Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 116 . mál.


127. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Gísli S. Einarsson, Ágúst Einarsson,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Baldvin Hannibalsson,


Lúðvík Bergvinsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sighvatur Björgvinsson,


Svanfríður Jónasdóttir, Össur Skarphéðinsson.



1. gr.


    Á eftir 4. mgr. 63. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Kjósanda sem búsettur er erlendis og greiða vill atkvæði utan kjörfundar skal, ef beiðni þar að lútandi kemur fram, gefinn kostur á að fá sendan kjörseðil í ábyrgðarpósti. Kjósandi endursendir síðan kjörseðilinn til kjörstjórnar í sínu kjördæmi ásamt fylgigögnum sem lögbókandi, þar sem kjósandi er búsettur, hefur vottað.

2. gr.


    Við 5. mgr. (er verður 6. mgr.) 63. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðuneytið skal einnig setja nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu skv. 5. mgr.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt og er því endurflutt nú.
    Íslendingar sem búsettir eru erlendis eiga því aðeins möguleika á að greiða atkvæði utan kjörfundar samkvæmt núgildandi lögum um kosningar til Alþingis, 63. gr., að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn og að kosning fari fram á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar, sendiræðisskrifstofu eða skrifstofu kjörræðismanns, sem er kjörstjóri skv. 13. gr. laganna. Kjörstöðum verður því aðeins fjölgað samkvæmt ákvæðinu að víðar verði skipaðir kjörræðismenn sem geta annast utankjörfundarkosningu.
    Í 1. gr. laga um kosningar til Alþingis kemur fram að íslenskur ríkisborgari á kosningarrétt í átta ár frá því hann flytur lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag. Slíkur ríkisborgari getur einnig átt kosningarrétt þó að liðinn sé lengri tími en átta ár ef hann hefur sérstaklega sótt um að verða settur á kjörskrá. Við kosningar til Alþingis vorið 1995 voru kjörstaðir erlendis samtals 114 í 45 ríkjum. Alls voru þá teknir á kjörskrá 6.331 íslenskur ríkisborgari búsettur erlendis. Af þeim fóru 6.224 sjálfkrafa á kjörskrá þar sem þeir höfðu flust til útlanda eftir 1. desember 1986 og 107 sem höfðu búið erlendis lengur en í átta ár miðað við þann dag og höfðu sótt um fyrir 1. desember 1994 að vera settir á kjörskrá.
    Í norskum kosningalögum er að finna sérreglur um utankjörfundaratkvæðagreiðslu norskra ríkisborgara, sbr. ákvæði 34. gr. a. Í ákvæðinu er norskum ríkisborgurum, sem óska eftir að greiða atkvæði í kosningum í heimalandi sínu, heimilað að senda atkvæði sitt í almennum pósti til kjörstjórnar þar sem þeir eru á kjörskrá í stað þess að afhenda atkvæði sitt hjá sendifulltrúa. Ákvæðinu hefur verið beitt í þágu þeirra ríkisborgara sem búsettir eru í Þýskalandi og Sviss þar sem þeir eiga ekki kost á því að kjósa með öðrum hætti, en það er sett sem skilyrði í ákvæðinu. Sama gildir um sænska ríkisborgara sem búsettir eru í þessum löndum, en sérstök lög eru í gildi í Svíþjóð um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, þ.e. „Lag om brevröstning i Förbundsrepubliken Tyskland og Schweiz“, og gilda þau til áramóta 1997–98. Í þessu samhengi er einnig rétt að geta þess að skv. 70. gr. íslensku kosningalaganna skulu kjósendur, sem kjósa utan kjörfundar, annast og kosta sjálfir sendingu atkvæðis síns til kjörstjórnar á Íslandi. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
    Kosningarrétturinn er stjórnarskrárvarinn og einn af hornsteinum lýðræðisskipunar okkar. Í því ljósi er mikilvægt að gera öllum þeim sem eiga þennan rétt kleift að nýta sér hann. Breyting sú sem hér er lögð til á lögum um kosningar til Alþingis er hugsuð í þágu allra þeirra kjósenda sem búsettir eru erlendis og vilja nýta kosningarrétt sinn. Hún er ekki takmörkuð sérstaklega við lönd þar sem ekki er mögulegt að kjósa með öðrum hætti, sbr. áðurnefnd ákvæði í norskum og sænskum lögum. Án þess að hægt sé að fullyrða um það og byggja á óyggjandi tölum má leiða að því sterkar líkur að kosningaþátttaka Íslendinga, sem búsettir eru tímabundið erlendis vegna náms eða starfa, sé talsvert minni en gerist hjá Íslendingum sem hafa dvalarstað hér heima. Ástæður þessa eru fyrst og fremst miklar vegalengdir á kjörstað. Til að bæta þar úr er frumvarp þetta lagt fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að nýju ákvæði verði bætt við 63. gr. laganna sem miðar að því að einfalda þeim Íslendingum sem búa erlendis að kjósa utan kjörfundar en það hefur oft reynst bæði kostnaðarsamt og tímafrekt fyrir fjölda manna að komast á kjörstað sökum mikilla fjarlægða. Til þess að tryggja öryggi atkvæðagreiðslu, sem fram fer eftir að kjósandi hefur, samkvæmt beiðni, fengið sendan kjörseðil í ábyrgðarpósti, er lagt til að lögbókandi skuli votta á fylgigögn með kjörseðli, en lögbókandagerð telst opinber staðfesting á því sem efni hennar kveður á um og er vottun lögbókanda jafngild vottun tveggja manna um þá athöfn eða staðreynd sem hún tekur til. Að því loknu getur kjósandi endursent kjörseðilinn til kjörstjórnar í sínu kjördæmi.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir því að dómsmálaráðuneytið setji nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skv. 1. gr., m.a. um tímafresti, vottun o.fl.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.