1996-12-20 02:16:48# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér hafa verið fluttar margar athyglisverðar ræður og ýmis sjónarmið hafa verið reifuð en það er ánægjulegt að hilla skuli undir farsæla lausn í þessu margflókna og að mörgu leyti erfiða máli.

Mergurinn málsins er að sjálfsögðu sá að með þessum lagabreytingum er verið að tryggja sambærileg lífeyrisréttindi þeim sem opinberir starfsmenn hafa búið við til þessa. Það sem kann að vera þar umfram er fjármagnað úr vasa launamannsins sjálfs. Það verður dregið af yfirvinnukaupinu hans 1. jan. nk. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu --- að við erum að tala um sambærileg réttindi, um sambærilegt kerfi.

Ég ætla ekki að ræða einstaka þætti þessa frv. Það hef ég gert við annað tækifæri en ýmsir hlutir hafa verið nefndir. Menn hafa t.d. spurt hvort ekki hefði verið eðlilegra að draga úr óvissu með því að festa iðgjaldið. En þá er á það að líta að óvissan hlýtur að vera öðru hvorum megin. Annaðhvort er hún launagreiðandans megin eða launamannsins megin. Hér eru réttindi launamannsins tryggð. Þau er fest.

Ég hef áður gert grein fyrir því hvers vegna ég tel vera mjög skynsamlegt að breyta Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins enda þótt ég sé á þeirri skoðun að allt tal, sem reyndar hefur verið mjög áberandi um nokkurra ára skeið, um hve illa þessi sjóður standi sé ekki á rökum reist. Ég er þeirrar skoðunar að ef litið er á málið frá sjónarhóli skattgreiðandans, frá sjónarhóli ríkissjóðs sem launagreiðanda sem sparað hefur sér mikla fjármuni, sennilega um 700--800 millj. kr. á ári hverju með því að greiða ekki iðgjöld af öllum launum heldur dagvinnu og föstum launum einvörðungu, hvort litið er á þá hagsmuni ríkissjóðs að fá lán úr þessum sjóði, 40% af útlánum sjóðsins hefur gengið til ríkissjóðs vaxtalaust, eða hvort litið er á þá hagsmuni skattgreiðandans og ríkissjóðs sem handhafa almannatryggingakerfis sem sparað hefur sér milljarða, ef ekki tugi milljarða, með sterku lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna. Allir þessir þættir eru vanmetnir í þeirri umræðu sem fram hefur farið ekki aðeins í þessum sal heldur í þjóðfélaginu öllu á liðnum árum þegar menn hafa tíundað vanda lífeyrissjóðsins.

En við erum að fara yfir í nýtt kerfi og við erum að fara inn í nýja tíma. Menn neita því að skoða málin á heildstæðan hátt. Menn eru að fara inn í aukna valddreifingu innan hins opinbera kerfis og menn vilja einnig tryggja að réttindi á borð við lífeyrisréttindi verði fjármögnuð úr sjóði. Þeir vilja tryggja sjóðsmyndun. Á því byggist þetta nýja frv. að jafnmikið komi inn og fer út. Þetta er hugsunin á bak við kerfið. Ég held að hægt sé að einfalda þessa umræðu mjög mikið.

Ef litið er t.d. á félagsmann í BSRB og hvað hann komi til með að fá í lífeyrisgreiðslur, einstaklingur sem hefur unnið alla sína ævi og borgað í lífeyrissjóð. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvar hann er settur í launakerfinu. Ef við höldum okkur við meðaltalsmanninn má ætla að hann fái 80--90 þús. kr. á mánuði hverjum. Þá er rétt að spyrja: Finnst okkur þetta vera of miklir peningar? Finnst okkur þetta vera oftrygging í lífeyrisgreiðslum? Ef okkur finnst það ekki þá erum við jafnframt að segja að með einhverjum hætti þurfi að fjármagna þær greiðslur og um það stendur deilan að verulegu leyti. Á að fjármagna greiðslurnar í gegnum almannatryggingar? Á að fjármagna þær í gegnum sjálfstæða samtryggingarlífeyrissjóði? Það er stefnan sem hér er tekin. Samtryggingarlífeyrissjóði þar sem greitt er núna fyrir réttindi sem nýtast í framtíðinni? Eða, á að fara aðra leið sem hefur verið nokkuð til umræðu í kvöld? Vilja menn að einstaklingurinn hafi val um að tryggja sig hjá sjálfstæðum fjárfestingarfyrirtækjum? Þar hefur verið mjög mikill þrýstingur á liðnum mánuðum, missirum og árum, að lífeyrissparnaði verði beint inn í þann farveg. Að fjárfestingarfyrirtækin, Kaupþing, Féfang og hvað þau heita öll, fjármagni lífeyrisgreiðslurnar. Um þetta snúast málin. Hér hefur hins vegar verið tekin sú stefna að fara samtryggingarleiðina. Ég tel það mjög vel.

Að lokum, hæstv. forseti, tel ég þær brtt. sem fram hafa komið við umræðuna vera viðunandi. Ég tel þær ekki vera til bóta og á það við um allflesta efnisliðina, bæði það að takmarka valtímann og einnig er það mín persónulega skoðun varðandi ávöxtunarstefnu og fjárfestingarstefnu að ákvæði um slíkt eigi að vera gerðar í sjóðstjórninni sjálfri. Ég vil geta þess í þessu samhengi að í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er nú unnið að ítarlegri stefnugerð í því efni þar sem með stuðningi samtaka launafólks er mótuð stefna sem er mjög áþekk því sem er að finna í brtt. Að leitað skuli bestu kjara með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Það er hins vegar mín skoðun að ákvæði af þessu tagi eigi ekki að lögbinda. Það eigi ekki að binda ákvæði af þessu tagi í lög. Við vitum hvernig það hefur verið á undangengnum árum þegar þjóðfélaginu öllu hefur þótt vaxtastigið keyra úr hófi fram, þá vitum við að iðulega hafa einmitt lífeyrissjóðirnir riðið á vaðið og haldið vaxtastiginu uppi. Ég tel óráðlegt að binda ákvæði um þetta efni í lög því það koma þeir tímar þegar þjóðfélagið allt vill taka á og gera þjóðarsáttir á þessu sviði hugsanlega sem öðrum. Að öðru leyti fagna ég því að hilla skuli undir farsæla lausn í þessu máli.