Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:31:02 (2423)

1996-12-19 10:31:02# 121. lþ. 50.4 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:31]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1996 en fjárln. hefur gengið frá svohljóðandi frhnál.:

Í ræðu formanns nefndarinnar við 2. umræðu um frumvarpið kom fram að fjallað hafði verið um nokkur mál í nefndinni sem frestað var til 3. umræðu að taka ákvörðun um. Umfjöllun um þau mál er nú lokið í nefndinni og leggur meiri hluti hennar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim fimm breytingum við 3. gr. frumvarpsins sem gerðar eru tillögur um á þingskjali 406, en þær nema alls 133,3 millj. kr. Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu, auk þess sem fjallað verður um þær í framsögu. Einnig skal þess getið að í samræmi við endurskoðaða tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er nú gert ráð fyrir í frumvarpinu að tekjur ríkissjóðs aukist um 1,2 milljarða króna frá fyrri áætlun og verði alls 127,2 milljarðar króna, sbr. breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins.

Skýringar við þær brtt. sem fluttar eru eru eftirfarandi:

Landbúnaðarráðuneyti: Greiðslur vegna smitsjúkdóma og salmonellumengunar. Lagt er til að heiti liðarins 04-851 verði Greiðslur vegna smitsjúkdóma og salmonellumengunar í stað Greiðslur vegna riðuveiki. Fjárveiting verður óbreytt en eins og nafnið gefur til kynna er gert ráð fyrir rýmri heimild til að ráðstafa henni.

Félagsmálaráðuneyti: Félagsmál, ýmis starfsemi. Farið er fram á 18 millj. kr. viðbótarheimild í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bjóða 25 flóttamönnum frá Bosníu hæli á Íslandi. Fjárheimildin er ætluð til að standa straum af útgjöldum Ísafjarðarbæjar og Rauða kross Íslands vegna komu flóttamannanna

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið: Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Leitað er eftir 35 millj. kr. viðbótarframlagi til þess að mæta rekstrarvanda sjúkrahúsa á landsbyggðinni, þar á meðal í Neskaupstað. Unnið er að lausn á fjárhagsstöðu sjúkrahúsanna en þeirri skoðun er ekki lokið. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til þeirra verði ákvarðaðar endanlega þegar gengið hefur verið frá samkomulagi við stjórnir sjúkrahúsanna um fjárframlög og starfsumfang og að þær verði greiddar út eftir því sem aðhaldsaðgerðir koma til framkvæmda.

Sjúkrahús og læknisbústaðir. Gerð er tillaga um 40,5 millj. kr. aukafjárveitingu til uppgjörs á skuldum vegna framkvæmda við heilbrigðisstofnanir. Þar af eru 23 millj. kr. vegna hjúkrunarheimilisins Hulduhlíðar, Eskifirði, 7,8 millj. kr. vegna hjúkrunarheimilisins Kirkjubæjarklaustri, 5,8 millj. kr. vegna hjúkrunarheimilisins Lundar, Hellu, og 3,9 millj. kr. vegna heilsugæslustöðvar á Stokkseyri.

Samgönguráðuneyti: Vita- og hafnamálastofnun. Gerð er tillaga um 39,8 millj. kr. viðbótarframlag á þessum lið. Framlagið er ætlað til að endurgreiða Hafnarsjóði Vestmannaeyja hlut ríkisins í bótum sem Hæstiréttur dæmdi sjóðinn til að greiða fyrirtækinu Hafverki í kjölfar málaferla varðandi dýpkunarframkvæmdir í Vestmannaeyjahöfn á árinu 1992.

Undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Sturla Böðvarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Hjálmar Jónsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Þá vil ég geta þess að í skýringum á bls. 33 í fjáraukalagafrv. er gerð grein fyrir fjárveitingum til Byggðastofnunar. Tillaga er gerð um að orðið afskriftasjóður falli út úr texta í athugasemdum undir forsrn. og næstsíðasti málsl. orðist þannig: ,,Í öðru lagi er gert ráð fyrir 80 millj. kr. framlagi sem renni til Byggðastofnunar til að uppfylla bókanir í viðauka II við fyrri búvörusamning frá árinu 1991.``

Fjárlagaskrifstofa fjmrn. hefur lagt lauslegt mat á afkomu ríkissjóðs eftir afgreiðslu fjáraukalaga en endanleg niðurstaða fæst við uppgjörsfjárlög sem lögð verða fram á vorþingi.

Eftirfarandi niðurstöður komu fram í því mati:

Við samþykkt fjárlaga fyrir ári síðan var gert ráð fyrir því að halli á fjárlögum yrði tæpir 4 milljarðar kr. árið 1996. Í frv. til fjáraukalaga 1996 var gert ráð fyrir að hallinn yrði tæpir 3 milljarðar kr. miðað við fjárheimildir frv. Á sama tíma var áætlað að raunveruleg útkoma yrði um 2,7 milljarðar kr. þegar reiknað var með að 300 milljónir komi ekki til greiðslu heldur falli niður við áramót. Við afgreiðslu fjáraukalaga eftir breytingar við 2. og 3. umr. má ætla að hallinn stefni í það að verða um 2 milljarðar kr. eða um helmingi lægri upphæð en samkvæmt fjárlögum miðað við að heimildir sem nemi 300 millj. kr. verði ekki nýttar.

Þegar ég geri grein fyrir þessum tölum þá verður að geta þess að afkoman eftir að gengið er frá fjáraukalögum er 12,3 milljarðar kr. vegna innlausnar á ríkisskuldabréfum sem hefur verið kynnt og verið til umræðu áður en hún mun koma til góða síðar til þess að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs.

Það er nú orðið nokkuð ljóst að afkoma ríkisbúskaparins er betri nú þegar sér fyrir endann á árinu heldur en reiknað var með þegar lagt var upp með samþykkt fjárlaga fyrir ári síðan. Ég á þá við afkomuna án innlausnar sem er eins og ég sagði áður sérmál og mun bæta afkomu ríkissjóðs síðar með því að draga úr vaxtakostnaði. Hér er fyrst og fremst um að ræða mikla tekjuaukningu sem kemur til góða en það hefur þó orðið svo að tekjuaukningin hefur ekki farið öll í aukin útgjöld. Þetta er auðvitað fagnaðarefni því það er svo sannarlega þörf fyrir bætta afkomu ríkissjóðs. En ég ætla ekki að fjölyrða um það mál að þessu sinni. Ég mun nánar fjalla um framtíðarhorfurnar við 3. umr. fjárlaga sem fer væntanlega fram hér á morgun. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.