Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 369 . mál.


647. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, og lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Lúðvík Bergvinsson, Össur Skarphéðinsson,


Mörður Árnason.



I. KAFLI

Um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986.

1. gr.

    1. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI

Um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.

2. gr.

    Við 1. tölul. 1. mgr. 39. gr. laganna bætist: Bankastjórar ríkisviðskiptabankanna skulu skipaðir af ráðherra og fer um laun þeirra samkvæmt lögum um Kjaradóm og kjaranefnd.

III. KAFLI

Gildistaka.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar umræðu um starfskjör bankastjóra, ekki síst greiðslur fyrir ýmis aukastörf. Í utandagskrárumræðum á Alþingi 19. febrúar sl. kom fram almennur vilji til að taka á þessum kjörum bankastjóra landsins. Samkvæmt gildandi lögum eru það bankaráðin sem ákveða launakjör þeirra. Slík tilhögun hefur ekki gengið og eru því með frumvarpi þessu lagðar til breytingar sem gera það að verkum að launakjör seðlabankastjóranna og bankastjóra ríkisviðskiptabankanna verði ákveðin af kjaranefnd eins og reglan er varðandi forstöðumenn ríkisstofnana. Kjaranefnd úrskurðar m.a. um hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.







Prentað upp.