Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 181 . mál.


202. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að taka við þróunarsjóðsgjöldum skv. 4., 5. og 6. gr., fara með og selja eignir og hlutabréf í eigu sjóðsins skv. 11. gr., fara með og selja hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar skv. 12. gr., innheimta skuldabréf í eigu atvinnutryggingadeildar skv. 13. gr. og greiða skuldbindingar sjóðsins. Þá skal Þróunarsjóður sjávarútvegsins taka lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.
    

2. gr.

    2. málsl. 2. gr. laganna fellur brott.
    

3. gr.

    7. gr., 8. gr., 9. gr., 10. gr. og 11. gr. laganna falla brott.
    

4. gr.

    2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir 1. september ár hvert skal stjórn sjóðsins leggja fyrir sjávarútvegsráðherra til staðfestingar sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár.

5. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán, þó ekki með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, í því skyni að jafna misræmi milli tekna af þróunarsjóðsgjöldum skv. 4., 5. og 6. gr. sem og innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.

6. gr.

    17. gr. laganna fellur brott.
    

7. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. 4. gr. laga nr. 92/1994, með síðari breytingum, fellur úr gildi 31. desember 2005, 5. gr. laga nr. 92/1994, með síðari breytingum, fellur úr gildi frá og með gjaldárinu 2006 og 6. gr. laga nr. 92/1994, með síðari breytingum, frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 2005. Að öðru leyti gilda lögin til 31. desember 2009. Skulu eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laga þessara renna til Hafrannsóknastofnunarinnar og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Kemur 2. gr. til framkvæmda þegar umboði núverandi stjórnar lýkur. Kemur 6. gr. til framkvæmda við gerð efnahags- og rekstrarreiknings ársins 1998.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við lögin bætist ný málsgrein við ákvæði til bráðabirgða I er orðast svo:
    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1997 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 1.000 m.kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna. Skal láninu varið til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.
    
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða IV er orðast svo:
    Umsóknir um styrki vegna úreldingar fiskiskipa sem borist hafa Þróunarsjóði sjávarútvegsins fyrir gildistöku laga þessara skulu afgreiddar í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum. Til að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis er stjórn sjóðsins heimilt, þrátt fyrir ákvæði 3. gr., að leggja fram framleiðslutæki, þ.m.t. skip sem keypt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, sem hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjum utan Íslands eða hlutafélögum sem stofnuð eru hér á landi til að taka þátt í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Um innheimtu ógoldinna Þróunarsjóðsgjalda sem á hafa verið lögð fyrir gildistöku laga þessara skulu gilda ákvæði laga nr. 92/1994 með síðari breytingum eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Of mikil afkastageta miðað við afrakstursgetu fiskistofna, bæði í veiðum og vinnslu, hafa um langan tíma verið eitt af meginvandamálum sjávarútvegsins. Það vandamál er alþjóðlegt og hafa ríkisstjórnir fjölmargra ríkja reynt að bregðast við því á margvíslegan hátt. Þróunarsjóður sjávarútvegsins var stofnaður á árinu 1994. Sjóðurinn fékk það hlutverk að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegsfyrirtækjum með því að auðvelda þeim að losna við umframafkastagetu í veiðum jafnt sem vinnslu. Í því skyni veitir sjóðurinn styrki til úreldingar fiskiskipa, kaupir fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki. Ennfremur veitir sjóðurinn lán og ábyrgðir til nýsköpunar í sjávarútvegi og til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis.
    Mikil eftirspurn hefur verið eftir styrkjum til að úrelda fiskiskip. Í byrjun október á þessu ári hafði stjórn sjóðsins veitt loforð um 462 styrki að fjárhæð um 2.856 m.kr. Þar af eru 267 styrkir til aflamarksskipa að fjárhæð um 2.263 m.kr. og 195 styrkloforð til krókabáta að fjárhæð um 593 m.kr. Auk þess eru um 90 umsóknir um úreldingarstyrk vegna krókabáta í vinnslu hjá sjóðnum. Annað meginhlutverk sjóðsins er að kaupa upp fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki þeirra. Frá upphafi hefur sjóðurinn keypt sjö fiskverkunarhús fyrir um 75 m.kr. og selt aftur til annarrar starfsemi fyrir um 56 m.kr. Þá hefur sjóðurinn veitt lán og ábyrgðir vegna fjögurra þróunarverkefna. Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefur selt hlutafé sitt í níu af þeim tíu hlutafélögum sem sjóðurinn átti hlutfé í og nemur söluverð um 529 m.kr.
    Eins og framangreindar upplýsingar bera með sér hefur Þróunarsjóði sjávarútvegsins tekist vel að uppfylla þær væntingar sem gerðar voru til hans varðandi fækkun fiskiskipa og þar með minnkun fiskiskipaflotans. Það má sjá á eftirfarandi töflu er sýnir að útgefnum leyfum til veiða í atvinnuskyni hefur fækkað verulega frá fiskveiðiárinu 1994/1995 til 1996/1997:
    

1994/1995

1995/1996

1996/1997


    Aflamarksleyfi
1.310
1.078 1.011
    Krókaleyfi
1.117
1.082 1.009

     Samtals:
2.427
2.160 2.020
    
    Þessu til viðbótar má búast við að leyfum muni enn fækka vegna yfirstandandi átaks við að úrelda krókabáta.
    Þróunarsjóðurinn yfirtók við stofnun eignir og skuldbindingar Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, hlutafjárdeildar Byggðastofnunar og atvinnutryggingadeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja að frádregnum 950 m.kr. endurlánum ríkissjóðs til atvinnutryggingadeildar sem ríkissjóður yfirtók. Stofnefnahagsreikningur Þróunarsjóðs sjávarútvegsins dags. 1. júní 1994 var með neikvætt eigið fé upp á tæpar 789 m.kr., sem greindist þannig:
    
    Yfirtekið frá Hagræðingarsjóði     
564 m.kr.

    Yfirtekið frá atvinnutryggingadeild Byggðastofnunar
< 783 m.kr.>

    Yfirtekið frá hlutafjárdeild Byggðastofnunar
< 570 m.kr.>

          Samtals:
< 789 m.kr.>

    
    Framangreindar skuldbindingar sem Þróunarsjóðurinn yfirtók vegna atvinnutryggingadeildar og hlutafjárdeildar samtals að fjárhæð um 1.353 m.kr. voru með ábyrgð ríkissjóðs og hefðu ella fallið á ríkissjóð. Samkvæmt rekstrar- og efnahagsreikningi sjóðsins 31. desember 1995 var eigið fé neikvætt um tæpar 2.855 m.kr. en það skýrist af hinni miklu eftirspurn eftir styrkjum til viðbótar yfirteknum lánum ríkissjóðs.
    Þróunarsjóður sjávarútvegsins er fjármagnaður með gjöldum sem lögð eru á fyrirtæki er starfa í sjávarútvegi. Tekjur sjóðsins samanstanda af sérstöku gjaldi er eigendur fiskiskipa annars vegar og fasteigna sem notaðar eru til fiskvinnslu hins vegar, greiða. Er áætlað að þau nemi um 160 m.kr. á ári. Hinn 1. september s.l. kom í fyrsta skipti til innheimtu gjald til sjóðsins er útgerðir skipa greiða af úthlutuðu aflamarki og er áætlað að innheimtan nemi um 520 m.kr. á yfirstandandi fiskveiðiári.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að hlutverki Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verði breytt og það miðað við að greiða skuldbindingar sjóðsins auk þess að kosta nýsmíði eða kaup á skipi til rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar á hafinu og lífríki þess. Skip Hafrannsóknastofnunarinnar eru orðin gömul og löngu tímabært að huga að endurnýjun skipastólsins. Meðfylgjandi eru greinargerð Hafrannsóknastofnunarinnar og tillaga stjórnarinnar um endurnýjun skipastólsins, sbr. fylgiskjal I. Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunarinnar eru þrjú; r/s Dröfn, r/s Árni Friðriksson og r/s Bjarni Sæmundsson. Árni var smíðaður á árinu 1967 og verður því 30 ára á næsta ári og Bjarni var smíðaður á árinu 1970. Aðalvélar skipanna eru enn þær sömu og í upphafi og því vaxandi hætta á meiriháttar bilun. Þá eru skipin hvorki nægjanlega stór né öflug til að sinna nauðsynlegum rannsóknum sem Hafrannsóknastofnunin þarfnast til að geta gegnt meginhlutverki sínu varðandi skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda. Það er því mikil þörf á að endurnýja þau enda þótt skipin hafi reynst mjög vel hvort á sinn hátt. Það er hins vegar ljóst að hvorugt þeirra hefur nægilegan togkraft til að stunda rannsóknir á djúpmiðum. Þetta hefur verið einkar bagalegt nokkur undanfarin ár, sérstaklega með tilliti til þeirrar miklu nauðsynjar að kanna grálúðu- og karfamið. Þá hafa þessi skip ekki nýjasta búnað til að stunda bergmálsmælingar við erfið veðurskilyrði að vetrarlagi og hamlar það og seinkar leiðöngrum oft verulega. Hafrannsóknastofnunin fól tæknideild Fiskifélags Íslands að gera úttekt á skipum stofnunarinnar og tillögur um endurnýjun skipastólsins. Í tillögum Fiskifélagsins er lagt til að smíðað verði nýtt 65 m rannsóknaskip og gert ráð fyrir að kostnaðarverð nýsmíði verði 1.130 m.kr. Hafrannsóknastofnunin hefur talið vænlegt að kaupa tiltölulega nýtt skip af svipaðri stærð ef það fengist fyrir hagstætt verð og breyta því eftir því sem nauðsynlegt er fyrir hafrannsóknaskip. Því hefur á undanförnum 12 mánuðum farið fram ítarleg könnun á alþjóðlegum markaði þar sem slík skip gætu hugsanlega verið í boði. Ekki hefur fundist neitt slíkt skip sem kemur til greina að kaupa í þessu skyni.
    Árið 1990 fékk norska Hafrannsóknastofnunin afhent rannsóknaskipið Johan Hjort sem smíðað var í Flekkefjord í Noregi. Það er sameiginlegt álit þeirra sem til þekkja að Johan Hjort hafi reynst afburða sjóskip og þykir mjög vandað og gott rannsóknaskip. Hafrannsóknastofnunin hafði því samband við hönnuði Johan Hjort og bað um að áætlað yrði hvað myndi kosta að smíða nýtt skip af svipaðri stærð og þetta norska rannsóknaskip. Niðurstaða þeirra var að líklegt væri að slíkt nýtt skip myndi kosta um 1300 m.kr. að meðtöldum öllum tækjabúnaði.
    Með tilliti til þess að ítarleg könnun á sölumarkaði notaðra skipa marga undanfarna mánuði hefur ekki borið árangur samþykkti stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar eftirfarandi tillögur á fundi sínum 28. október 1996, sbr. fylgiskjal I:
    Smíðað verði nýtt 65 metra rannsóknaskip. Áætlaður kostnaður á bilinu 1.100 m.kr til 1.300 m.kr.
    R/s Árna Friðrikssyni eða r/s Bjarna Sæmundssyni verði lagt. Jafnframt verði ráðist í að gera nauðsynlegar endurbætur á því skipi sem ákveðið verður að nota áfram. Áætla má að endurbætur kosti á bilinu 50 til 100 m.kr.
    R/s Dröfn verði seld og er söluverð hennar áætlað á bilinu 40–60 m.kr.
    Verði frumvarp þetta að lögum er miðað við að farið verði að framangreindum tillögum. Áætlað er að heildarkostnaður vegna kaupa á nýju skipi ásamt breytingum á því gamla að frádregnu söluvirði r/s Drafnar geti verið á bilinu 1.110 m.kr til 1.360 m.kr. Er gert ráð fyrir að Byggingasjóður hafrannsóknaskipa verji eignum sínum, um 265 m.kr., til verkefnisins og Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki lán hjá endurlánum ríkisins að fjárhæð allt að 1.000 m.kr. til að fjármagna það sem á vantar. Er við það miðað að lánið verði að fullu endurgreitt í árslok ársins 2008. Á árinu 2009 er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi að fullu lokið við að greiða skuldbindingar sínar og hafi þar með lokið hlutverki sínu. Er því í frumvarpi þessu við það miðað að lögin falli úr gildi í árslok 2009. Fylgiskjal II sýnir áætlaðan rekstrar- og efnahagsreikning ásamt greiðslustreymi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til ársloka 2009, sundurliðað eftir deildum sjóðsins miðað við framangreindar forsendur. Þar má einnig sjá áætlaðan efnahagsreikning allra deilda sjóðsins. Af honum sést að hrein eign Þróunarsjóðs er áætluð um 570 m.kr. í árslok 2009. Samkvæmt greiðsluáætluninni verða þróunarsjóðsgjöld síðast innheimt á árinu 2005. Er það í samræmi við þá fjárþörf sjóðsins. Þar af leiðandi eru 4., 5. og 6. gr. laga nr. 92/1994 felldar niður miðað við þær tímasetningar.
    Hafrannsóknastofnunin hefur áætlað að rekstur nýja skipsins og annað hvort r/s Árna eða r/s Bjarna í 280 til 300 sjódaga á ári muni kosta á bilinu 230 til 240 m.kr. Í fjárlögum ársins 1996 eru 210 m.kr. ætlaðar til skipareksturs stofnunarinnar. Stofnunin telur að ekki þurfi að auka framlög til hennar vegna þessa mismunar þar sem nýja rannsóknaskipið nýtist við stofnmælingu botnfiska og þannig megi því fækka leiguskipum við það verkefni úr þremur í tvö. Einnig má gera ráð fyrir að kostnaður vegna kaupa á nýjum tækjum og búnaði verði lægri þegar rekin eru tvö skip í stað þriggja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um hið nýja hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins sem verður fyrst og fremst að taka við innheimtum tekjum sjóðsins af Þróunarsjóðsgjöldum, eignaumsýsla vegna eigna sjóðsins og greiðsla á skuldum hans. Er við það miðað að sjóðsstjórn leitist við að lágmarka gengisáhættu og vaxtaáhættu skuldbindinga sjóðsins með því að tryggja að gengisþróun sjóðsins umfram eignir í erlendri mynt endurspegli gengisþróun opinberrar myntkörfu Seðlabanka Íslands eins og hún er á hverjum tíma. Sjá einnig almennar athugasemdir.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. laga um Þróunarsjóð er gert ráð fyrir að í þriggja manna stjórn sjóðsins sitji maður tilnefndur af Samtökum atvinnurekenda í sjávarútvegi. Þar sem samtökin hafa verið lögð niður og hlutverki sjóðsins breytt með frumvarpi þessu þykir rétt að sjávarútvegsráðherra skipi alla stjórnarmenn án tilnefningar þegar umboði núverandi stjórnarmanna lýkur.
    

Um 3. gr.


    Greinin kveður á um að niður falli 7. gr., 8. gr., 9. gr., 10 gr. og 11 gr. laga um Þróunarsjóð. Í þessum greinum er kveðið á um heimildir sjóðsins til að veita styrki til að úrelda fiskiskip, kaupa fiskvinnslustöðvar ásamt framleiðslutækjum og til að veita lán og ábyrgðir til nýsköpunar í sjávarútvegsfyrirtækjum eða til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis. Þar sem hlutverki sjóðsins er breytt með frumvarpi þessu þannig að það nær ekki lengur til framangreindra verkefna eru greinarnar felldar niður.

Um 4. gr.


    Í 2. mgr. 14. gr. gildandi laga er ákvæði sem segir að stjórn sjóðsins skuli leggja fyrir ráðherra fyrir upphaf hvers starfsárs sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun sjóðsins. Með frumvarpi þessu er skilatíma greiðsluáætlunar vegna næsta starfsárs flýtt til 1. september. Er þetta gert til að auðvelda vinnu við gerð frumvarps til lánsfjárlaga komandi árs.

Um 5. gr.


    Í 15. gr. gildandi laga er ekki kveðið skýrt á um að tekið skuli tillit til tekna Þróunarsjóðs þegar lántökuheimild sjóðsins er ákvörðuð. Er því lagt til að úr því verði bætt.
    

Um 6 gr.


    Verði frumvarp þetta að lögum þannig að hlutverki sjóðsins verði breytt falla niður þau verkefni sem 17. gr. kveður á um að veittar séu sérstakar upplýsingar um í ársreikningi sjóðsins. Að loknum frágangi á núverandi verkefnum sjóðsins á greinin því ekki við. Er því í gildistökuákvæði gert ráð fyrir að breytingin komi fyrst til framkvæmda við gerð efnahags- og rekstrarreiknings ársins 1998.
    

Um 7. gr.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1997. Er gert ráð fyrir að þróunarsjóðsgjald sem greitt er skv. 4. gr. laga nr. 92/1994 verði lagt í síðasta skipti á vegna gjaldársins 2005 og greinin falli úr gildi í árslok 2005, að þróunarsjóðsgjald skv. 5. gr. laga nr. 92/1994 verði síðast lagt á vegna gjaldársins 2005 miðað við eignir í árslok 2004 og að greinin falli úr gildi frá og með gjaldárinu 2006. Þá er gert ráð fyrir að þróunarsjóðsgjald vegna 6. gr. laga nr. 92/1994 verði síðast lagt á aflaheimildir skipa á því fiskveiðiári er hefst 1. september 2004 og lýkur 31. ágúst 2005. Sjá einnig almennar athugasemdir og athugasemdir við ákvæði til bráðabirgða. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að lögin gildi til 31. desember 2009. Er þá miðað við að á þeim tíma hafi sjóðurinn greitt allar skuldbindingar sínar og lokauppgjör farið fram. Er gert ráð fyrir að hrein eign sjóðsins í árslok 2009, ef einhver verður, renni til að kosta hafrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Varðandi gildistöku 2. gr. og 6. gr. vísast til athugasemda um þær greinar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Með greininni er fjármálaráðherra veitt heimild til að taka að láni allt að 1.000 m.kr. og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins til kaupa á hafrannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina. Að öðru leyti vísast um efni þessa ákvæðis til almennra athugasemda.
    Í síðari hluta ákvæða til bráðabirgða er kveðið á um að allar umsóknir um styrki vegna úreldingar fiskiskipa sem borist hafa Þróunarsjóði sjávarútvegsins fyrir gildistöku laga þessara skuli hljóta afgreiðslu í samræmi við ákvæði þágildandi laga. Eitt af hlutverkum Þróunarsjóðsins hefur verið að taka þátt í þróunarverkefnum. Í því skyni hefur sjóðurinn það sem af er ársins 1996 keypt um 25 krókabáta sem hafa verið úreltir. Sjóðurinn fyrirhugar að kaupa ámóta fjölda krókabáta til ársloka þessa árs, en heimild þar að lútandi kom inn í lögin á síðasta þingi er Alþingi ákvað að sérstakt tímabundið átak yrði gert til að úrelda krókabáta. Þróunarsjóður hefur hafið samstarf við félög sem hyggjast hasla sér völl erlendis og munu bátar þessir nýtast til þeirra verkefna. Er því lagt til með frumvarpi þessu, að þótt ákvæði 11. gr. laga nr. 92/1994 falli brott sbr. 3. gr., geti stjórn sjóðsins haldið áfram því starfi sem þegar er hafið og hafi heimild til að leggja fram sem hlutafé í umræddum fyrirtækjum þau framleiðslutæki, þ.m.t. skip, sem sjóðurinn hefur eignast fyrir gildistöku laga þessara. Skal að því stefnt að selja hlutbréfin strax og aðstæður leyfa og hagkvæmt þykir. Reynist markaður fyrir krókabátana í erlendum verkefnum ónægur skal stjórn Þróunarsjóðsins selja þá báta sem umfram eru úr landi. Að lokum er ákvæði er tryggir að ákvæði laga nr. 92/1994 með síðari breytingum gildi um innheimtu ógoldinna þróunarsjóðsgjalda þegar álagningu þeirra verður hætt sbr. 7. gr.



Fylgiskjal I.


Tæknideild Fiskifélags Íslands og
Fiskveiðasjóðs Íslands:


Úttekt á skipastól Hafrannsóknastofnunarinnar.


Yfirlit úttekta á einstökum skipum, samanburður, tillögur um


samsetningu flota, valkostir í breytingum, kaupum eða nýsmíði.


Hluti í heildarúttekt á skipastólnum, skýrsla IV, lokaskýrsla.


(Apríl 1996.)





(25 síður myndaðar.)






Fylgiskjal II.


Þróunarsjóður sjávarútvegsins,
aðaldeild:



Áætlun 1996–2000


(27. október 1996.)





(8 síður myndaðar.)









Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994,


um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að hlutverki Þróunarsjóðs verði breytt þannig að hann hætti að veita styrki til úreldingar fiskiskipa og kosti í stað þess smíði nýs hafrannsóknaskips og endurbætur á eldri skipum. Eins og fram kemur í greinargerð er talið að kostnaður við þessa nýsmíði og endurnýjun nemi 1.090–1.360 m.kr. og þar af er áætlað að smíði nýs hafrannsóknaskips geti kostað 1.130 m.kr. Af því verði 265 m.kr. fjármagnaðar með eign Byggingarsjóðs hafrannsóknaskipa og 1.000 m.kr. með láni frá ríkissjóði. Skylt mun verða samkvæmt kvöðum EES-samningsins að bjóða slíkt skip út á alþjóðlegum grundvelli. Rekstrar- og efnahagsáætlun sú, sem fylgir frumvarpi þessu sem fylgiskjal, sýnir að gert er ráð fyrir að hrein eign Þróunarsjóðsins í heild nemi 571 m.kr. í lok ársins 2009. Er þá reiknað með að innheimtu gjalda af fiskiskipum, fiskvinnslustöðvum og aflamarki ljúki árið 2005 og eftir það verði eingöngu um vaxtatekjur að ræða. Greiðslustreymisáætlunin byggir á þeirri forsendu að lántaka sjóðsins verði á 6,5% vöxtum og verði lánið verðtryggt.
    Með vísan til þessara útreikninga verður að telja það nokkuð tryggt að Þróunarsjóður geti staðið við skuldbindingar sínar og endurgreitt það 1.000 m.kr. lán sem áformað er að taka hjá ríkissjóði, þannig að kostnaður ríkissjóðs af þessari lagabreytingu verði enginn.