Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 38 . mál.


146. Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um skerðingu bóta almannatrygginga.

    Hvernig hefur verið hagað framkvæmd ákvæða reglugerðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins nr. 245/1996 frá 29. apríl sl. um breytingu á reglugerð nr. 59/1996,
         
    
    um heimilisuppbót,
         
    
    um sérstaka heimilisuppbót,
         
    
    um aðrar uppbætur en heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót?

    Rétt er að vísa til meðfylgjandi vinnureglna samþykktra af tryggingaráði 10. maí 1996 og 11. október 1996. Vinnureglur þessar eru byggðar á 3. gr. reglugerðar nr. 59/1996, um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur skv. 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, sem prentuð er sem fylgiskjal ásamt reglugerð nr. 245/1996, um breyting á reglugerð nr. 59/1996.
    Framkvæmdin var þessi:
    Kannaðar voru tekjur og eignir hjá þeim er nutu frekari uppbóta.
    Send voru bréf til þeirra sem átti að fella niður uppbót hjá vegna eigna eða tekna og þeim tilkynnt að greiðslur á frekari uppbót yrðu felldar niður.
    Bréf voru send þeim sem þurfti að endurskoða hjá og óskað eftir nýjum gögnum.
    Lyfjakostnaður metinn á lyfjadeild samkvæmt upplýsingum úr læknisvottorðum eða útprentun á kostnaði frá apótekum.
    Send voru bréf til þeirra sem skilað hafa nýjum gögnum og þeim tilkynnt um afgreiðslu og rétt til greiðslu.

    Hversu margir hafa misst frekari uppbót skv. 1. gr. reglugerðarinnar um tekju- og eignamörk?
    Fjöldi þeirra sem misst hafa frekari uppbót er á bilinu 1.000–1.100.
    Hafa ber í huga að hópur sá sem fengið hefur frekari uppbót um árabil hafði hvorki verið flokkaður né endurskoðaður og var því ekki til á tölvutæku formi hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrr en þessi endurskoðun fór fram. Rúmlega helmingur þeirra sem nú misstu bætur í framhaldi af þessari endurskoðun misstu þær ekki vegna tekna eða eigna heldur vegna þess að efnislegar forsendur voru ekki lengur fyrir hendi. Sérstaklega var þetta áberandi hjá þeim hópi sem fékk lyfjauppbót. Ýmist hafði lyfjagjöf verið hætt eða gripið var til annarra úrræða, t.d. fengu sumir sjúklingar fríkort vegna dýrra lyfja.

    Hver er „sparnaður“ Tryggingastofnunar ríkisins vegna þessara ákvæða reglugerðarinnar?
    Sparnaður í greiðslum á frekari uppbót vegna þessara ákvæða er u.þ.b. 7,5 millj. kr. á mánuði.

    Hversu margir hafa orðið að sæta lækkun uppbótar vegna þeirrar endurskoðunar sem fram fór á frekari uppbót þeirra sem þó halda henni áfram? Hverju nemur „sparnaðurinn“?
    Fjöldi þeirra sem sætt hafa lækkun uppbótar vegna tekna og/eða eigna er á bilinu 900 til 1.000 manns á öllu landinu. Sparnaður af þessu er u.þ.b. 7 millj. kr. á mánuði.

    Hve margir hafa notið hækkunar frekari uppbótar með tilliti til heimildar í 2. gr. sömu reglugerðar?
    U.þ.b. 250 manns hafa notið hækkunar samkvæmt þessari heimild.


Fylgiskjal I.


Vinnureglur vegna frekari uppbóta á lífeyri samkvæmt reglugerð nr. 59/1996


og breytingum á sömu reglugerð nr. 245/1996.



1. Tekjur og eignir.

     Tekjur:
    Einstaklingur: samanlagðar tekjur + bætur TR fari ekki yfir 75.000 kr. á mánuði.
    Hjón/sambúar: samanlagðar tekjur + bætur TR fari ekki yfir 150.000 kr./2 á mánuði.
     Eignir:
    Eignir í peningum og verðbréfum fari ekki yfir 2.500.000 kr. hjá einstaklingum eða hjónum.

2. Lyfja- og sjúkrakostnaður.
    Lyfjakostnaður metinn á lyfjadeild. Greiðsluheimildir: afgreidd prósenta af lífeyri sem næst lyfjakostnaði í hverju tilfelli þó aldrei hærri en hámarksheimild skv. 9. gr. í reglugerð nr. 59/1996.
    Félagslegar aðstæður vegna sjúkdóma metist samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja af samráðsnefnd og sé ákveðin prósenta af lífeyri, sem skráð verði sem slík, til viðbótar við ákvörðun vegna lyfjakostnaðar. Samanlögð prósenta vegna lyfja og félagslegrar aðstoðar verði þó aldrei hærri en hámarksheimild.

3. Uppbót vegna húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta.
    Heimilt er að greiða frekari uppbót vegna húsaleigu samkvæmt eftirfarandi reglu:
    Ef umsækjandi nýtur ekki hámarks í frekari uppbót vegna sjúkrakostnaðar er heimilt að greiða mismun upp að hámarksheimild til viðbótar vegna húsaleigu.
    Ef umsækjandi nýtur ekki fyrir frekari uppbóta skal meta greiðsluheimild samkvæmt neðangreindu:

Leiga á mánuði, kr.

Tekjur, kr.

Greiðsluheimildir


    30.000 eða meira     undir 75.000     allt að hámarki (mism. upp að 75.000 kr.)
    20.000 eða meira     undir 65.000     allt að hámarki
    10.000 eða meira     undir 55.000     allt að hámarki 35% (4.681 kr.)

4. Uppbót vegna umönnunar.
         
    
    Umönnunarþörf allan sólarhringinn: hámark 120%, til viðbótar allt að 20% ef um aukakostnað er að ræða, t.d. vegna lyfjakostnaðar.
         
    
    Aðstoð við daglega umhirðu og tilsjón: hámark 90%.
         
    
    Tilsjón: hámark 50%.

5. Uppbót vegna dvalar á sambýlum eða áfangaheimilum.
    Heimilt er að greiða allt að 80% uppbót (10.698 kr.) til þeirra sem dvelja á sambýlum eða áfangaheimilum. Uppbót lækkar hlutfallslega ef um aðrar tekjur en bætur almannatrygginga er að ræða. Dæmi:
    Aðrar tekjur allt að 20.000 kr. á mánuði — uppbót 60%.
    Aðrar tekjur allt að 30.000 kr. á mánuði — uppbót 40%.
    Aðrar tekjur allt að 40.000 kr. á mánuði — uppbót 20%.
    Aðrar tekjur allt að 50.000 kr. á mánuði — uppbót 0%.

    Reglur þessar gilda frá 1. maí 1996. Fjárhæðir breytist í samræmi við breytingar á reglugerðinni og samkvæmt ákvörðun tryggingaráðs.


Lífeyristryggingadeild,
8. maí 1996:


    Á fundi tryggingaráðs 10. maí 1996 var samþykkt að vinnureglur þessar giltu frá 1. maí til 1. október 1996.
    (Á fundi tryggingaráðs 11. október 1996 var samþykkt að vinnureglur þessar skyldu gilda til 31. desember 1996.)


Fylgiskjal II.


Reglugerð nr. 59/1996, um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót


og frekari uppbætur skv. 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993,


um félagslega aðstoð.



(Repró, 2 bls.)




Reglugerð nr. 245/1996, um breytingu á reglugerð nr. 59/1996,


um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur


skv. 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.



(Repró, 1 bls.)