Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 122 . mál.


316. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um skatttekjur af viðskiptum með aflaheimildir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjar voru skatttekjur ríkissjóðs af viðskiptum með aflaheimildir á árunum 1994–95, sundurliðaðar eftir skattumdæmum?
    Er það mat ráðherra að skattskil vegna þessara viðskipta séu eðlileg og fullnægjandi? Ef svo er ekki, hvað er til ráða?


    Tekjur sem stafa af sölu aflaheimilda eru ekki sérgreindar í ársreikningum fyrirtækja og koma ekki fram sem sérstakur skattstofn í framtali við álagningu gjalda. Af þessum ástæðum er ekki unnt að vinna úr upplýsingakerfum skattkerfisins upplýsingar um skattstofn vegna sölu á aflaheimildum eða hverjar skatttekjur ríkissjóðs voru á tilgreindum árum af viðskiptum með aflaheimildir eins og spurt er um í fyrri lið fyrirspurnarinnar.
    Þá skal tekið fram að sala á aflaheimildum leiðir ekki í öllum tilvikum til skattlagningar vegna taprekstrar eða nýtingar á yfirfæranlegu tapi frá fyrri árum. Yfirfæranlegt uppsafnað skattalegt tap lögaðila í sjávarútvegi í árslok 1995 var um 20,1 milljarður kr. Þar af voru 8 milljarðar kr. hjá fiskveiðifyrirtækjum, sem eru tæp 11% af heildarfjárhæð yfirfæranlegra tapa, en 12,1 milljarður kr. hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Skatttekjur ríkissjóðs af tekjuskatti fiskveiðifyrirtækja við álagningu árið 1996 voru 202 millj. kr., sem eru um 4% af þeim tekjuskatti sem lagður var á lögaðila.
    Til glöggvunar á umfangi viðskipta með aflaheimildir má benda á svar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Guðjóns Guðmundssonar um færslu aflaheimilda á þskj. 123 (53. mál).
    Hvað varðar síðari lið fyrirspurnarinnar verður að skilja hann á þann veg að spurt sé hvort sala aflaheimilda á milli aðila sé bókuð og tekjufærð hjá seljanda og talin til tekna við framtal. Sé það ekki gert er um að ræða skattsvik. Ráðuneytið getur ekki svarað þessari spurningu með afdráttarlausum hætti. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um vanhöld í skattskilum fyrirtækja að þessu leyti, en þessi þáttur skattskila er nú í skoðun sem liður í eftirlitsáætlun ríkisskattstjóra og skattstjóra á yfirstandandi ári.