fækkun sóknardaga strax á næsta fiskveiðiári ef svo heldur sem horfir. Sumir segja að dagafjöldinn fari jafnvel niður í eitthvað á bilinu 10--20 að óbreyttu ef ekkert yrði að gert. Þá verður mönnum það fyrst fyrir eins og stundum áður að ákveða að framlengja úreldingartilboð til að fækka í hópnum. Þessir hlutir, herra forseti, voru auðvitað svo algerlega fyrirséðir þegar gengið var frá málinu síðast að ekki ætti að koma nokkrum manni á óvart að nú stefni í enn eina hringferðina í þessu máli og fara þær nú að verða býsna margar vegna þess að aldrei hefur verið gengið frá þessu máli nema til árs í senn í besta falli með ráðstöfunum eða aðgerðum sem voru fyrir fram dæmar til þess að kalla á nýja hringferð. Ég á eftir að sjá, jafnvel þó að með þessu tilboði takist að kaupa út nokkra báta í viðbót, að menn treysti sér þá eftir sem áður til þess að setja þennan dagafjölda niður í kannski 25 eða eitthvað svoleiðis. Það kemur að vísu til með að skipta talsverðu máli hvernig framkvæmdinni verður hagað, til að mynda það atriði hvort veiðireynsla þeirra báta sem ákveða að hætta og verða úreltir verður látin telja til fækkunar daga hjá hinum sem eftir standa eða ekki, svo að nefnt sé dæmi um atriði sem þarna þarf að huga að og skipt getur verulegu máli og ekki er endilega skýrt hvernig fara á með, og svo auðvitað hversu margir kunna að ganga inn á svona tilboð. Eftir stendur, held ég að það eru allar líkur á því að þarna blasi við hið mesta óefni hvað varðar starfsskilyrði og afkomumöguleika þessa hóps sem er nú að verða tiltölulega fámennur strax á næsta fiskveiðiári.

Ég tel, herra forseti, að það hafi verið hið mesta óráð að ganga ekki frá einhvers konar gólfi eða tryggingum hvað dagafjöldann snertir þannig að það yrði a.m.k. lífvænlegt fyrir þennan hóp ef svo færi sem hér er að gerast að aflinn yrði umtalsvert meiri en gefur tilefni til óbreytts dagafjölda. Sömuleiðis tel ég að það hefði verið skynsamlegra frekar en hafa dagafjöldann beintengdan við aflann, að hafa heimildir til að grípa t.d. til sérstakra takmarkana á þeim hluta flotans sem rær með línu heldur en láta þetta ganga yfir alla.

Þetta er að verða mikil framhaldssaga, herra forseti, sem menn þreytast á að vera endalaust að skrifa nýja kafla í. Það er kannski ekki ástæða til að taka í þetta meiri tíma á þessu stigi málsins vegna þess að það er svo augljóst að mínu mati að málið hlýtur að koma fyrir þingið á nýjan leik og fyrir vorið þegar við mönnum blasir það sem í vændum er 1. september á næsta ári.

Að öðru leyti, herra forseti, er ekki mikið um þetta að segja umfram það sem þegar hefur komið fram. Hæstv. ríkisstjórn verður að sjálfsögðu að fá að halda áfram að drekka af sínum bikar í þessum efnum. Það er búið að vera heldur dapurlegt að nánast árlegt hringl hefur verið í gangi með þessi mál. Allt síðasta kjörtímabil gekk á með endalausum æfingum í þessum efnum, þ.e. breytingum á Hagræðingarsjóði og yfir í Þróunarsjóð og hugmyndum um að selja veiðiheimildirnar og reka fyrir það Hafrannsóknastofnun og þetta og hitt sem allt var svo meira og minna dregið til baka eða breyttist ár frá ári þannig að yfirleitt vissu menn aldrei hvað upp sneri eða niður deginum lengur í þessum efnum. Sömu sögu er að segja um meðferðina hvað varðar fiskveiðistjórnun smábátanna. Að mínu mati er það búin að vera samfelld raunasaga frá upphafi, alveg frá árunum 1986--1988 þegar fyrst var byrjað að takmarka eitthvað sókn þess hluta flotans í takt við það sem gerðist annars staðar og til þessa dags. Það dapurlegasta er þó að það sér engan veginn fyrir endann á þeim ósköpum og er þó ekki sá hluti þessa flota sem eftir er að verða svo stór né fjölmennur að það ætti að vera stórkostlegt vandamál að koma því einhvern veginn þannig fyrir í kerfinu að það yrði til friðs til frambúðar. Ég held að það sé líka ástæða til að staldra aðeins við þá miklu fækkun smábáta sem hefur orðið núna á skömmum tíma vegna úreldingartilboðanna. Og menn hljóta að spyrja sig að því þó þessi sé staðan varðandi sóknardagafjöldann á næsta fiskveiðiári hvort það sé enginn bilbugur á mönnum gagnvart því að halda áfram þessum gylliboðum frá Þróunarsjóði til þess að reyna að fækka enn og draga saman í þessum bátaflota því það er auðvitað ávísun á minni umsvif á vissan hátt. Þó að aflinn sem slíkur eigi ekki að breytast heldur færast á færri skip þá vitum við að því fylgir að sjálfsögðu samdráttur. Þeim einingum sem í rekstri eru fækkar og það kemur fyrst og fremst við atvinnuna í mörgum af minnstu og afskekktustu byggðarlögum landsins. En það verður þá að vera hin pólitíska niðurstaða að hæstv. ríkisstjórn vilji nákvæmlega hafa það þannig að þarna telji hún áframhaldandi og sérstaka þörf fyrir að draga saman. Ég er ekki ýkjahrifinn af þeirri nálgun, herra forseti, og mun ekki styðja málið eins og það er hér lagt fyrir.