Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 174 . mál.


191. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.


    Í stað „1. janúar 1997“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. janúar 1999.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með 16. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, var tekið upp það nýmæli að þinglýst eignaskiptayfirlýsing skyldi vera skilyrði fyrir þinglýsingu á eignayfirfærslum í fjöleignarhúsum, enda lægi eigi fyrir þinglýstur fullnægjandi og glöggur skiptasamningur. Lög nr. 26/1994 gengu í gildi 1. janúar 1995. Með ákvæði til bráðabirgða, sbr. 7. gr. laga nr. 136/1995, um breytingu á lögum nr. 26/1994, var gildistöku 16. gr. frestað til 1. janúar 1997. Frestur sá og aðlögunartími sem gefinn var með þessari tilhliðrun var ætlaður eigendum og húsfélögum til undirbúnings og gerðar eignaskiptayfirlýsinga og hlutaðeigandi stjórnvöldum til fræðslu, kynningar og annarra undirbúningsráðstafana.
    Komið hefur í ljós að þörf er á lengri fresti en veittur var með 7. gr. laga nr. 136/1995 til þess að eðlileg aðlögun að fyrirmælum 16. gr. laga um fjöleignarhús megi eiga sér stað. Af þessu tilefni hefur félagsmálaráðherra borist erindi frá Fasteignamati ríkisins, Félagi fasteignasala, byggingarfulltrúanum í Reykjavík og sýslumanninum í Reykjavík, en þessir aðilar koma allir við sögu við framkvæmd eignaskiptayfirlýsinga. Í erindinu er vísað til þess að enn eru nokkrir annmarkar á því að ákvæði 16. gr. megi hnökralaust ganga í gildi. Má þar meðal annars nefna álag á opinbera aðila, fjölda þeirra eignaskiptayfirlýsinga sem gera þarf árlega og að enn eru tiltölulega fáir einstaklingar sem hlotið hafa löggildingu til gerðar eignaskiptayfirlýsinga. Að athugðu máli telur félagsmálaráðherra rétt að leggja til með þessu frumvarpi að fullri gildistöku ákvæðis 16. gr. laga nr. 26/1994 verði frestað fram til 1. janúar 1999, enda verði markvisst unnið að því af hálfu réttra aðila að sú dagsetning gangi eftir.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús,


nr. 26/1994, með síðari breytingum.


    Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt því frestast gildistaka 16. gr. laganna sem fjallar um þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu sem skilyrði fyrir þinglýsingu á eignayfirfærslum í fjöleignarhúsum. Gildistakan frestast um tvö ár, þ.e. frá 1. janúar 1997 til 1. janúar 1999.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi nokkur áhrif á útgjöld ríkissjóðs.