Hættuleg eggvopn

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 14:13:28 (3117)

1997-02-05 14:13:28# 121. lþ. 62.4 fundur 187. mál: #A hættuleg eggvopn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér er komið að fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. á þskj. 208 um hættuleg eggvopn. Fyrirspurn þessi var lögð fram í nóvembermánuði, ef ég man rétt, en ekki voru aðstæður til að fá henni svarað fyrir áramót. Hún er svohljóðandi:

,,Er ráðherra, í ljósi fjölmargra atvika undanfarið þar sem beitt hefur verið hnífum, reiðubúinn að beita sér fyrir aðgerðum sem fela í sér takmarkanir á rétti manna til að ganga með hættuleg eggvopn?``

Þegar ég lagði fyrirspurnina fram hafði ég látið fara lauslega yfir það hvaða reglur giltu um þetta efni og m.a. með aðstoð skrifstofu þingsins og með tölvuleit og þar fannst þá ekki orðin hnífur eða eggvopn við fljóta yfirferð. Og eftir að fyrirspurnin kom fram varð mér ljóst að það eru ákvæði í lögum sem heimila reglur um þetta efni, lög nr. 46/1977, og settar hafa verið reglugerðir um málið sem hæstv. ráðherra mun vafalaust kynna hér á eftir. En tilefni fyrirspurnarinnar eru þau mörgu tilvik, sem fer fjölgandi, því miður, um það að eggvopnum sé beitt í samskiptum milli manna. Ég hef fengið, frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, yfirlit yfir hversu oft þetta hafi gerst frá ársbyrjun 1996 til 4. febr. 1997. Samkvæmt því yfirliti er málafjöldi þar sem eggvopn koma við sögu ekki færri en 72 á þessu tímabili. Þar af þar sem eggvopnum er beitt og aðili skaðast 14 mál; þar sem um sjálfsvígstilraun er að ræða fimm mál; þar sem ógnað er með eggvopni án þess að meiðsli eigi sér stað 25 mál; og í fjórða lagi hnífar, haldlagðir af lögreglu án þess að þeim hafi verið beitt, 28 mál, þar af í tengslum við innbrot sjö mál og í tengslum við fíkniefnamál hjá almennri deild lögreglu níu mál.

Sagt er í erindi frá lögreglustjóraembættinu að mjög sjaldgæft sé að þeim sé beitt þegar um fíkniefnamál er að ræða, en mjög algengt að slíkt finnist við húsleit hjá grunuðum aðilum.

Hér er á ferðinni stórt mál og mér finnst að lítið hafi farið fyrir kynningu á þeim reglum sem þó eru í gildi eða umræðu um það hvort ekki sé réttmætt að auka eftirlit með þessum málum, m.a. með innflutningi og meðferð þessara mála, heimild til þess að bera slík vopn á sér eða tæki á sér. Ég vænti að þessi fyrirspurn verði til að varpa ljósi á gildandi reglur og hvað hæstv. ráðherra og hans lið hyggst gera í sambandi við þetta mikla og vaxandi vandamál.