Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 119 . mál.


130. Frumvarp til laga



um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



Um breytingu á lögum nr. 83/1989, um þjóðarbókhlöðu


og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.


1. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sbr. 3.–6. gr. laganna skulu tekjur af sérstökum eignarskatti á árinu 1996 umfram 330 m.kr. renna í ríkissjóð og á árinu 1997 skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 285 m.kr. renna í ríkissjóð.
    

Um breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldskóla.


2. gr.


    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
    Heimilt er framhaldsskólum að innheimta sérstakt 1.500 kr. gjald, endurinnritunargjald, af nemanda, sem endurinnritar sig í próf eða áfanga. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um innheimtu gjaldsins.
    

Um breytingu á lögum nr. 84/1989, um búfjárrækt, með síðari breytingum.


3. gr.


    Á undan hlutfallstölunni „65“ í 6. mgr. 8. gr. laganna kemur: allt að.
    

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
    Á undan hlutfallstölunni „65%“ í b- og c-liðum 1. mgr. komi: allt að.
    Við bætist ný málsgrein er verður 4. mgr. og orðast svo:
                  Framlag ríkissjóðs skv. a-, b- og c-liðum 1. mgr. skal ákveðið í fjárlögum ár hvert.
    

Um breytingu á lögum nr. 56/1987, jarðræktarlögum, með síðari breytingum.


5. gr.


    3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður greiðir búnaðarsamböndum allt að 65% af launum héraðsráðunauta og trúnaðarmanna. Hluti ríkissjóðs í launagreiðslum fer eftir kjarasamningum opinberra starfsmanna. Ríkissjóður greiðir allt að 65% af ferðakostnaði héraðsráðunauta og trúnaðarmanna samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands. Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt þessari grein skulu vera innan þeirra marka sem ákveðin eru í fjárlögum ár hvert.

Um breytingu á lögum nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat


á sláturafurðum, með síðari breytingum.


6. gr.


    Lokamálsgrein 9. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 144/1995, orðast svo:
    Til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögum þessum og lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum, skal innheimta sérstakt gjald. Gjald þetta skal vera 0,55 kr./kg kjöts sem innvegið er í afurðastöð. Landbúnaðarráðherra er heimilt að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.
    

Um breytingu á lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull,


með síðari breytingum.


7. gr.


    Lokamálsgrein 7. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 144/1995, orðast svo:
    Um gjald af sláturleyfishöfum fyrir yfirmat fer samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum.
    

Um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.


8. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra, greiðist á árinu 1997 af ráðstöfunarfé sjóðsins kostnaður vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar skv. 27. gr. laganna og kostnaður vegna starfsemi stjórnarnefndar skv. 52. gr.
    

Um breytingu á lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og


erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum.


9. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, skulu tekjur af erfðafjárskatti á árinu 1997 umfram 165 m.kr. renna í ríkissjóð.
    

Um breytingu á lögum nr. 19/1992, um starfsmenntun í atvinnulífinu.


10. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
    Félagsmálaráðherra gerir tillögu um fjárþörf vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu að fenginni umsögn starfsmenntaráðs. Árlega skal verja ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði í sérstakan sjóð til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu. Fjárhæð framlagsins ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Starfsmenntaráð fer með stjórn sjóðsins.
    

Um breytingu á lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar,


með síðari breytingum.


11. gr.


    Í stað fjárhæðarinnar „2.433 kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna, sbr. 26. gr. laga nr. 144/1995, kemur: 2.482 kr.

12. gr.

    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Auk framlaga skv. 1. mgr. skal árlega verja ákveðnum fjárhæðum úr sjóðnum til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. lög þar að lútandi, og til sérstakra þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Fjárhæð þessara framlaga ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

13. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða V í lögunum orðast svo:
    Í samræmi við 5. mgr. 22. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1997, þrátt fyrir ákvæði 37. gr., að gera tillögu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.
    

Um breytingu á lögum nr. 82/1989, um málefni


aldraðra, með síðari breytingum.


14. gr.


    Í stað fjárhæðarinnar „3.985 kr.“ í 2. málsl. 1. tölul. 10. gr. laganna kemur: 4.065 kr.
    

Um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu,


með síðari breytingum.


15. gr.


    2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Þar sem aðstæður leyfa skulu heilsugæslustöð og sjúkrahús rekin sem ein stofnun undir einni stjórn, sbr. 2. mgr. 21. gr.
    

16. gr.

    10. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.
    

17. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að breyta skiptingu í heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra með reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    

18. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 21. gr. laganna:
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Skipunartími formanns skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði hann.
    1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Stjórn heilsugæslustöðva í Reykjavíkurhéraði skal skipuð fimm mönnum.
    Síðari málsl. 5. mgr. fellur brott.
    

19. gr.

    2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann getur jafnframt ákveðið sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu með reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    

20. gr.


    Við 3. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Skipunartími formanns skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði hann.
    

Um breytingu á lögum nr. 113/1994, um eftirlaun aldraðra,


með síðari breytingum.


21. gr.


    20. gr. laganna fellur brott.
    

Um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar,


með síðari breytingum.


22. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, skulu 856 m.kr. af innheimtum mörkuðum tekjum samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð á árinu 1997.
    

Um breytingu á lögum nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun


til framkvæmda í flugmálum, með síðari breytingum.


23. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, sbr. 11. gr. laga nr. 148/1994, skal heimilt að verja tekjum af flugvallagjaldi til greiðslu stofnkostnaðar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    

Um breytingu á lögum nr. 58/1967, orkulögum, með síðari breytingum.


24. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 74. gr. laganna:
    1., 2. og 3. tölul. orðast svo:
         
    
    Að styrkja gerð yfirlitsathugana á möguleikum til að auka hlutdeild innlendra orkulinda í orkubúskap þjóðarinnar.
         
    
    Að styrkja sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talið fræðslu- og upplýsingastarfsemi.
         
    
    Að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerða tækja og búnaðar sem ætla má að leiði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.
    5. tölul. fellur brott.
    

Um breytingu á lögum nr. 8/1993, samkeppnislögum, sbr. lög nr. 24/1994.


25. gr.


    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður 3. málsl. og orðast svo: Áfrýjandi skal greiða 120.000 kr. gjald vegna áfrýjunar um leið og áfrýjað er.
    

Um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og


veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.


26. gr.


    Orðin „og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá allt að helming kostnaðar við veiðarnar eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum“ í 2. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna falla brott.
    

27. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Þó skal ákvæði 1. gr. öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að venju byggir frumvarp til fjárlaga á ákveðnum forsendum um að lögum verði breytt til að þau nái fram að ganga. Í samræmi við þann hátt sem hafður hefur verið á undanförnum árum þykir rétt að taka saman öll slík ákvæði, að undanskildum breytingum á tekjuhlið fjárlaga, í einn lagabálk. Er það gert til að leggja áherslu á að ákvæðin tengjast stefnu ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisútgjöldum og viðleitni til að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að nokkrum lagagreinum sem lögbinda ákveðin útgjöld verði breytt. Lagt er til að ýmis lögbundin ákvæði um sjálfvirk framlög verði afnumin en í stað þeirra ákvarðist framlög í fjárlögum hverju sinni. Markmiðið er að auka með því svigrúm löggjafans til að veita fé til ýmissa verkefna á vegum ríkisins eftir því sem hann telur hæfilegt hverju sinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, rennur sérstakur eignarskattur sem lagður er á samkvæmt lögunum í sérstakan sjóð sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 1997 er gert er ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 435 m.kr. Hér er lagt til að af þessum tekjum renni 150 m.kr. í ríkissjóð. Þá er og lagt til að 100 m.kr. af tekjum af sérstökum eignarskatti á yfirstandandi ári renni í ríkissjóð.
    

Um 2. gr.


    Lagt er til að innheimt verði sérstakt gjald á hvern nemanda sem endurinnritast í próf eða áfanga í framhaldsskóla og verði fjárhæð gjaldsins 1.500 kr. Óhjákvæmilegur kostnaður hlýst af því að halda endurtekningarpróf fyrir þá nemendur sem ekki hafa staðist próf í framhaldsskólum, en brottfall nemenda úr framhaldsskólum og endurtekning prófa er talin óeðlilega mikil. Lausleg athugun bendir til þess að meira en 15% nemenda endurtaki próf. Ætlunin er að taka 1.500 kr. gjald af þeim nemanda sem endurinnritar sig í próf eða áfanga í framhaldsskólum í þeirri von að gjaldtakan leiði til markvissari innritunar og auðveldi skipulagningu í kennslu, fremur en að leiða til útgjalda nemenda.
    Þykir eðlilegt að nemendur, sem endurinnritast í próf eða áfanga, beri hluta af þeim kostnaði sem af því leiðir. Þá er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til þess að setja nánari reglur um innheimtu endurinnritunargjaldsins, þar með talið um tilhögun innheimtu í bekkjarkerfisskólum. Enda þótt meginreglan verði sú að allir nemendur sem endurinnrita sig í próf eða námsáfanga séu skyldir til að greiða endurinnritunargjaldið kann bekkjarkerfisskipan í framhaldsskólum að kalla á annars konar tilhögun innheimtu en í áfangakerfi. Þá er einnig ætlast til að í reglum þessum verði ákvæði um meðferð fjárins og skil þess í ríkissjóð.
    

Um 3. gr.


    Lagt er til að í stað þess að ríkissjóður greiði 65% af launum og ferðakostnaði héraðsráðunauta greiði ríkissjóður allt að þessum 65%. Ákvörðun um hversu mikið ríkissjóður greiðir af launum og ferðakostnaði verður þannig tekin í fjárlögum ár hvert í stað þess að þessi útgjöld séu lögbundin í lögum um búfjárrækt.
    

Um 4. gr.


    Lagt er til að í stað þess að í lögum um búfjárrækt sé kveðið á um hversu miklu fé skuli varið til stofnunar og rekstrar ræktunarstöðva fyrir búfé verði ákvörðun um fjárframlög í þessa þágu tekin í fjárlögum ár hvert. Á undanförnum árum hafa þessi framlög verið skert til eins árs í senn í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er því lögð til varanleg breyting á lögunum að þessu leyti.
    

Um 5. gr.


    Lagt er til að jarðræktarlögum verði breytt á þann veg að kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í launum og ferðakostnaði héraðsráðunauta verði ákveðin í fjárlögum ár hvert. Gert er ráð fyrir að áfram verði í lögunum hámark á kostnaðarhlutdeildina, en í fjárlögum ár hvert verði tekin ákvörðun um hversu miklu fé ríkissjóður skuli verja til að standa straum af þessum kostnaði.
    

Um 6. og 7. gr.


    Lagt er til að sláturleyfishöfum verði gert að greiða sérstakt gjald, matsgjald, til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögum nr. 30/1966, um slátrun, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum, og við yfirmat samkvæmt lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull. Í gildandi lögum er gjaldtökuheimild vegna yfirmats og er matsgjaldi samkvæmt þessari grein ætlað að koma í stað þeirrar gjaldtökuheimildar. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi nein áhrif á tekjur eða útgjöld ríkisins, enda er hér eingöngu verið að kveða skýrar á um gjaldtökuna í lögum.
    

Um 8. og 9. gr.


    Lagt er til að tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra af erfðafjárskatti verði 165 m.kr., sem er lækkun um 92 m.kr. frá árinu 1996. Á móti kemur framlag á fjárlögum að fjárhæð 100 m.kr. til frekari liðveislu og annarra rekstrarverkefna sem voru greidd af Framkvæmdasjóði á sl. ári. Ráðstöfunarfé sjóðsins til stofnkostnaðar og viðhaldsverkefna helst því óbreytt milli ára.
    Áfram er gert ráð fyrir að kostnaður vegna starfsemi stjórnarnefndar og tækja- og námsstyrkir verði greiddir úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.
    

Um 10. gr.


    Lagt er til að Atvinnuleysistryggingasjóður veiti á árinu 1997 fjármagni til starfsmenntunar í atvinnulífinu, sem áður var veitt fjármagni til á fjárlögum.
    

Um 11. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum skulu hámarksbætur atvinnuleysisbóta koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Í samræmi við þennan áskilnað laganna er lagt til að hámarksbætur hækki um 2%.
    

Um 12. gr.


    Lagt er til að Atvinnuleysistryggingasjóður styrki starfsmenntun í atvinnulífinu með fjárframlögum, auk þess sjóðurinn veiti fé til sérstakra þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur. Gert er ráð fyrir að fjárhæð framlaga þessara verði ákveðin við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
    

Um 13. gr.


    Hér er framlengd heimild til Atvinnuleysistryggingasjóðs til að styrkja átaksverkefni sveitarfélaga á árinu 1997, en sambærileg heimild var í 27. gr. laga nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996.
    

Um 14. gr.


    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 2%.
    

Um 15. gr.


    Hér er lagt til að í stað ákvæðis laganna um að þar sem aðstæður leyfa skuli heilsugæslustöð vera í starfstengslum við sjúkrahús og þá ávallt rekin sem hluti af því komi ákvæði þess efnis að sjúkrahús og heilsugæslustöð skuli ef aðstæður leyfa rekin sem ein stofnun.
    

Um 16. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði 10. mgr. 14. gr. um breytingar á framkvæmd einstakra málsliða 2.–9. mgr. 14. gr. og heimild til að setja reglugerð um heilsugæsluumdæmi og heilsugæslustöðvar við sameiningu sveitarfélaga, falli brott þar sem í tillögum til breytinga á 15. gr. laganna er gert ráð fyrir víðtækari heimild ráðherra til að breyta skiptingu í heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva með reglugerð.
    

Um 17. gr.


    Hér er lagt til að í stað heimildar í 10. mgr. 14. gr. og heimildar í 15. gr. laganna, til að breyta flokkun stöðva skv. 14. gr. með reglugerð, verði ráðherra veitt heimild til að breyta skiptingu í heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra með reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    

Um 18. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að formaður stjórna heilsugæslustöðva verði skipaður af þeim ráðherra sem hann er trúnaðarmaður fyrir og starfstíma hans ljúki þegar embættistíma ráðherra lýkur. Formaður stjórnar er eini fulltrúinn í stjórninni sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar og verður því að telja eðlilegt að hver ráðherra geti sjálfur valið þennan fulltrúa sinn í stjórnina.
    Þá er lagt til að í stað fjögurra stjórna heilsugæsluumdæma í Reykjavík komi ein stjórn. Bent er á að stjórnsýsla heilsugæslustöðvanna í Reykjavík er sameiginleg. Það er því óþarflega flókið og þungt í vöfum að hafa fjórar stjórnir og auk þess hefur það í för með sér óþarfan kostnað.
    Loks er lagt til að niður falli ákvæði þess efnis að formaður læknaráðs á heilsugæslustöð sé jafnframt yfirlæknir stöðvarinnar. Skipuð hefur verið nefnd til endurskoðunar á stöðum yfirlækna og héraðslækna og þykir því óheppilegt að þetta sé bundið í lögum.
    

Um 19. gr.


    Lagt er til að inn í lögin komi ákvæði um að ráðherra geti ákveðið sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu með reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt er kveðið skýrar á um að ráðherra geti með reglugerð ákveðið flokkun, starfssvið og verkaskiptingu sjúkrahúsa.
    

Um 20. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að skipunartíma formanna stjórna sjúkrahúsa ljúki þegar embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá lýkur. Um rökstuðning vísast til athugasemda við a-lið 18. gr. frumvarpsins.
    

Um 21. gr.


    Samkvæmt grein þeirri, sem hér lagt til að brott falli, skulu eftirlaunagreiðslur samkvæmt lögum þessum falla niður eigi síðar en 1. janúar 1997. Breyting sú, sem hér er lögð til, felur því í sér að ákvæði laganna um eftirlaun aldraðra, sem fæddir eru árið 1914 eða fyrr, verða ótímabundin.
    

Um 22. gr.


    Gert er ráð fyrir að af mörkuðum tekjustofnum til vegamála renni 856 m.kr. í ríkissjóð á árinu 1997.
    

Um 23. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, með síðari breytingum, skal tekjum af flugvallargjaldi varið til framkvæmda í flugmálum og rekstrar flugvalla. Hér er lagt til að heimilt verði að verja tekjum af flugvallagjaldi til greiðslu stofnkostnaðar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
    

Um 24. gr.


    Áformað er að efna til orkusparnaðarátaks til að draga úr kostnaði við húshitun í samstarfi við Orkusjóð. Sömuleiðis að gera heildarúttekt á möguleikum til að auka húshitun með jarðvarma á svæðum þar sem hús eru nú hituð upp með rafmagni. Þá er og lagt til að sjóðnum verði heimilt að styrkja fyrirtæki og einstaklinga við þróun og frumsmíði búnaðar sem ætlað er að draga úr óhagkvæmri orkunotkun, einkum olíunotkun, og stuðla þannig að minni losun gróðurhúsalofttegunda. M.a. af þeim sökum er nauðsynlegt að breyta lögum um sjóðinn og útvíkka hlutverk hans. Með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til er auk þess gerð nokkur lagahreinsun þar sem nokkur sértæk ákvæði um hlutverk sjóðsins, sem ekki eiga lengur við, eru felld niður.
    

Um 25. gr.


    Til þess að stuðla að markmiði ríkisstjórnarinnar um sparnað í ríkisrekstri er lagt til í frumvarpi þessu að gerð verði sú breyting á 9. gr. samkeppnislaga að þeir sem skjóta ákvörðunum Samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála greiði kostnað af starfi nefndarinnar. Á árinu 1994 var 13 málum skotið til áfrýjunarnefndarinnar og á árinu 1995 voru þau 25. Reynslan hefur sýnt að kostnaður við rekstur hvers máls fyrir áfrýjunarnefndinni er u.þ.b. 120 þús. kr. og er því áfrýjunargjaldið miðað við þá fjárhæð. Líta verður einnig til þess að upptaka áfrýjunargjalds hefur þann kost að málum verður síður skotið sjálfkrafa til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og þar af leiðandi kemur væntanlega frekar til áfrýjunar í málum þar sem verulegir hagsmunir eru í húfi.
    

Um 26. gr.


    Lagt er til að hætt verði að greiða úr ríkissjóði kostnað vegna refaveiða, en ríkissjóður hefur samkvæmt gildandi lögum greitt allt að helming kostnaðar við veiðarnar eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    

Um 27. gr.


    Ákvæði um gildistöku þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um


ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997.


    Í frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar til að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 nái fram að ganga. Verður fjallað um greinar frumvarpsins og lagt mat á áhrif þeirra á útgjöld ríkissjóðs til lækkunar eða hækkunar.
    1. gr. Um ráðstöfun á sérstökum eignarskatti. Samkvæmt tillögunni renna 150 m.kr. af tekjum af sérstökum eignarskatti í ríkissjóð á árinu 1997 og lækka útgjöld ríkissjóðs samsvarandi. Á árinu 1996 fara 100 m.kr. af tekjunum í ríkissjóð.
    2. gr. Um heimild til að innheimta sérstakt 1.500 kr. gjald vegna endurtekningar á prófáföngum í framhaldsskólum. Áætlað er að tekjur af gjaldinu nemi 32 m.kr. árlega og lækka útgjöld ríkissjóðs um sömu fjárhæð.
    3.–5. gr. Um að framlög ríkissjóðs til greiðslu kostnaðar við rekstur ræktunarstöðva fyrir búfé og kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í launum og ferðakostnaði héraðsráðunauta verði ákveðin í fjárlögum. Núverandi framkvæmd er fest í sessi og hafa ákvæðin því ekki áhrif á útgjöld ríkisins.
    6. og 7. gr. Um að lagt verði á sérstakt matsgjald til að standa undir kostnaði ríkisins af mati á sláturafurðum og gæru- og ullarmati. Núgildandi gjaldtökuheimild er fest í sessi og á ákvæðið ekki að hafa áhrif á tekjur eða útgjöld ríkissjóðs.
    8. gr. Framlengd er heimild Framkvæmdasjóðs fatlaðra til að greiða kostnað vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar og kostnað vegna stjórnarnefnda á árinu 1997. Samtals er þessi kostnaður áætlaður 13 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997.
    9. gr. Um breytingu á lögum um ráðstöfun á erfðafjárskatti til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Samkvæmt ákvæðinu renna tekjur umfram 165 m.kr. í ríkissjóð, eða samtals 255 m.kr., til að fjármagna ýmis rekstrarverkefni vegna fatlaðra. Það er álíka fjárhæð og á árinu 1996.
    10. og 12. gr. Um að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði kostnað af starfsmenntun í atvinnulífinu og til þróunarverkefna til að auka fjölbreytni í störfum kvenna. Samtals er þessi kostnaður sem sjóðurinn greiðir áætlaður 67 m.kr. árið 1997 og lækka útgjöld ríkissjóðs samsvarandi.
    11. gr. Gerð er tillaga um að atvinnuleysisbætur hækki um 2% á næsta ári. Kostnaðarauki Atvinnuleysistryggingasjóðs er tæplega 60 m.kr. miðað við spár um 4% atvinnuleysi. Þar sem útgjöld atvinnuleysistrygginga eru borin af sérstöku gjaldi hefur ákvæðið ekki bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    13. gr. Um að framlengja heimild Atvinnuleysistryggingasjóðs til að styrkja átaksverkefni sveitarfélaga, enda lækki greiddar atvinnuleysisbætur um sömu fjárhæð. Ákvæðið hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    14. gr. Gerð er tillaga um að hækka gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra um 2% og hækka tekjur og útgjöld ríkissjóðs því um 10 m.kr.
    15., 16., 17. og 19. gr. Skv. 15. gr. eru fest í sessi ákvæði um að heilsugæslustöð og sjúkrahús skuli reka sem eina stofnun undir einni stjórn þar sem aðstæður eru fyrir hendi. Í 17. gr. er lagt til að heilbrigðisráðherra fái heimild í reglugerð til að ákveða heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfsvið þeirra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Loks er í 19. gr. lagt til að heilbrigðisráðherra ákveði með reglugerð nánari flokkun, starfssvið og verkaskiptingu sjúkrahúsa, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðgert er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 að lækka útgjöld sjúkrastofnana um 160 m.kr. með því að auka samvinnu þeirra og miða fjárframlög við þá þjónustu sem raunverulega fer fram á stofnununum. Nauðsynlegt er talið að breyta lögum um heilbrigðisþjónustu til að þau áform nái fram að ganga.
    18. og 20. gr. Skipunartími formanna stjórna sjúkrastofnana miðist við embættistíma þess ráðherra sem skipaði í embættið. Stjórn heilsugæslunnar í Reykjavík verði einfölduð og stjórnum fækkað úr fjórum í eina. Ákvæðin hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs árið 1997 en gefa ráðherra kost á að fylgja betur eftir stefnu í heilbrigðismálum og ákvörðunum fjárlaga.
    21. gr. Afnumið er ákvæði laga um að eftirlaun til þeirra sem fæddir eru árið 1914 og fyrr og eiga engan eða lítinn lífeyrisrétt í lífeyrissjóði falli niður 1. janúar 1997. Áætlað er að útgjöld til Eftirlaunasjóðs aldraðra verði 318 m.kr. árið 1997.
    22. gr. Gerð er tillaga um að 856 m.kr. af mörkuðum tekjum til vegagerðar skuli renna í ríkissjóð árið 1997. Á árinu 1996 renna 687 m.kr. í ríkissjóð af sömu tekjustofnum.
    23. gr. Lagt er til að heimilt verði að greiða af flugvallagjaldi framkvæmdakostnað við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Áformað er að fjármagna 60 m.kr. framkvæmdakostnað við flugstöðina með þessum hætti árið 1997.
    24. gr. Lögð er til breyting á hlutverki Orkusjóðs. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 er lagt til að Orkusjóður fái 30 m.kr. framlag úr ríkissjóði og er hluti þess ætlaður til að standa straum af kostnaði við breytingar á hlutverki sjóðsins. Tillagan á ekki að hafa bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    25. gr. Gerð er tillaga um að innheimt verði sérstakt 120 þús. kr. gjald vegna áfrýjunar úrskurða samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Áætlað er að gjaldið skili 2 m.kr. á ári og lækka útgjöld ríkissjóðs um sömu fjárhæð.
    26. gr. Lagt er til að ríkissjóður hætti að greiða hluta af kostnaði við refaveiðar og er áætlaður sparnaður af þeirri aðgerð 19 m.kr. árið 1997.
    Samtals lækka útgjöld ríkissjóðs árið 1997 um 1.614 m.kr. frá því sem þau hefðu orðið að óbreyttum lögum samkvæmt frumvarpinu. Á móti kemur að tekjur og gjöld Framkvæmdasjóðs aldraðra hækka um 10 m.kr. og felld eru á brott ákvæði um að eftirlaun til aldraðra falli niður frá 1. janúar 1997, en áætluð útgjöld til eftirlauna eru 318 m.kr. árið 1997.
    Til frekari glöggvunar eru ákvæði frumvarpsins flokkuð í eftirfarandi töflum:
    
    1.     Ákvæði til skerðingar á lögbundnum framlögum sem gerð eru varanleg samkvæmt frumvarpinu og hve miklu fé lagt er til að varið verði til þeirra í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997:

m.kr.



Búfjárræktarlög, 3. og 4. gr.     
30

Jarðræktarlög, 5. gr.     
23

Mat á búvörum, 6. og 7. gr.     
0

Samtals     
53


    2.     Í eftirfarandi töflu er tekinn saman sá sparnaður í útgjöldum sem áformaður er samkvæmt frumvarpi þessu og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997:

m.kr.



Ráðstöfun á sérstökum eignarskatti, 1. gr.     
150

Lög um framhaldsskóla, 2. gr.     
32

Framkvæmdasjóður fatlaðra, 8. og 9. gr.     
268

Starfsmenntun í atvinnulífinu, atvinnuleysistryggingar, 10. og 12. gr.     
67

Lög um heilbrigðisþjónustu, 15., 16., 17. og 19. gr.     
160

Markaðar tekjur til vegagerðar, 22. gr.     
856

Flugmálaáætlun, flugvallagjald, 23. gr.     
60

Samkeppnislög, gjaldtaka, 25. gr.     
2

Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, 26. gr.     
19

Samtals     
1.614