1996-12-20 01:31:58# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:31]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrsta spurning --- ræður atvinnulífið við að borga 5,5%? Ef íslenskt atvinnulíf og íslensk atvinnufyrirtæki sýndu t.d. sömu framleiðni og gengur og gerist í nágrannalöndum okkar þá ráða þau við þetta og munu leika sér að því. Ég ætla að benda hv. þm. á einn hlut sem hann var raunverulega að gefa í skyn, að eitt helsta vandamál í Evrópu er fólgið í því að launin eru of lág en launakostnaðurinn of hár. Þetta þekkjum við sem vandamál og tengist launatengdum gjöldum. Launatengd gjöld hérlendis eru lág miðað við það sem er erlendis. Og vandamál íslensks atvinnulífs felst í því að íslensk fyrirtæki eru svo langt frá því að ná sambærilegum árangri og næst í Evrópu. Við vitum það að eini möguleikinn fyrir íslenskt launafólk til að halda uppi sömu lífskjörum og eru í nágrannalöndunum er að vinna 30% meira. Og ég get haldið áfram að fara með þessa ræðu lengi, hún er þekkt. Vandamál íslenskra fyrirtækja liggur ekki í því að launatengd gjöld þeirra séu of lág. Vandamál þeirra liggur allt annars staðar. Við sjáum það nú m.a. á skattgreiðslum til samfélagsins sem eru einna lægstar innan OECD og skattgreiðslur íslenskra fyrirtækja til samfélagsins eru reyndar lægstar innan OECD sem hlutfall af landsframleiðslu. Það eru margar skýringar á því, m.a. hvað þau eru slök í rekstri sínum.

Önnur spurning --- þurfti að létta þokunni? Er forsenda að gera það með réttindin eins? Það þarf ekkert að vera. Það var hægt að létta þokunni svona. Þokunni var létt með þessu frv.

Þriðja spurningin --- munu Sóknarkonur sætta sig við launalækkun? Ég svara ekki fyrir Sóknarkonur. Ég fer ekki með samninga fyrir Sóknarkonur. Ég spurði hins vegar hæstv. fjmrh. um stefnu hans. Hann fer með samningamál fyrir ríkið. Ég hef bent á að ég telji að það verði ekki gengið frá þessu máli nema með því að gera þessa samninga og láta Sóknarkonur og aðra njóta sambærilegra hluta. (Forseti hringir.) Ég tel að ríkisvaldið eigi að gera það. Það sé réttlæti fólgið í því en ég fer ekki með samningamál, hvorki af hálfu stéttarfélaganna né ríkisins.