1996-12-20 01:20:52# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:20]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. um þokukenningu hans. Það hefur legið fyrir í ríkisreikningum hversu mikil skuldbinding væri að myndast hverju sinni vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna ríkisins. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur líka verið óþreytandi við að minna okkur þingmenn og aðra á hversu há þessi skuldbinding væri og hefur unnið mikið starf við að létta þeirri þoku af. Ég held þó að það sem skiptir mestu máli til að létta þokunni af þessu máli sé það þegar þingið gerir sér grein fyrir hvað þetta þýðir í útgjöldum ríkissjóðs þegar fjárreiðufrv. verður orðið að lögum. Það verði þá aðalmálið að ná hallanum niður til að þetta sé borgað raunverlega af þeirri kynslóð sem er að búa réttindin til en ekki að flytja réttindin yfir á þá kynslóð sem verður að borga skatta árið 2020 eða 2050. Þetta verður stóra málið til að þetta hafi einhver efnahagslega bætandi áhrif fyrir okkur.

Spurningin um hvort það hafi verið tvær leiðir til samræmingar, þ.e. leið eitt að berja réttindi BHMR og BSRB niður með illu eða leið tvö að færa alla upp með góðu. Þingmaðurinn nefndi sjálfur margar fleiri leiðir sem tengjast auknu frjálsræði sem ég hygg að hefðu vel komi til greina. Menn koma frá Alþýðusambandinu og tala um að sækja til ríkisvaldsins sömu réttindi. Í hvaða vasa á að sækja þau réttindi? Að sjálfsögðu í vasa skattgreiðenda sem eru sömu aðilar. En ég hygg að þegar menn taka eftir því að með því að færa réttindin úr hægri vasanum yfir í þann vinstri og taka 25% af með því að láta þau ganga í gegnum ríkissjóð þá velji menn nú kannski ekki endilega þá leiðina.