Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 145 . mál.


333. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur haft stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um tryggingagjald til umfjöllunar og fékk umsagnir frá fjölmörgum aðilum en þeirra er getið í áliti meiri hluta nefndarinnar.
    Frumvarpið fjallar um að samræma tryggingagjald milli atvinnuvega hérlendis þannig að greiðslur þeirra sem hafa verið í lægri gjaldflokki munu hækka en greiðslur þeirra sem hafa verið í hærri gjaldflokki munu lækka.
    Tryggingagjald er launaskattur, þ.e. álagning á greidd laun fyrirtækja. 1. minni hluti telur að noti ríkisvaldið slíkan gjaldstofn sé eðlilegt að atvinnugreinum sé ekki mismunað nema menn kjósi að veita tilteknum atvinnugreinum sérstakar ívilnanir umfram aðrar hvað varðar launakostnað.
    Á síðari árum hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að mismunun í atvinnulífinu sé ekki af hinu góða og atvinnuvegir verði að keppa á jafnréttisgrundvelli um framleiðsluþætti, þar á meðal um vinnuafl.
    Sérstök ívilnun fyrir sjávarútveg, landbúnað og iðnað á kostnað annarra atvinnugreina er arfur frá þeim tíma þegar efnahagskerfið byggðist í miklum mæli á ríkisafskiptum og ýmiss konar millifærslum. Sá tími er liðinn og benda má á að erlendis er lögð rík áhersla á að samræma skattlagningu af hálfu ríkisins. Þótt ekki beri nauðsyn til þess vegna EES-samningsins að samræma tryggingagjaldið er þessi lagabreyting í samræmi við þróun löggjafar erlendis.
    Fyrsti minni hluti styður samræmingu tryggingagjalds og að henni sé dreift á fjögur ár. Það auðveldar einstökum atvinnugreinum aðlögun að þessari breytingu. Breytingartillaga meiri hlutans um að miða við heildarlaun, þ.e. með lífeyrissjóðsiðgjaldi, er til bóta og styður 1. minni hluti þá tillögu.
    Fyrsti minni hluti er hins vegar alfarið andvígur þeim markaða tekjustofni til Staðlaráðs og Icepro sem er ákveðinn í 2. lið breytingartillagna meiri hlutans en þeir aðilar sjá um útgáfur staðla hérlendis og eru stofnanir með opinberri þátttöku. Það er mun eðlilegra að framlög til þessa þáttar væru á fjárlögum hverju sinni frekar en að marka tekjustofn með þeim hætti sem meiri hlutinn leggur til.
    Með þessu er tilteknum stofnunum og fyrirtækjum veittur forgangur fram yfir önnur sem síðar kynnu að vilja hasla sér völl á þessu sviði. Þetta er dæmi um vond vinnubrögð og slæma stefnu, enda eru markaðir tekjustofnar almennt á undanhaldi í umræðu um skatta- og efnahagsmál. Þannig tókst meiri hlutanum að gera tiltölulega gott mál um ákveðið grundvallaratriði verra með breytingartillögum sínum.

Alþingi, 12. des. 1996.Ágúst Einarsson,

Ásta B. Þorsteinsdóttir.


frsm.