Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 264 . mál.


516. Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um þróun og umfang fátæktar á Íslandi.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Ágústi Einarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni,


Lúðvík Bergvinssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Sighvati Björgvinssyni,


Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um fátækt á Íslandi. Í skýrslunni verði lagt mat á umfang, orsakir og afleiðingar fátæktar og hvernig hún hefur þróast sl. tíu ár.
    Í skýrslunni verði leitast við að svara eftirfarandi spurningum:
    Hver má ætla mánaðarleg útgjöld til brýnustu nauðþurfta hjá fjölskyldugerðum sem miðað er við í neyslukönnun Hagstofunnar? Með nauðþurftum er átt við fæði, klæði, húsnæði, barnagæslu, skólagöngu barna, heilsuvernd og lágmarksferðakostnað.
    Hve stór hluti þjóðarinnar, skipt eftir þjóðfélagshópum og fjölskyldugerðum, hefur tekjur undir nauðþurftarmörkum, sbr. 1. tölul., annars vegar miðað við atvinnutekjur og hins vegar miðað við ráðstöfunartekjur?
    Hvernig hefur hlutfall annarra tekna en atvinnutekna, svo sem framfærsluaðstoðar og bótagreiðslna frá hinu opinbera, þróast árlega á þessu tímabili hjá þeim sem skilgreindir eru undir fátæktarmörkum? Miðað verði annars vegar við skilgreind fátæktarmörk, þ.e. tekjur undir helmingi af meðaltekjum, og hins vegar við nauðþurftir skv. 1. tölul.
    Hver hefur verið árleg þróun skattgreiðslna, þjónustugjalda, eigna- og skuldastöðu hjá þessum hópi sl. tíu ár?
    Hver hefur almenn þróun tekju- og eignaskiptingar verið sl. tíu ár, sem og þróun tekjumunar milli þjóðfélagshópa?
    Hvert er hlutfall eftirtalinna þátta í afkomu heimilanna:
         
    
    atvinnutekna,
         
    
    bótagreiðslna og framfærsluaðstoðar,
         
    
    fjármagnstekna?
    Hverjar eru helstu orsakir og afleiðingar fátæktar á Íslandi, félagslegar og fjárhagslegar?
    Hafa stjórnvöld uppi áform um að bæta stöðu fátækra og jafna tekjuskiptinguna?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi fljótlega eftir að henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Um langt skeið og ekki síst á umliðnum vikum hefur því verið haldið fram að fátækt og misskipting tekna hafi farið vaxandi á Íslandi. Skiptar skoðanir eru um hvað sé fátækt, hvernig eigi að skilgreina hana og hvort hún hafi farið vaxandi. Einnig eru deildar meiningar um hvaða leiðir eigi að fara til að bæta stöðu þeirra tekjulægstu og jafna tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.
    Þótt ýmislegt liggi fyrir um fátækt á Íslandi og hvernig tekjuskiptingin hefur þróast vantar alla heildaryfirsýn yfir stöðuna og hvernig þróunin hefur orðið á umliðnum árum. Skýrsla um umfang, þróun, orsakir og afleiðingar fátæktar á Íslandi ætti að veita nauðsynlega yfirsýn í þessu máli og auðvelda aðgerðir og úrlausnir sem hægt væri að ná sátt um til að sporna við fátækt, draga úr misskiptingu tekna og bæta stöðu tekjulægstu hópanna.