Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:22:31 (2440)

1996-12-19 12:22:31# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:22]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en virða hreinskilni hv. þm. Það kemur einfaldlega fram í máli hennar að hún hefur miklar efasemdir um heilbrigðiskafla frv. sem er til umræðu. Ég deili þessum efasemdum. Ég tel að þær breytingar sem verið er að gera í frv. komi í sjálfu sér ekkert við ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Ég tel að hæstv. heilbrrh. sé að koma smyglgóssi í farteski frv. vegna þess að hún er að koma fram róttækum breytingum sem margar hverjar varða ekkert ríkisfjármálin.

Nú hefur komið fram að a.m.k. einn þingmaður og ekki bara venjulegur þingmaður heldur einn af þingmönnum stjórnarliðsins í hv. heilbr.- og trn. er búinn að lýsa andstöðu og miklum efasemdum við meginefni í heilbrigðiskafla bandormsins. Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra og vænti þess að hún svari því síðar í umræðunni: Eru fleiri þingmenn stjórnarliðsins sömu skoðunar og hv. þm.? Eru fleiri stjórnarliðar sem treysta sér ekki til að samþykkja heilbrigðiskaflann fyrr en að undangenginni frekari umræðu?