Höfundalög

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:22:16 (2285)

1996-12-16 17:22:16# 121. lþ. 45.9 fundur 62. mál: #A höfundalög# (EES-reglur) frv. 145/1996, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:22]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 323 um frv. til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73 frá 23. maí 1972, samanber lög nr. 78 frá 30. maí 1984 og lög nr. 57 frá 2. júní 1992. Nál. er frá menntmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu. Frumvarpið hefur verið lagt fram tvisvar áður og fjallaði nefndin ítarlega um það á 120. löggjafarþingi, fékk til sín fjölda gesta og aflaði gagna, auk þess sem stuðst hefur verið við umsagnir um málið frá 119. löggjafarþingi.

Frumvarpið fjallar um verndartíma höfunda, réttarstöðu notenda tölvuforrita, höfundarétt vegna leigu og útlána hugverka og höfundarétt vegna endurvarps hugverka og listflutnings um gervihnött eða kapal. Miða breytingarnar eingöngu að því að aðlaga höfundalögin að tilskipunum Evrópusambandsins um höfundavernd. Frumvarpið er að mestu óbreytt frá 120. löggjafarþingi, en gerðar hafa verið smávægilegar breytingar á texta 1. gr. sem fjallar um tölvuforrit, auk þess sem skýringum við 10. gr. var breytt. Eru breytingarnar í samræmi við athugasemdir þær er menntamálanefnd gerði við frumvarpið á síðasta löggjafarþingi.

Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Menntmn. er einróma í þeirri afstöðu sinni.