Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 135 . mál.


335. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um listamannalaun, nr. 35/1991.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein frá menntamálaráðuneytinu, Baldvin Tryggvason og Hjálmar H. Ragnarsson frá Bandalagi íslenskra listamanna, Ingibjörgu Haraldsdóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Pétur Einarsson frá Félagi íslenskra leikstjóra, Theodór Júlíusson frá Félagi íslenskra leikara, Gísla Sigurðsson og Hörð Bergmann frá Hagþenki, Ingu Rós Ingólfsdóttur og Gunnar Kvaran frá Félagi íslenskra tónlistarmanna, Hrafn Gunnlaugsson og Friðrik Þór Friðriksson frá Samtökum kvikmyndaleikstjóra og Knút Bruun og Bryndísi Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Hagþenki, Félagi íslenskra tónlistarmanna, Félagi íslenskra listdansara, Félagi tónskálda og textahöfunda, Bandalagi íslenskra leikfélaga, Tónlistarráði Íslands, Samtökum kvikmyndaleikstjóra, Félagi íslenskra leikara, Félagi íslenskra hljómlistarmanna og Bandalagi íslenskra listamanna.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um listamannalaun sem felast helst í því að gera lögin skýrari en nú. Þannig er í frumvarpinu kveðið skýrar á um tilgang með listamannalaunum og heimild sjóðstjórnar til að fella niður starfslaun komi í ljós að viðkomandi listamaður sinnir ekki list sinni. Enn fremur felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar á 9. gr. laganna er fjallar um Listasjóð. Þær miða að því að þrengja ákvæði laganna þess efnis að helmingur úthlutunarfjár sé bundinn við einn hóp án tillits til þess hversu margir sækja um. Þannig er lagt til að leiklistarráð fjalli um veitingu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna vegna þátttöku í uppfærslum leiksýninga á vegum leikhópa og að allt að þriðjungi fjárveitingar Listasjóðs verði varið til þeirra.
    Nefndin leggur til þá breytingu við 9. gr. frumvarpsins að við úthlutun úr Listasjóði hafi stjórn listamannalauna heimild til að fela framkvæmdastjórn leiklistarráðs að fjalla um veitingu starfslauna til leikhúslistamanna vegna þátttöku þeirra í uppfærslum leikhópa. Þykir eðlilegt að leiklistarráð, sem kveðið er á um í leiklistarlögum, komi að úthlutun á þessum hluta starfslaunanna. Er breytingartillaga þessi gerð til að taka af öll tvímæli um framkvæmd úthlutunarinnar.
    Þá vill nefndin benda á að huga þarf sérstaklega að stöðu höfunda fræðirita þegar úthlutað er úr Launasjóði rithöfunda.
    Menntamálanefnd mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við 1. efnismgr. 9. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórn listamannalauna getur falið framkvæmdastjórn leiklistarráðs að fjalla um veitingu þessara starfslauna.

Alþingi, 12. des. 1996.Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Tómas Ingi Olrich.


form., frsm.Svanfríður Jónasdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Sigríður Jóhannesdóttir.Ólafur Örn Haraldsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Árni Johnsen.