Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:53:03 (2489)

1996-12-19 17:53:03# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni efh.- og viðskn. fyrir að vekja athygli mína á brtt. sem snertir 26. gr. sem hafði farið fram hjá mér að væri komin fram. Mér sýnist að þar sé einmitt tekið að nokkru á því efni sem ég var að vísa til en hef þó ákveðinn fyrirvara varðandi það sem þarna segir, svo að ég hafi nú upp orðalag brtt., með leyfi forseta:

,,Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslu til veiðistjóraembættisins til refaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá hluta kostnaðar við veiðarnar, m.a. með tilliti til fjárhagslegrar getu hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.``

Það er þetta ,,þá``, þessi fyrirvari sem lesa má út úr því sem ég set spurningarmerki við. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa það sem algilda reglu hver sem að veiðunum stendur að skýrslum sé skilað til að heildarmynd fáist. Þetta er góðfúsleg ábending í sambandi við það efni. Og ég ítreka það að ég tel ofur eðlilegt að breytinga sé leitað varðandi kostnað við núverandi tilhögun mála því mér hefur sýnst að þar væri kannski óþarflega rúmt um í því efni og styð að því leyti þau sjónarmið sem voru í upphaflegu frv. þó að þar vantaði að eðlilega væri frá hnútum gengið um ýmislegt sem lögin kveða á um.