1996-12-20 21:28:50# 121. lþ. 54.2 fundur 251. mál: #A sérákvæði í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heilsugæslulæknar, prófessorar o.fl.) frv. 150/1996, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[21:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessar brtt. eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og eru í tveimur liðum. Í a-lið brtt. er gert ráð fyrir því að taka þurfi fram að þegar menn eru settir í embætti án auglýsingar sé það einungis vegna þess að sá sem er í embættinu fyrir geti ekki gegnt því og þess vegna geti menn ekki verið settir í embætti án auglýsingar án þess að um forföll sé að ræða. Í b-lið brtt. er verið að gera ráð fyrir því að undir kjaranefnd geti fleiri heyrt en þeir sem nákvæmlega teljast embættismenn. Þess vegna er ekki um það að ræða að þeir aðilar sem kjaranefnd ákveður laun fyrir geti jafnframt notið viðbótarlauna.