Ferill 288. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 288 . mál.


543. Skýrsla



Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins fyrir árið 1996.

1.    Inngangur.
    Á árinu 1996 var öflug starfsemi innan Norður-Atlantshafsþingsins og tekið var á ýmsum erfiðum málum er snerta framtíð NATO og skipan evrópskra öryggismála. Stækkun bandalagsins til austurs, hlutverk þess í Bosníu-Hersegóvínu og aukið sjálfstæði Vestur-Evrópuríkja í varnarmálum voru meðal helstu málefna á dagskrá þingsins á árinu.
    Atlantshafsbandalagið hefur á undanförnum árum lagað sig að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Það býr yfir mætti sem aðrar alþjóðastofnanir í Evrópu skortir og hefur því mjög mikilvægu hlutverki að gegna í öryggismálum álfunnar. Búast má við að Atlantshafsbandalagið taki enn frekar þátt í aðgerðum til að koma á friði eða hindra útbreiðslu ófriðar í löndum utan bandalagsins, sbr. hlutverk þess í Bosníu-Hersegóvínu.
    Atlantshafsbandalagið hefur brugðist við áskorunum sem það hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum af framsýni. Hefði NATO verið lagt niður við endalok kalda stríðsins hefði skapast tómarúm í öryggismálum í Evrópu sem leitt hefði til frekari óstöðugleika í álfunni. Evrópa þarf jafnmikið á samvinnu við Bandaríkin á sviði varnar- og öryggismála að halda nú og við stofnun NATO fyrir 48 árum.
    Vissulega er stefna bandalagsins gagnvart nýjum aðstæðum enn til umræðu á vissum sviðum. Spurningar t.d. um hvenær skuli stækka bandalagið og hvaða ríki eigi að hljóta aðild, um hlutverk Rússa í öryggiskerfi Evrópu og um hugsanlegar aðgerðir utan NATO-svæðisins eru enn til umræðu. Það þýðir þó ekki að mikilvægi NATO hafi minnkað heldur sýnir að það er lifandi bandalag sem tekst á við breytt umhverfi af sveigjanleika og hugmyndaauðgi.
    Norður-Atlantshafsþingið fékkst á árinu 1996 við þær mikilvægu spurningar sem bandalagið stendur nú frammi fyrir og mun sú umræða vafalaust halda áfram á árinu 1997. Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins hefur í málflutningi sínum lagt ríka áherslu á mikilvægi Norður-Atlantshafstengslanna í evrópskum öryggismálum. Hún hefur ítrekað minnt á að trúverðugleiki NATO liggur einmitt í samstarfi Evrópu og Norður-Ameríku og að ekki megi missa sjónar á því á þessum umbreytingatímum sem hafa valdið óstöðugleika í álfunni og vekja miklar umræður um aukið samstarf og sjálfstæði Evrópu í öryggis- og varnarmálum.

2.    Almennt um Norður-Atlantshafsþingið.
    Norður-Atlantshafsþingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Undanfarin ár hefur þingið þó bæði fjölgað í hópi sínum og víkkað út starfssvið sitt til móts við þær breytingar sem orðið hafa í Sovétríkjunum fyrrverandi og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.
    Fimmtán nýjum lýðræðisríkjum úr hópi fyrrum kommúnistaríkja hefur verið veitt aukaaðild að þinginu sem þýðir að þau geta nú tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild og að efnahagslegum og pólitískum vandamálum ásamt menningar- og umhverfismálum sem tengjast ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Með Rose-Roth áætluninni veitir þingið nú einnig virkan stuðning við þróun þingbundins lýðræðis í þessum ríkjum (sjá bls. 3).

3.    Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna.
    Meginhlutverk þingsins er að upplýsa og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins og nú ríkja Mið- og Austur-Evrópu kleift að koma á framfæri áhuga- og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á upplýsingum um þau mismunandi viðhorf sem uppi eru í hinum ýmsu löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum samkvæmt aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Á þinginu endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana.
    Þingið kemur saman tvisvar á ári til allsherjarfundar, vorfundar sem stendur í þrjá daga og ársfundar er stendur í fimm daga. Fundir eru haldnir í aðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer fram í fimm nefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og félagsmálanefnd. Þessar nefndir eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli kýs hún undirnefnd eða kemur á fót vinnuhóp til að afla um það upplýsinga.
    Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um á allsherjarfundi. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið, sem fyrr segir, smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna: Formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra NATO á haustfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO og SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe — æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og loks fundi milli forustumanna í þinginu og fulltrúa Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

4.    Samskiptin við Mið- og Austur-Evrópu.
    Eins og NATO sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantshafs er þörf breytinga til aðlögunar að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Umfram allt kallar þetta á þróun fyrirkomulags í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum.
    Norður-Atlantshafsþingið hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékkland og Slóvakía), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússland) fengu aukaaðild að Norður-Atlantshafsþinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Hvíta-Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litáens, Moldavíu, Rúmeníu, Slóveníu og Úkraínu fengið aukaaðild að þinginu. Mikilvægi aukaaðildarinnar felst í því að hún veitir löggjöfum hinna nýju lýðræðisríkja tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins (vor- og haustfundum, nefndafundum o.fl.).
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum að því er varðar Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun, sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum, Charlie Rose, fyrrum forseta Norður-Atlantshafsþingsins, og Bill Roth, og naut stuðnings beggja þingflokka Bandaríkjaþings, beinir Norður-Atlantshafsþingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið- og Austur-Evrópu.
    Meginþátturinn í Rose-Roth áætluninni er röð námsstefna og ráðstefna þar sem fjallað er um sérstök vandamál Mið- og Austur-Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt verulega af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölhliða umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og ákvörðun fjárveitinga til varnarmála og herafla. Frá upphafi áætlunarinnar og fram til ársloka 1996 höfðu verið haldnar 30 námsstefnur.
    Norður-Atlantshafsþingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til stuttra rannsóknardvala (í þrjá til sex mánuði) á alþjóðaskrifstofunni. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til þess að starfslið þjóðþinga Mið- og Austur-Evrópulanda geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana.
    Af margvíslegri starfsemi Norður-Atlantshafsþingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd sem beinist að Evrópu allri við hið hefðbundna hlutverk sitt að hlúa að Atlantshafstengslunum.

5.    Fulltrúar á Norður-Atlantshafsþinginu og embættismenn þess.
    Á Norður-Atlantshafsþinginu eiga sæti 188 þingmenn. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Í sendinefndum Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands eru 18 þingmenn í hverri. Kanada, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert land. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi og Portúgal koma sjö frá hverju landi. Danmörk og Noregur senda fimm fulltrúa hvort land og frá Íslandi og Lúxemborg koma þrír frá hvoru landi. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á Norður-Atlantshafsþinginu. Aukaaðilar taka þátt í nefndarfundum og allsherjarfundum en hafa ekki atkvæðisrétt.
    Embættismenn þingsins eru sex og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á allsherjarfundi (forseti og fjórir varaforsetar). Sjötti embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann er kjörinn annað hvert ár af stjórnarnefndinni. Atlantshafsþinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra sendinefndanna, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndaformenn.

6.    Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til þess að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig árlegt framlag til þingsins.

7.    Fulltrúar Alþingis á Norður-Atlantshafsþinginu.
    Fulltrúar Alþingis á fundum Norður-Atlantshafsþingsins hafa frá upphafi verið tilnefndir af þeim þingflokkum sem stóðu að samþykkt Alþingis um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þ.e. Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Eru tilnefndir í Íslandsdeildina þrír aðalmenn og þrír menn til vara. Í samræmi við starfsreglur Norður-Atlantshafsþingsins og ákvörðun þingflokka voru fulltrúar Alþingis sem hér segir árið 1996:
    Aðalmenn: Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðisflokki, formaður Íslandsdeildarinnar, Jón Kristjánsson, Framsóknarflokki, varaformaður Íslandsdeildarinnar, og Jón Baldvin Hannibalsson, Alþýðuflokki.
    Varamenn: Árni R. Árnason og Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, og Gunnlaugur M. Sigmundsson, Framsóknarflokki.
    Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þingsins. Vegna smæðar hefur Ísland þó aðeins atkvæðisrétt í þremur nefndum auk stjórnarnefndar.
    Sólveig Pétursdóttir á sæti í stjórnarnefnd þingsins en varamaður hennar í nefndinni er Jón Kristjánsson. Annars er skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir þannig:

    Stjórnmálanefnd:     Sólveig Pétursdóttir.
    Varnar- og öryggismálanefnd:     Jón Kristjánsson.
         Gunnlaugur M. Sigmundsson.
    Félagsmálanefnd:     Einar Oddur Kristjánsson.
    Efnahagsnefnd:     Árni R. Árnason.
    Vísinda- og tækninefnd:     Jón Baldvin Hannibalsson.

    Sólveig Pétursdóttir var á ársfundi þingsins endurkjörin varaformaður undirnefndar stjórnmálanefndar um samskiptin yfir Atlantshafið og samskipti Evrópuríkja. Jón Kristjánsson á sæti í vinnuhóp varnar- og öryggismálanefndar um öryggismál á norðurslóðum, Jón Baldvin Hannibalsson á sæti í sérstakri nefnd forseta Norður-Atlantshafsþingsins um málefni Balkanskaga og Árni R. Árnason á sæti í undirnefnd efnahagsnefndar um efnahagssamstarf og samhæfingu austurs og vesturs.

8.    Fundir sem Íslandsdeildin tók þátt í á árinu.
    Norður-Atlantshafsþingið heldur tvo allsherjarfundi árlega, svokallaðan vorfund og ársfund að hausti. Auk þess er haldinn einn sérfundur stjórnarnefndar. Á svokölluðum febrúarfundum fundar stjórnarnefndin með framkvæmdastjóra NATO og Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmála- og varnar- og öryggismálanefndirnar halda sameiginlegan fund. Þá eru reglulega haldnar námsstefnur og fundir í nefndum og undirnefndum þingsins á milli þinga. Jafnframt er árlega farið í kynnisferð til eins aðildarríkis NATO til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Þá voru haldnar fjórar Rose-Roth námsstefnur á árinu. Íslandsdeildin tók þátt í febrúarfundunum, sérfundi stjórnarnefndar, námsstefnu vinnuhóps um öryggismál á norðurslóðum, fundi undirnefndar stjórnmálanefndar um samskiptin yfir Atlantshafið og samskipti Evrópuríkja, og vor- og haustfundum þingsins á árinu 1996.

a.    Febrúarfundir.
    Dagana 18.–19. febrúar voru haldnir svonefndir febrúarfundir Norður-Atlantshafsþingsins í Brussel. Um var að ræða fund með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra NATO og sameiginlegan fund efnahags-, stjórnmála- og varnar- og öryggismálanefndar Norður-Atlantshafsþingsins. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sat Jón Kristjánsson varaformaður fundina, auk ritara (ritarar sátu ekki fundinn með Norður-Atlantshafsráðinu). Helstu umræðuefni sameiginlegs fundar nefndanna þriggja voru hlutverk NATO í Bosníu-Hersegóvínu, stækkun bandalagsins, ákvörðun Frakka um að hefja á ný þátttöku í hernaðarsamstarfi bandalagsins, framtíðarskipan á vörnum Evrópu og fjölþætt samstarf Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Fundinn ávörpuðu Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, Sir Leon Brittan, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Klaus Naumann hershöfðingi, formaður hermálanefndar NATO, Robert Hunter, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá NATO, og Gérard Errera, fastafulltrúi Frakklands hjá NATO. Aukaaðilar hafa ekki seturétt á þessum fundum. Mikilvægi þessara funda hefur aukist mjög á undanförnum árum þar sem þeir eru orðnir nánast eina tækifæri fulltrúa NATO-ríkja til að ræða saman einir og sér.

b.    Fundur stjórnarnefndar.
    Dagana 29.–31. mars var haldinn stjórnarfundur Norður-Atlantshafsþingsins í Ottawa. Sólveig Pétursdóttir, formaður, sótti fundinn af hálfu Íslandsdeildarinnar, auk ritara. Fjármál þingsins og skrifstofuhald voru helstu umræðuefni fundarins, en á ársfundi þingsins í Torino í október 1995 hafði verið samþykkt að fá utanaðkomandi aðila til þess að endurskoða reikninga þingsins. Skýrsla endurskoðendanna var enn í vinnslu en fulltrúar þeirra mættu á fund nefndarinnar. Fram kom í máli þeirra að ýmislegt mætti betur fara í rekstri þingsins og að skýrum reglum um stjórn sjóða þess væri ábótavant. Þannig heyrði t.d. fjármálastjórinn undir gjaldkera þingsins (sem er þingmaður) en ekki framkvæmdastjórann sem annars á að hafa yfirumsjón með daglegum rekstri skrifstofunnar. Karsten Voigt, forseti þingsins, lofaði fundinum að skrifleg skýrsla yrði unnin um málið fyrir vorfund þingsins í Aþenu og jafnframt mælti fundurinn með að vorfundurinn endurskoðaði starfsreglur þingsins sem tengjast skrifstofuhaldi þess og fjármálastjórn.
    Á fundinum voru jafnframt m.a. rædd tengsl þingsins við NATO, staða sérstakra boðsgesta gestgjafa á fundum þingsins og samskiptin við Miðjarðarhafsríki sem mörg hver hafa sýnt áhuga á auka- eða áheyrnaraðild að þinginu. Samþykkt var að ekki bæri að opna fyrir möguleika á auka- eða áheyrnaraðild ríkja sem ekki eiga strönd að Miðjarðarhafi, en þar með geta t.d. Máretanía og Jórdanía ekki fengið slíkan aðgang að fundum þingsins.
    Loks var kynnt starfið fram undan og gerði Sólveig Pétursdóttir grein fyrir að sérfundur stjórnarnefndar yrði næst haldinn í Reykjavík dagana 4.–6. apríl 1997.

c.    Vorfundur.
         Dagana 16.–20. maí var haldinn vorfundur Norður-Atlantshafsþingsins í Vouliagmeni í nágrenni Aþenu. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Sólveig Pétursdóttir, formaður, Jón Kristjánsson, varaformaður, og Árni R. Árnason, auk ritara.
    Haldnir voru fundir í öllum fimm málefnanefndum þingsins. Nefndastarfið á vorfundinum fólst að venju að mestu leyti í undirbúningsstarfi fyrir haustfund þingsins sem haldinn var í París í nóvember. Drög að skýrslum um margvísleg málefni voru lögð fram í nefndunum og rædd. Fundarmönnum gafst tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við drögin, áður en skýrsluhöfundar fullunnu skýrslurnar fyrir haustfundinn. Nefndirnar fengu jafnframt til sín gesti til að ræða tiltekin málefni.
    Helsta málefnið á fundi stjórnarnefndar var skýrsla utanaðkomandi endurskoðenda um fjármál þingsins og umræður um viðbrögð þingsins við niðurstöðum hennar. Samþykktar voru bráðabirgðatillögur um breytingar á starfsreglum þingsins sem ætlað er að skýra ábyrgð og auka skilvirkni í innra starfi þess. Þessar bráðabirgðatillögur voru hafðar til viðmiðunar við gerð formlegra breytingartillagna við starfsreglur þingsins sem lagðar voru fram á haustfundinum í nóvember.
    Á fundi stjórnarnefndar var einnig ákveðið að reyna að stuðla að auknum en þó óformlegum tengslum þingsins við NATO, án þess að þingið glataði stjórnmála- eða þinglegu sjálfstæði sínu. Enn fremur var samþykkt að veita Finnlandi og Svíþjóð varanlega áheyrnaraðild að þinginu, en fulltrúum þessara ríkja hefur um nokkurt skeið verið boðið að sækja vor- og haustfundi þess. Loks voru samþykktar skýrar reglur um hvernig beri að haga boðum til ríkja sem ekki hafa slíka varanlega áheyrnaraðild að þinginu um að senda áheyrnarfulltrúa á fundi þess, en héðan af verða það gestgjafar og forseti þingsins sem ákvarða um slík boð í samráði við stjórnarnefndina. Nokkurrar óánægju gætti á vorfundinum með þá ákvörðun gestgjafanna (Grikkja) að bjóða suður- en ekki norðurhluta Kýpur að senda þangað áheyrnarfulltrúa og gagnrýndu Tyrkir það harðlega, m.a. með stuðningi þýsku sendinefndarinnar.
    Sameiginlegur þingfundur var haldinn á lokadegi. Eftirtaldir gestir ávörpuðu fundinn: Apostolos Kaklamanis, forseti gríska þingsins, Constantinos Simitis, forsætisráðherra Grikklands, Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, og Carl Bildt, sérlegur eftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna með uppbyggingunni í Bosníu-Hersegóvínu. Solana og Bildt svöruðu jafnframt spurningum fundargesta.
    Ekki er venjan að vorfundur Norður-Atlantshafsþingsins sendi frá sér ályktanir. Að þessu sinni lagði hins vegar Klaus Francke, formaður þýsku sendinefndarinnar, fram drög að ályktun um CFE-samninginn um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar, en 15. maí hófst ráðstefna um framkvæmd samningsins í Vín. Ályktunin hafði verið rædd og henni breytt lítillega í varnar- og öryggismálanefnd þingsins, en Rússar höfðu í krafti aukaaðildar sinnar lagt fram fjölda breytingartillagna sem allar voru felldar. Í ályktuninni er ráðstefnan í Vín hvött til þess að reka á eftir framkvæmd samningsins í þeim tilfellum sem henni er ábótavant og sjá til þess að samningurinn verði virtur í sinni upphaflegu mynd. Formaður rússnesku sendinefndarinnar talaði gegn ályktuninni á þingfundinum og fór fram á aukinn skilning á breyttum aðstæðum eftir endalok Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins, en ályktunin var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

d.    Námsstefna vinnuhóps um öryggismál á norðurslóðum.
    Dagana 19.–22. september var haldin námsstefna vinnuhóps um öryggi á norðurslóðum í Gdansk. Árni R. Árnason sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Á fundinum var fjallað um samstarf í öryggismálum á Eystrasaltssvæðinu og um stöðu Kaliningrad. Ákveðið var að stefna að því að vinnuhópurinn beindi sjónum sínum í kjölfarið að öryggismálum á Norðurheimskautsslóðum.

e.    Fundur undirnefndar stjórnmálanefndar um samskiptin yfir Atlantshafið og samskipti Evrópuríkja.
    Dagana 23.–24. september fundaði undirnefnd stjórnmálanefndar um samskiptin yfir Atlantshafið og samskipti Evrópuríkja í Brussel. Fundinn sótti Sólveig Pétursdóttir, formaður, af hálfu Íslandsdeildarinnar. Undirnefndin heimsótti höfuðstöðvar NATO og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB). Fjallað var um tengsl NATO við Vestur-Evrópusambandið, stækkun NATO, samskipti bandalagsins við Rússland, framkvæmd Dayton-samkomulagsins, ríkjaráðstefnu ESB og sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu sambandsins.

f.    Ársfundur.
    Dagana 17.–21. nóvember var haldinn haustfundur Norður-Atlantshafsþingsins í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Sólveig Pétursdóttir, formaður, Jón Kristjánsson, varaformaður, og Árni R. Árnason, auk ritara.
    Fjöldi málefna var til umræðu á haustfundinum en hæst bar þó umræður um stækkun NATO annars vegar og um ástandið á Balkanskaga og þá lærdóma sem draga má af atburðarásinni þar hins vegar. Ólíkt því sem verið hefur á undanförnum árum höfðu Rússar sig ekki sérlega mikið í frammi í umræðunum um stækkun bandalagsins, utan að leggja fram fjölda breytingartillagna við ályktanir fundarins í þeim efnum sem nær öllum var hafnað. Í krafti aukaaðildar að þinginu hafa Rússar málfrelsi og tillögurétt á fundum þess en ekki atkvæðisrétt. Þá var almennur vilji fyrir því á fundinum að fjölþjóðaher undir stjórn NATO yrði áfram við friðargæslu í Bosníu-Hersegóvínu á næstu árum og jafnframt var almennt lögð áhersla á mikilvægi þátttöku Bandaríkjanna í slíkum fjölþjóðaher. Fulltrúar Bandaríkjaþings á fundinum voru þó ekki reiðubúnir að styðja jafnákveðið orðalag og meiri hluti fundarmanna um nauðsyn áframhaldandi bandarískrar þátttöku í fjölþjóðahernum.
    Haldnir voru fundir í öllum fastanefndum þingsins. Skýrslur voru ræddar og afgreiddar í fastanefndum. Ályktanir, sem samþykktar voru í nefndum, voru sendar til sameiginlega þingfundarins til endanlegrar afgreiðslu. Margir góðir gestir mættu á nefndafundi til að ræða hin ýmsu dagskrárefni þeirra.
    Á fundi stjórnmálanefndar var Sólveig Pétursdóttir endurkjörin varaformaður undirnefndar um samskiptin yfir Atlantshafið og samskipti Evrópuríkja.
    Á fundi stjórnarnefndar bar hæst ýmsar breytingar á starfsreglum þingsins, reglum um fjármál þess og reglum um eftirlaunasjóð starfsmanna. Ekki höfðu t.d. verið í gildi neinar reglur um hversu oft mætti endurkjósa sömu aðila í embætti forseta þingsins og gjaldkera (sem er þingmaður), né heldur um hversu lengi sami aðili gæti gegnt starfi skrifstofustjóra þingsins. Samþykkt var að forseta þingsins mætti einungis endurkjósa einu sinni, en hann er kjörinn til eins árs í senn. Þá var samþykkt að gjaldkeri skyldi kjörinn til tveggja ára í senn og að hann mætti endurkjósa tvisvar. Loks var samþykkt að sami aðili mætti gegna starfi skrifstofustjóra þingsins í mest átta ár, en jafnframt að hann þyrfti að endurráða á tveggja ára fresti.
    Enn fremur var samþykkt að auka hlutverk forseta þingsins hvað varðar eftirlit með skipulags-, stjórnmála- og fjármálalegri þróun þingsins á milli þingfunda. Þá voru samþykktar ýmsar breytinar í þá veru að hagræða í starfi skrifstofunnar og skilgreina boðleiðir og ábyrgð einstakra aðila. Loks var samþykkt að endurskoða reglur um ráðningarsamning skrifstofustjóra þingsins, en hann heyrir nú líkt og aðrir starfsmenn undir belgíska vinnulöggjöf. Þær verða ræddar frekar á næsta fundi stjórnarnefndar sem haldinn verður í Reykjavík í apríl nk. Nýr framkvæmdastjóri verður væntanlega ráðinn samkvæmt þeim á fyrri hluta næsta árs í kjölfar afsagnar Peters Corterier úr stöðu skrifstofustjóra á haustfundinum í París.
    Þá var ákveðið að fjölga varaforsetum þingsins úr þremur í fjóra. Með þessu er evrópsku flokkahópunum þremur öllum gert kleift að eiga fulltrúa í framkvæmdastjórn þingsins, en hefð er fyrir því að einn varaforsetanna sé fulltrúi Bandaríkjanna eða Kanada. Einnig var samþykkt að veita Túnis áheyrnaraðild að þinginu, en Egyptaland og Marokkó hafa meðal annarra slíka áheyrnaraðild að þinginu.
    Hvað varðar starf málefnanefnda var ákveðið að stofna sérstakan vinnuhóp um samskipti NATO við Rússland og önnur ríki sem áhuga hafa á slíkum samskiptum, og mun vinnuhópurinn falla undir stjórnmálanefndina. Einnig var ákveðið að vinnuhópur öryggis- og varnarmálanefndar um öryggi á norðurslóðum yrði gerður að undirnefnd. Loks var forsetanefnd um málefni Bosníu-Hersegóvínu breytt í forsetanefnd um öryggismál á Balkanskaga.
    Að lokum var farið yfir starfið fram undan, en stjórnarnefndin fundar sem fyrr segir næst í Reykjavík, dagana 4.–6. apríl nk. Einnig voru samþykkt drög að árlegri kynningarferð á vegum öryggis- og varnarmálanefndarinnar fyrir árið 1998 þar sem gert er ráð fyrir að farið verði til Grænlands, Íslands, Norður-Noregs og hugsanlega til Múrmansk.
    Sameiginlegur þingfundur var haldinn á síðasta degi fundarins. Þar var bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn William V. Roth Jr. kjörinn forseti þingsins. Auk hans og Karstens Voigts, fráfarandi forseta þingsins, fluttu þar erindi Charles Millon, varnarmálaráðherra Frakklands, Sir Dudley Smith, forseti þings Vestur-Evrópusambandsins (VES), Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, og loks Hans Hækkerup, varnarmálaráðherra Danmerkur.
    Staðfestar voru ýmsar breytingar sem stjórnarnefnd þingsins hafði samþykkt á starfsreglum þess, reglum um fjármál og reglum um eftirlaunasjóð starfsmanna þingsins sem áður er getið.
    Eftirfarandi ályktanir nefnda þingsins voru lagðar fram, ræddar ásamt breytingartillögum og samþykktar:
                   Ályktun um útvíkkað bandalag í þágu stöðugleika og frelsis.
                   Ályktun um leiðtogafund ÖSE í Lissabon.
                   Ályktun um árangur og framtíð fjölþjóðahersins í Bosníu.
                   Ályktun um uppbyggingarstarfið í Bosníu.
                   Ályktun um ástand mála í Hvíta-Rússlandi.
                   Ályktun um útbreiðslu efnavopna.
    Loks var rædd og samþykkt lokaályktun fundarins þar sem m.a. er lögð áhersla á að sem fyrst verði hafnar aðildarviðræður við þau ríki sem sækjast eftir og teljast uppfylla skilyrði aðildar að NATO, að enginn vafi muni leika á því að bandalagið verði áfram opið fyrir hugsanlegum nýjum aðildarríkjum eftir að fyrstu ríkin hafa fengið aðild, að komið verði á sérstöku samstarfi og samráðsfyrirkomulagi við Rússland og Úkraínu og að stuðlað verði að auknu sjálfstæði Evrópuríkja í öryggismálum álfunnar en undir formerkjum NATO.

Alþingi, 31. jan. 1997.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Kristjánsson,

Jón Baldvin Hannibalsson.


form.

varaform.






Fylgiskjal I.



NORÐUR-ATLANTSHAFSÞINGIÐ
Kemur saman á allsherjarfundi tvisvar á ári, á vorfund og ársfund
Sendinefndir aðildarríkja

16 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins
188 þingmenn

Fjöldi þingsæta er í hlutfalli við
fólksfjölda
Aukaaðilar

Frá Albaníu, Búlgaríu, Eistlandi, Hvíta-Rússlandi, Lettlandi, Litáen, Moldavíu, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi,
Ungverjalandi og Úkraínu

Hafa ekki atkvæðisrétt
Framkvæmdastjórn

Kosin árlega

Forseti, fjórir varaforsetar,
gjaldkeri, framkvæmdastjóri
Stjórnarnefnd

Formenn sendinefnda
Formenn nefnda

Hvert land hefur eitt atkvæði

Kemur saman þrisvar á ári
Nefndarfundir

Fimm nefndir:
Félagsmálanefnd
Varnar- og öryggismálanefnd
Efnahagsnefnd
Stjórnmálanefnd
Vísinda- og tækninefnd

Taka saman, ræða og greiða atkvæði um skýrslur og
ályktanir

Mynda undirnefndir til að rannsaka afmörkuð mál og afla upplýsinga
Allsherjarfundir

Greiða atkvæði um tillögur nefndanna fimm og
fjárhagsáætlun

Ræða afmörkuð málefni
sem ofarlega eru á baugi

Hlýða á ávörp gesta

Þátttaka auka- og
áheyrnaraðila
Önnur starfsemi

Árleg kynnisferð til að
skoða hernaðarmannvirki
og búnað

Námsstefnur og hringborðsumræður innan Rose-Roth áætlunarinnar

Fylgiskjal II.


UNDIRNEFNDIR — VINNUHÓPAR




Stjórnmálanefnd.


(42 fulltrúar.*)



    Undirnefnd um stækkun NATO og nýju lýðræðisríkin.
    Undirnefnd um samskiptin yfir Atlantshafið og samskipti Evrópuríkja.
    Vinnuhópur um sérstök samskipti NATO við Rússland og önnur ríki sem slíkra samskipta óska.
    

Varnar- og öryggismálanefnd.


(42 fulltrúar.*)



    Undirnefnd um varnar- og öryggissamstarf Evrópu og Norður-Ameríku.
    Undirnefnd um framtíð herafla.
    Undirnefnd um öryggismál á norðurslóðum.

Efnahagsnefnd.


(35 fulltrúar.*)



    Undirnefnd um efnahagssamstarf og samhæfingu austurs og vesturs.

Félagsmálanefnd.


(31 fulltrúi.*)



    Undirnefnd um samvinnu og öryggi almennra borgara.
    Undirnefnd um Miðjarðarhafssvæðið.

Vísinda- og tækninefnd.


(31 fulltrúi.*)



    Undirnefnd um útbreiðslu hernaðartækni.



*    Fulltrúum fjölgar um einn eða tvo eftir því sem Íslendingar og Lúxemborgarar, með þrjá fulltrúa hvor þjóð, skipa fulltrúum sínum í einhverjar þrjár af þessum fimm nefndum.






Fylgiskjal III.


Skýrslur Norður-Atlantshafsþingsins 1996.


Stjórnmálanefnd:
Defining Moments in 1996. Almenn skýrsla um þróun bandalagsins á árinu 1996.
On the Verge of a Wider Alliance. Skýrsla um stækkun NATO, sjónarmið Rússa o.fl.
NATO Enlargement and the New Democracies. Skýrsla um áhrif stækkunar NATO á nýju     lýðræðisríkin, með sérstakri hliðsjón af Rúmeníu.
In Quest of Mutually-Reinforcing Institutions. Skýrsla um samstarf og samstarfsmögu    leika NATO, ÖSE og fleiri stofnana.
Regional Cooperation in Central Europe. Skýrsla um svæðisbundið samstarf Mið-Evrópu    ríkja.
In Pursuit of Euro-Mediterranean Security. Skýrsla um öryggismál við Miðjarðarhaf.

Varnar- og öryggismálanefnd:
The Reformation of NATO. Skýrsla um endurskipulagningu á innri uppbyggingu NATO.
Partnership for Peace: a basis for new security structures and an incentive for military     reform in Europe. Skýrsla um Samstarf í þágu friðar og áhrif þess samstarfs í Evrópu.
The Bosnian Tragedy and IFOR: an example for transatlantic security cooperation.      Skýrsla um átökin í Bosníu-Hersegóvínu, fjölþjóðaherinn undir stjórn NATO og lærdóma sem af þeirri reynslu má draga.
Baltic and Arctic Security: decisive challenge for a new Europe. Skýrsla um öryggismál     á norðurslóðum, með áherslu á Eystrasaltsríkin.

Efnahagsmálanefnd:
The State of Transatlantic Relations and an Analysis of the New Transatlantic Agenda.      Skýrsla um samskipti Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.
Economic Reforms in Poland. Skýrsla um efnahagslegar umbætur í Póllandi.

Félagsmálanefnd:
Rebuilding Bosnia: the task of civilians. Skýrsla um uppbyggingu borgaralegs samfélags     í Bosníu-Hersegóvínu.
Immigration, Integration and the Fight Against Crime: lessons from the USA and     Canada. Skýrsla um málefni innflytjenda, skipulagða glæpastarfsemi og þá lærdóma sem draga má af reynslu Bandaríkjamanna og Kanadamanna.
Asylum and Humanitarian Protection in Europe: the need for differentiated, just and     coordinated policies. Skýrsla um veitingu pólitísks hælis og vernd mannréttinda í Evrópu.
Organized Crime and Illegal Immigration: findings from a seven-country inquiry. Skýrsla     um skipulagða glæpastarfsemi og ólöglega innflytjendur, byggð á niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru í sjö ríkjum.
Cooperation for Security in the Mediterranean: the contributions of NATO, the European     Union, and the Middle East Process. Skýrsla um samstarf í öryggismálum við Miðjarðarhafið, friðarferlið og framlög NATO og ESB.

Vísinda- og tækninefnd:
The Poor Man's Bomb. Skýrsla um efnavopn og lífræn vopn.
Science, Technology and Partnership for Peace: international intellectual property     rights. Skýrsla um vernd hugverka í vopnaframleiðslu.
Ozone Depletion. Skýrsla um eyðingu ósonlagsins.
Blinding Laser Weapons. Skýrsla um leysigeislavopn.
Survey of Possible Topics for 1997. Skýrsla um málefni sem taka má fyrir á árinu 1997.
Limits on Nuclear Weapons. Skýrsla um takmörkun kjarnorkuvopna.