Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 4 . mál.


4. Tillaga til þingsályktunar



um styttingu vinnutíma án lækkunar launa.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Ragnar Arnalds, Sigríður Jóhannesdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu að áætlun til þriggja ára um raunverulega styttingu vinnutímans og við það miðað að í lok áætlunartímabilsins verði vinnutími hér á landi ekki lengri en er að jafnaði í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, t.d. í Danmörku eða annars staðar á Norðurlöndum.
    Jafnframt verði tekið til athugunar að skipta vinnu milli fólks sem lið í að draga úr atvinnuleysi og stytta vinnutíma.
    Til samstarfs um þetta verkefni verði kallaðir aðilar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálasambandinu og Vinnuveitendasambandi Íslands. Áætlunin verði unnin undir forustu forsætisráðuneytisins.
    Í áætluninni verði við það miðað að launatekjur lækki ekki þrátt fyrir styttri vinnutíma.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir lok ársins 1997.

Greinargerð.


    Þingflokkur Alþýðubandalags og óháðra bað á síðasta þingi um skýrslu frá forsætisráðherra um muninn á lífskjörum á Íslandi og í Danmörku. Einsök atriði skýrslunnar verða ekki rifjuð upp hér en fram kom að aðalmunurinn á lífskjörum hér og þar felst í lágu tímakaupi á Íslandi og gríðarlegri yfirvinnu til að vinna það upp. Af þessu leiðir að minni tími er fyrir fjölskyldur og heimili. Þingsályktun þessi er fyrsta þingmál þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra á þessu hausti. Ástæða þess er sú að þingflokkurinn telur allt of langan vinnutíma undirrót margvíslegra félagslegra vandamála. Lág laun og langur vinnutími hefur veruleg áhrif á stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi. Þessi tillaga er fyrsta framlag þingflokksins í málatilbúnaði sem lýtur að því að móta heildstæða stefnu í fjölskyldumálum.
    Umræða um málefni fjölskyldunnar hefur verið almenn og óljós. Þess vegna hafa verið teknar ákvarðanir í skattamálum og atvinnumálum, heilbrigðismálum, tryggingamálum og menntamálum sem hafa kippt stoðum undan afkomu margra fjölskyldna í landinu. Aðalvandi fjölskyldnanna er ekki einstakar aðgerðir heldur og því miður röð ákvarðana núverandi stjórnvalda þar sem frumkvæði, vilji og orka almennings eru troðin niður. Gleggstu dæmin í þeim efnum eru jaðarskattarnir.
    Nú styttist í að samþykkt ESB nr. 93/104 taki gildi hér á landi. Þá eykst þrýstingur á að vinnutíminn verði styttur og því er mikilvægt að fundnar séu leiðir til þess án þess að það lækki ráðstöfunartekjur heimilanna. Í skýrslunni um samanburð á kjörum fólks á Íslandi og í Danmörku kemur m.a. fram að vinnutími einstakra hópa hér á landi er allt að 51 stund á viku að jafnaði en nær ekki 40 stundum í Danmörku. Þrátt fyrir þetta mikla vinnuálag nær íslenskur launamaður ekki sömu ráðstöfunartekjum á mánuði og danskur. Við þetta verður ekki unað. Hér verður ekki mótuð raunhæf fjölskyldustefna ef ekki er tekið á þessum vanda. Taxtalaun verða að vera meginuppistaða í tekjum heimilanna. Með bættu skipulagi innan fyrirtækja og aukinni framleiðni þeirra ætti að vera unnt að ná þessu markmiði. Tillaga þessi er ekki aðeins mikilvæg frá almennu félagslegu sjónarmiði heldur er hún einnig mikilvægur þáttur í mótun heildstæðrar atvinnustefnu sem Alþýðubandalagið leggur áherslu á.