Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 132 . mál.


143. Tillaga til þingsályktunar



um þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Tómas Ingi Olrich, Pétur H. Blöndal,


Einar Oddur Kristjánsson, Guðjón Guðmundsson, Viktor B. Kjartansson,


Arnbjörg Sveinsdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Árni Johnsen.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er athugi hvernig megi auðvelda þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi með nýrri tækni í fjarskiptamálum og draga jafnframt úr kostnaði samfara slíku starfi.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur alþjóðlegt starf Íslendinga aukist mjög og bendir flest til þess að sú þróun haldi áfram á komandi árum. Aukið samstarf þjóða veldur því að ákvarðanir í einu landi hafa áhrif í öðru. Hindrunum í samskiptum og viðskiptum fækkar og aukast þá tengsl þjóðanna jafnframt því sem hin alþjóðlega verkaskipting eykur verðmætasköpun og bætir lífskjörin. Því er ljóst að auk þess að vera óhjákvæmileg þróun er slíkt samstarf æskilegt.
    Íslendingar þurfa að vera þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Utanríkisviðskipti eru snar þáttur í efnahagsbúskap okkar og við erum háðari þeim en margar aðrar þjóðir. Innlendur markaður er smár og því er okkur lífsnauðsyn að eiga greiða leið með vörur okkar á alþjóðlega markaði. Sú þróun hefur og orðið að íslensk fyrirtæki eru í auknum mæli að hasla sér völl erlendis. Dæmi um slíkt má finna á sviði sjávarútvegs, hugbúnaðargerðar og flugrekstrar. Í þessu starfi felast miklir framtíðarmöguleikar fyrir íslenskt starfsfólk og íslenskar framleiðsluvörur.
    Þó svo að margs konar alþjóðleg samskipti og viðskipti aukist óðum er augljóst að fámennri þjóð er vandi á höndum. Annars vegar blasa við margvísleg not af þessari útrás, en hins vegar er vitað að fámennri þjóð eru reistar skorður við þátttöku í alþjóðlegu samstarfi jafnt á viðskiptasviðinu sem öðrum sviðum. Fámenni hindrar það oft að við getum tekið þátt í alþjóðlegu starfi, sem tvímælalaust yrði okkur þó til hagsbóta.
    Alþjóðlegt samstarf er oft gríðarlega dýrt. Því fylgja einatt kostnaðarsöm ferðalög til útlanda. Slíkar ferðir taka einnig oft langan tíma fyrir okkur Íslendinga sakir fjarlægðar frá öðrum ríkjum. Ekki er óalgengt að Íslendingar sem erindi eiga út fyrir landsteinana á fund þurfi að eyða til þess tveimur til þremur dögum en fulltrúar annarra ríkja geta farið slíkar ferðir á einum degi og kannski tæplega það.
    Þetta veldur því að oft láta Íslendingar hjá líða að senda fulltrúa til slíkra funda sem þó kynnu að vera mikilvægir fyrir viðkomandi stofnun eða fyrirtæki og þá þjóðina í heild. Að minnsta kosti er ljóst að slíkar fundaferðir eru gríðarlega dýrar því að auk hins beina ferðakostnaðar felst auðvitað mikill kostnaður í fjarveru fólks frá daglegum störfum sínum dögum saman vegna eins fundar sem kannski stendur einn eða tvo klukkutíma.
    Nútímafjarskipti bjóða upp á margvíslega möguleika á þessu sviði. Símafundir eru að verða hluti af nútímasamfélagi. Sífellt er verið að þróa og bæta þetta samskiptaform og stórfyrirtæki taka það í notkun í auknum mæli. Sem dæmi má nefna Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem nú starfrækir tvær skrifstofur á landinu, í Reykjavík og á Akureyri. Nauðsynlegt samstarf starfsmanna þessara skrifstofa fer m.a. fram með því að nýta nútímafjarskiptatækni.
    Íslendingar hafa reynst vera allra manna hugkvæmastir og ötulastir við að taka upp nýja tækni til margs konar hluta. Fjarskipti hér á landi eru almennt eins og best þekkist í heiminum. Tölvunotkun og tölvueign er ótrúlega almenn. Þessa stöðu þurfum við að nýta.