1996-12-20 00:38:07# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:38]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna ræðu hv. þm. vil ég láta koma fram að aðalverkefnið og aðamálið í kringum allar þessar umbætur er í rauninni hvort ríkissjóði takist að ná niður þeim halla sem myndast þegar fjárreiðufrv. verður samþykkt og menn fara að reikna skuldbindingarnar til gjalda í fjárlögunum og líka þegar menn fara að greiða samtímaiðgreiðslur inn í sjóðinn. Það sem skiptir höfuðmáli varðandi allan útreikning til lengri tíma er hvort við erum að flytja byrðarnar af þessari réttindamyndun yfir á komandi kynslóðir eða ekki. Það skiptir í sjálfu sér minna máli upp á þessar byrðar sem við berum til framtíðarinnar hvort við gerum skil til B-deildarinnar nákvæmlega á þeim tíma eða hvort fortíðarvandinn er gerður upp. Aðalmálið er, númer eitt, tvö og þrjú, að ná halla ríkissjóðs niður sem samsvarar þessari gjaldfærslu sem menn hefðu svo sem getað verið búnir að gera miðað við núverandi kerfi og gera ráð fyrir alveg óháð öllum þessum umskiptum. Það skiptir höfuðmáli varðandi reikningana til lengri tíma.

Varðandi annað sem hv. þm. kemur inn á þá er margbúið að reyna að bjóða opinberum starfsmönnum í frjálsum kjarasamningum að breyta lífeyrisréttindunum til lækkunar upp á það að fá hærri laun. Það er margbúið að reyna það. Málið snýst kannski um það að kjarasamningarnir eru frjálsir og að lífeyrisréttindin bæði á hinum almenna vinnumarkaði og í hinu opinbera kerfi hafa mjög tengst kjarasamningum. Það er einu sinni þannig að á meðan kjarasamningarnir eru frjálsir, þá getur það einfaldlega leitt til mismunandi niðurstöðu varðandi lífeyrisréttindin miðað við laun, þ.e. hversu stór hluti af launakostnaðinum á að fara til lífeyrismála. Ég held að við verðum að hafa þetta í huga þegar við ræðum um sambúð þessara tveggja kerfa.