Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:41:32 (2323)

1996-12-17 17:41:32# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég neyðist til að bera af mér þær sakir að ég hafi í orðum mínum áðan gert lítið úr eiturlyfjavandamálinu sem slíku. Það var fjarri því og voru engin tilefni til að snúa út úr mínum orðum á þann veg að ég væri með þeim að gera lítið úr því að við gríðarlegt vandamál væri að stríða. Þvert á móti sagði ég einmitt að af því hefðu margir víða um Evrópu einmitt mjög miklar áhyggjur, að þetta mundi leiða til þess að eiturlyfin flæddu um Evrópu þvera sem aldrei fyrr. Við ættum að geta verið menn til þess, ég og hv. þm. Kristján Pálsson, að rökræða og þess vegna vera ósammála um hvort þetta sé líklegt eða ekki, hvort þessi breyting á landamæraeftirliti og skipan mála í Evrópu muni verða til góðs eða ills í baráttunni við vandamál sem ég hélt ekki að þyrfti að vera að deila um og við eins og allir aðrir hugsandi menn í landinu viðurkennum sem eina af alvarlegustu meinsemdum sem nú er við að glíma í vestrænum samfélögum. En ég bið hv. þm. að láta sér aldrei detta það í hug eitt augnablik að ég sitji þegjandi undir ærumeiðingum af því tagi að ég geri lítið úr eiturlyfjavandamálinu.