Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 407 . mál.


704. Frumvarp til lagaum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum viðskiptaráðherra.
    Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, sbr. þó II. kafla.

2. gr.

    Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Í þessu skyni er sjóðnum heimilt að leggja fram hlutafé eða veita lán, ábyrgðir eða styrki. Þá starfrækir sjóðurinn tryggingardeild útflutningslána skv. II. kafla.

3. gr.

    Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er heimilt að veita lán og ábyrgðir án sérstakra trygginga annarra en þeirra er felast í verkefnunum sjálfum.
    Sjóðnum er heimilt að nýta sér afl atkvæða sinna í samræmi við hlutafjáreign sína.

4. gr.

    Í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sitja fimm menn og eru þeir skipaðir af viðskiptaráðherra til tveggja ára í senn. Stjórnin skal þannig skipuð: einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, einn eftir tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn eftir tilnefningu sjávarútvegsráðherra samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi og einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands. Stjórnin skiptir með sér verkum.
    Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.

5. gr.

    Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerðir. Verkefni stjórnar eru m.a. þessi:
    Stefnumótun og gerð starfsreglna, sem staðfestar skulu af ráðherra.
    Ráðning framkvæmdastjóra.
    Samþykkt rekstraráætlunar sem gerð skal fyrir fram, eitt ár í senn.
    Ákvarðanir um lántöku og aðra fjáröflun til starfsemi sjóðsins.
    Ákvarðanir um þátttöku sjóðsins í fjármögnun, svo sem hlutafjárkaupum, lánveitingum sjóðsins, veitingu styrkja og ábyrgða og ákvarðanir um tryggingar og lánakjör.
    Ávöxtun fjár.


6. gr.

    Framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs fer með daglegan rekstur sjóðsins samkvæmt umboði sjóðstjórnar. Stjórn sjóðsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að taka ákvarðanir um veitingu lána, ábyrgða eða styrkja innan tiltekinna marka.
    Stjórn Nýsköpunarsjóðs er heimilt að semja við aðra aðila um vistun sjóðsins eða tiltekna þjónustu honum til handa, með samþykki ráðherra.

7. gr.

    Stofnfé Nýsköpunarsjóðs skal vera 3.000 millj. kr. af sameiginlegu eigin fé Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Afhenda skal sjóðnum tilgreinda fjárhæð þegar hann tekur til starfa, annars vegar með markaðshæfum hlutabréfum í eigu sjóðanna og hins vegar með verðtryggðu skuldabréfi útgefnu af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. til 10 ára með 20 afborgunum sem bera skal almenna markaðsvexti.
    Auk stofnfjár skv. 1. mgr. skal ríkisjóður greiða Nýsköpunarsjóði 1.000 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

8. gr.

    Ráðstöfunarfé Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er:
    Arður af eigin fé sjóðsins.
    Afborganir og vextir af útlánum sjóðsins.
    Hlutafjáreign sjóðsins.
    Aðrar tekjur.

9. gr.

    Nýsköpunarsjóður skal halda afskriftareikning samkvæmt góðri reikningsskilavenju og eftir mati á áhættu þannig að efnahagsreikningurinn gefi á hverjum tíma sem raunhæfasta mynd af fjárhagsstöðunni. Samhliða ákvörðunum um lánveitingar, ábyrgðir, styrki og hlutafjárþátttöku skal ákveða framlög á afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar, sem bætt er við afskriftareikninginn, skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er og vera í samræmi við reglur sem ráðherra staðfestir.
    Til verkefna sjóðsins skv. 2. gr. má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna verkefnanna rúmist innan ramma rekstraráætlunar. Rekstraráætlun sjóðsins skal miðast við að ekki sé gengið á eigið fé hans.

10. gr.

    Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er einungis heimilt að taka skammtímalán til að jafna sveiflur í greiðslustreymi sínu. Lán má ekki taka með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.

II. KAFLI
Tryggingardeild útflutningslána.

11. gr.

    Auk þeirrar starfsemi sem lýst er í I. kafla skal við Nýsköpunarsjóð starfrækt deild er nefnist tryggingardeild útflutningslána.
    Hlutverk tryggingardeildar útflutningslána skal vera:
    Að taka að sér að tryggja lán er bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.
    Að tryggja kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum og þjónustu.
    Að selja ábyrgðartryggingar fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis. Einnig að tryggja verkábyrgðir innlendra aðila vegna framkvæmda sem fara að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gera opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Að tryggja fjárfestingar innlendra fjárfesta erlendis.
    Að tryggja búnað sem innlendir aðilar flytja á erlenda grund í tengslum við verkefni þar.
    Með stjórn deildarinnar fer sérstök stjórnarnefnd sem í eiga sæti fimm menn. Þar af skal einn maður tilnefndur af stjórn Nýsköpunarsjóðs sitja í nefndinni og fulltrúar fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra.
    Tryggingardeild útflutningslána tekur við eignum og skuldbindingum tryggingardeildar útflutningslána sem starfrækt er samkvæmt lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, og er stofnfé hinnar nýju deildar ekki hluti af stofnfé sjóðsins skv. 1. mgr. 7. gr.

12. gr.

    Stjórnarnefnd tryggingardeildar ákveður iðgjöld og tryggingarhlutföll deildarinnar en þau skulu háð samþykki fjármálaráðherra. Við ákvörðun þeirra skal miðað við að þau standi undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs er nemi a.m.k. 10% af ábyrgðum deildarinnar á hverjum tíma. Starfsemi deildarinnar skal haldið aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins.
    Tekjuafgangur leggst í sérstakan varasjóð og skal honum varið til greiðslu tjónabóta. Nægi fé deildarinnar, þar með talinn varasjóður, ekki til greiðslu tjónabóta skal greiða það sem á vantar úr Ríkisábyrgðasjóði.
    Ríkissjóður ábyrgist að öðru leyti skuldbindingar deildarinnar.

13. gr.

    Greiðsluskilmálar lána, sem tryggingardeild útflutningslána tryggir, skulu vera í samræmi við almennar viðskiptavenjur hér á landi sem erlendis með hliðsjón af vörugerð, eðli þjónustu, markaðsaðstæðum og öðru sem máli skiptir.
    Heildarskuldbindingar tryggingardeildar útflutningslána vegna trygginga á útflutningslánum og kröfum mega aldrei nema hærri fjárhæð en jafnvirði 100 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR).
    Stjórnarnefnd tryggingardeildar setur deildinni nánari starfsreglur sem háðar skulu samþykki fjármálaráðherra.

III. KAFLI
Endurskoðun, eftirlit, gildistaka o.fl.
14. gr.

    Stjórn Nýsköpunarsjóðs skal semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga nr. 144/1994, um ársreikninga.
    Ársreikningur Nýsköpunarsjóðs skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

15. gr.

    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með því að starfsemi Nýsköpunarsjóðs sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.

16. gr.

    Stjórnendur Nýsköpunarsjóðs og aðrir þeir sem vinna fyrir sjóðinn eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

17. gr.

    Nýsköpunarsjóður er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti. Lán sem sjóðurinn tekur eða veitir eru undanþegin stimpilgjaldi.


18. gr.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

19. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.


20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Nýsköpunarsjóður skal taka til starfa 1. janúar 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 60/1970, um tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð.
    Allur kostnaður af stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins greiðist af honum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Eigi síðar en 1. júlí 1997 skal skipa stjórn skv. 4. gr. laganna, til tveggja ára. Þar til Nýsköpunarsjóður hefur tekið til starfa skv. 1. málsl. skal stjórnin hafa það verkefni að undirbúa starfsemi sjóðsins. Skal hún hafa samráð við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. um samninga við starfsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Stjórnin skal á þessu tímabili hafa fullan aðgang að gögnum þessara sjóða þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu og skulu stjórnendur og starfsmenn sjóðanna veita stjórninni nauðsynlega aðstoð. Þá skulu stjórnendur og starfsmenn sjóðsins vera bundnir þagnarskyldu með sama hætti og stjórnendur og starfsmenn umræddra sjóða.
    Allir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem fá laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga og ekki er boðið starf hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., skulu eiga kost á starfi hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.
    Nú tekur maður, sem áður gegndi starfi hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði, við starfi hjá Nýsköpunarsjóði og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði eða Iðnþróunarsjóði fellur niður er hann tekur við starfinu.
    Nýsköpunarsjóður yfirtekur lífeyrisskuldbindingar vegna starfsmanna Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem taka við starfi í sjóðnum.
    Eigið fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs, sbr. lög nr. 76/1987, skal flytjast til Nýsköpunarsjóðs og varðveitast þar í sérstakri deild sem haldið skal aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins. Höfuðstóll samkvæmt þessari grein telst ekki hluti af stofnfé Nýsköpunarsjóðs skv. 7. gr. Fyrstu þrjú starfsár Nýsköpunarsjóðs ráðstafar stjórn sjóðsins eignum deildarinnar í framlög til vöruþróunar og markaðsaðgerða samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur og staðfestar eru af ráðherra. Að þeim tíma liðnum skal deildin lögð niður. Ef eignum deildarinnar hefur þá ekki verið ráðstafað skulu eftirstöðvar lagðar til almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Um starfsemi deildarinnar gilda að öðru leyti ákvæði laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kemur fram að eitt af markmiðum hennar sé að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða og annarra fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Jafnframt skuli unnið að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Þá er í stefnu ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á að stuðla að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um allt land, tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.
    Endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna hefur hin síðari ár verið til umræðu af hálfu stjórnvalda og hagsmunasamtaka atvinnulífsins og hefur sú umfjöllun einkum varðað fjárfestingarlánasjóði í iðnaði og sjávarútvegi, þ.e. Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Fiskveiðasjóð Íslands. Í byrjun kjörtímabilsins ákváðu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra að fela ráðuneytisstjórum þessara ráðuneyta að vinna að endurskoðun á núverandi sjóðakerfi að því er varðar starfsemi þessara sjóða.
    Markmið endurskoðunarinnar var að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum á sem hagkvæmastan hátt og aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Það er mat ríkisstjórnarinnar að það sé hlutverk ríkisins að fyrir hendi sé fjárfestingarþjónusta eins og verkefnafjármögnun og bein áhættufjármögnun, auk þess sem áhættufjármögnun verði aðgreind frá hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi. Þá var það markmið endurskoðunarinnar að öll fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem er, ættu jafnan aðgang að fjármagni úr sjóðakerfi atvinnuveganna. Með því væri afnumin sú atvinnugreinaskipting sem verið hefur í sjóðakerfinu.
    Fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna voru upphaflega stofnaðir til að tryggja aðgang einstakra atvinnugreina að lánsfé á tímum lánsfjárskorts. Allir stærstu sjóðirnir eru í eigu ríkisins en atvinnugreinarnar hafa lagt sjóðunum til fé með ýmsum hætti, einkum í formi skattlagningar á viðkomandi atvinnugreinar. Má þar sérstaklega nefna iðnlánasjóðsgjald sem rennur til Iðnlánasjóðs og útflutningsgjald sem rann til Fiskveiðasjóðs. Ákvarðanir um þessa skattlagningu voru jafnan teknar í samráði við helstu hagsmunasamtök í viðkomandi atvinnugreinum. Fulltrúar greinanna hafa einnig haft áhrif á stefnu og starfsemi sjóðanna með setu í stjórnum þeirra. Í ljósi þessa hefur við undirbúning breytinga á sjóðakerfinu verið haft náið samráð við forsvarsmenn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði. Stjórnendur og starfsmenn sjóðanna þriggja og innlendir og erlendir sérfræðingar hafa aðstoðað við undirbúning málsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Hlutverk hans verði að stuðla að arðbærri uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar með áhættufjármagni og að styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði lagt til stofnfé af sameiginlegu eigin fé Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem reistur verður á grunni fyrrgreindra sjóða.
    Auk þessa er Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins ætlað að taka við starfsemi tryggingardeildar útflutningslána við Iðnlánasjóð og tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð.

2. Starfssvið Nýsköpunarsjóðs.
    Frumvarp þetta byggist að nokkru á þeirri reynslu sem fengist hefur af starfsemi Iðnþróunarsjóðs sl. tvö ár og af starfsemi vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs. Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er að nokkru leyti ætlað að taka við þeirri starfsemi þegar Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður verða sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Starfssvið Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verður þríþætt, þátttaka í arðvænlegum fjárfestingarverkefnum með íslenskum eða erlendum fyrirtækjum, stuðningur við forathuganir, vöruþróunar- og kynningarverkefni og starfræksla tryggingardeildar útflutningslána.

     Fjárfestingarverkefni:
    Gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki þátt í fjárfestingarverkefnum af þrennum toga. Í fyrsta lagi innlendum fjárfestingarverkefnum á vegum einstaklinga eða fyrirtækja, sem fela í sér nýjungar eða ný vaxtartækifæri, í öðru lagi fjárfestingum íslenskra aðila í atvinnurekstri erlendis og í þriðja lagi fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi.
    Innlend fjárfestingarverkefni og ný vaxtartækifæri, en þar er átt við innlend verkefni sem fela í sér nýjungar eða ný vaxtartækifæri innlendra aðila með arðsemi að leiðarljósi. Markmið sjóðsins með þátttöku skal vera að greiða fyrir nýjungum í íslenskum atvinnurekstri, skapa ný tækifæri til vaxtar og útflutnings og bæta alþjóðlega samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja.
    Fjárfestingar innlendra aðila erlendis, en þar er átt við fjárfestingu innlendra fyrirtækja eða einstaklinga í starfandi fyrirtækjum eða nýjum atvinnurekstri erlendis. Markmið sjóðsins með þátttöku skal vera að greiða fyrir sókn og auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum með því að deila með þeim áhættu í fjárfestingarverkefnum.
    Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, en þar er átt við atvinnurekstur hér á landi með umtalsverðri eignaraðild erlendra fyrirtækja eða einstaklinga og þátttöku þeirra í stjórnun rekstrarins. Markmið sjóðsins með þátttöku skal vera að efla atvinnulíf hér á landi, stuðla að skynsamlegri og arðbærri nýtingu innlendra náttúru- og þekkingarauðlinda og ýta undir yfirfærslu tækniþekkingar og öflun viðskiptatengsla.

    Stuðningsverkefni:
    Sjóðurinn mun styðja við verkefni á vegum opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, sem hafa markmið í samræmi við hlutverk sjóðsins. Meðal slíkra verkefna má nefna vöruþróun, kynningu á fjárfestingartækifærum á Íslandi og ýmiss konar forathuganir eða hagkvæmniathuganir. Verkefni af þessu tagi eru þess eðlis að ekki er að vænta beins arðs eða endurgreiðslu fjárframlaga, enda þótt ætla megi að þau geti leitt til arðsamra fjárfestinga eða framleiðslu síðar meir. Því verður að líta á stuðning sjóðsins við slík verkefni sem bein framlög án kröfu um endurgreiðslu, nema í undantekningartilfellum. Því er gert ráð fyrir að ráðstöfun framlaga sjóðsins til einstakra verkefna af þessu tagi geti verið í höndum annarra aðila eða í samvinnu við þá.

     Tryggingadeild útflutningslána:
    Að auki er gert ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður taki við starfsemi sem tryggingardeild útflutningslána hjá Iðnlánasjóði sem starfar samkvæmt lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, og tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð samkvæmt lögum nr. 60/1970 hafa stundað, en gert er ráð fyrir að lög um þessar deildir falli úr gildi við tilkomu tryggingardeildar við Nýsköpunarsjóð.

3. Starfshættir.
    Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er ætlað að starfa fyrst og fremst sem áhættufjármagnssjóður. Í því felst að hann leggur fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána með sambærilegum kjörum og hlutafé hvað varðar áhættu og arðsemisvon.
    Áhættufjármagn er gjarnan flokkað eftir því í hvaða tilgangi eða á hvaða stigi það er lagt fram. Af eðlilegum ástæðum er áhættan meiri á fyrstu þrepum þróunar, enda er ekki gert ráð fyrir því að framlög til slíkra verkefna séu endurgreidd nema í undantekningartilvikum. Ljóst er að starfandi áhættufjármagnsfélög hafa tilhneigingu til að sinna áhættuminni verkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá European Venture Capital Association má flokka áhættufjármögnun vegna nýsköpunar í eftirfarandi þrjá flokka eftir áhættu:
—     Þróunarfjármagn eða hugmyndafé (Seed Capital). Fjármagn til rannsókna og þróunar á vöru eða viðskiptahugmynd. Á þessu stigi er varla um meira að ræða en vænlega hugmynd og oftast frumkvöðul. Fjármagn á þessu stigi fer aðallega í gerð frumáætlana, fyrstu tilraunir við vöruþróun og forkönnun markaða.
—     Byrjunarfjármagn eða upphafsfé (Start-up). Tekur við af þróunarfjármagni, t.d. til að fullgera frumeintak vöru og til að hefja markaðsstarfsemi.
—     Fjármagn til vaxtar eða vaxtarfé (Expansion). Fjármagn til að útvíkka starfsemi að aflokinni þróun og öflun markaða.
    Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í fjárfestingarverkefnum mun aðallega falla að þriðja flokknum, þ.e. fjármögnun vaxtar. Einnig er sjóðnum ætlað að styðja við vöruþróunar- og kynningarverkefni, svo og forathuganir og hagkvæmniathuganir, en það fellur nær því sem nefnt er þróunarfjármagn eða byrjunarfjármagn.
    Sjóðnum er ætlað að vera virkur þátttakandi í verkefnum og skapa þannig fjárhagslegan aga og styrk fyrir atvinnufyrirtæki.

4. Starfsreglur.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun taka þátt í verkefnum með öðrum. Í því felst að hann mun gera kröfu um að samstarfsaðilar leggi einnig fram fjármagn og almennt má ætla að við það verði miðað að hlutdeild sjóðsins í fjármögnun verkefna fari ekki yfir þriðjung eða helming.
    Ætla má að ákvörðun um þátttöku í einstökum verkefnun verði byggð á undangenginni ítarlegri könnun. Meginforsenda fyrir þátttöku yrði að verkefnið geti skilað góðum arði ef sá árangur næst sem að er stefnt. Þá yrði lagt mat á alla áhættuþætti og þátttöku í óhæfilega áhættusömum verkefnum hafnað. Einnig skal það haft í huga að verkefnið verður að geta staðið undir þeim kostnaði sem sjóðurinn ber af því að fjalla um það fyrir ákvarðanatöku og fylgjast með því á framkvæmdatíma. Þetta felur í sér að sjóðurinn muni að öðru jöfnu ekki sinna mjög litlum verkefnum, ef jafnvel hámarksarðsemi gæti ekki skilað sjóðnum arði sem réttlætti kostnað við skoðun og eftirlit.
    Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði óheimilt að skerða stofnfé sitt og eðlilegt er að gera ráð fyrir að raunávöxtun hans til lengri tíma verði nokkur. Af þessum sökum mun ráðstöfunarfé sjóðsins á hverjum tíma ráðast af raunávöxtun stofnfjár. Í því sambandi skiptir tvennt miklu máli, árangur fjárfestingarverkefna (arðsemi, afskriftir/töp) og fjárhæð framlaga til stuðningsverkefna sem ekki er reiknað með að endurgreiðist. Til þess að hindra að gengið verði á eigið fé er nauðsynlegt að fjárhagsuppgjör sjóðsins sýni ætíð raunhæft mat á þeirri áhættu sem tengist fjárfestingarverkefnum.

5. Alþjóðavæðing.
    Mikilvægt starfssvið Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verður þátttaka í fjárfestingarverkefnum sem hafa það markmið að auka alþjóðavæðingu íslensks atvinnulífs, annars vegar með fjárfestingu íslenskra aðila erlendis og hins vegar með aukinni fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Vöxtur íslensks atvinnulífs í framtíðinni mun ráðast af því hvort hér nær að dafna atvinnustarfsemi sem stenst samkeppni á alþjóðamarkaði og nær að auka hlutdeild sína í vaxandi alþjóðlegum viðskiptum. Til þess að svo megi verða þurfa íslensk fyrirtæki að taka í auknum mæli þátt í alþjóðlegum atvinnurekstri.
    Alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs getur orðið með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með beinni fjárfestingu í atvinnurekstri erlendis. Markmið slíkra fjárfestinga getur verið margs konar, t.d. að öðlast aðgang að erlendum mörkuðum, að tengjast erlendum fyrirtækjum í því skyni að komast yfir þekkingu og tækni sem ekki fengist með öðrum hætti og að selja tækni-, markaðs- og stjórnunarþekkingu.
    Í öðru lagi getur alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs verið fólgin í fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi, ýmist í starfandi fyrirtækjum eða nýjum. Rökin fyrir aukinni erlendri fjárfestingu á Íslandi eru hin sömu og fyrir útrás, þ.e. viðskiptatengsl, yfirfærsla þekkingar og afleiddar tekjur, en auk þess atvinnusköpun og tækifæri til nýtingar á íslenskum náttúruauðlindum og sérþekkingu.
    Aukinn útflutningur og þátttaka í alþjóðaviðskiptum verður í framtíðinni ein aðalforsenda vaxtar íslensks atvinnulífs og aukningar þjóðartekna. Reynsla annarra ríkja sýnir beint samband milli alþjóðaviðskipta og fjárfestingar milli landa. Fjárfesting íslenskra fyrirtækja erlendis er meðal þess lægsta sem þekkist meðal OECD-ríkjanna, þrátt fyrir að hún hafi rúmlega tvöfaldast að raungildi á sl. 5–6 árum. Íslensk fyrirtæki hafa nú gert sér grein fyrir mikilvægi útrásar og munu þau í vaxandi mæli beina athyglinni að henni. Útrás er í eðli sínu áhættufjárfesting og kallar því á áhættufjármögnun. Það verður hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins að taka þátt í útrás íslenskra fyrirtækja og einstaklinga með því að deila með þeim áhættu í von um beinan og óbeinan fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt atvinnulíf, m.a. við atvinnusköpun hér á landi.

6. Stofnfé sjóðsins.

    Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóði verði lagðar til 4.000 millj. kr. Þar af munu honum lagðar til 3.000 millj. kr., annars vegar í formi markaðshæfra hlutabréfa og hins vegar í formi skuldabréfs sem útgefið verður af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Auk þess mun ríkissjóður leggja sjóðnum til 1.000 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Þá verða eignir vöruþróunar- og markaðsdeildar vistaðar í sérstakri deild samkvæmt bráðabirgðaákvæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um stöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins innan ríkisins, þ.e. að sjóðurinn skuli vera sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Sjóðurinn er ekki lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. og 10. gr. frumvarpsins. Yfirumsjón með starfsemi sjóðsins skal vera í höndum viðskiptaráðherra, en það þykir eðlilegt þar sem fjármálastarfsemi heyrir að verulegu leyti undir hans starfssvið. Skýrt er kveðið á um að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, nema hvað varðar skuldbindingar tryggingardeildar útflutningslána.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um hlutverk sjóðsins. Í almennum athugasemdum við frumvarpið hefur þegar verið fjallað almennt um starfssvið og starfshætti sjóðsins og er vísað til þeirrar umfjöllunar. Það verður verkefni nýrrar stjórnar að móta starfsreglur fyrir nýjan sjóð. Í því efni má ætla að hafðar verði til hliðsjónar meginreglur sem mótaðar hafa verið hjá Iðnþróunarsjóði á liðnum árum.
    Gert er ráð fyrir að meginstarfssvið sjóðsins verði þríþætt, þátttaka í arðvænlegum fjárfestingarverkefnum með íslenskum og erlendum fyrirtækjum, stuðningur við forathuganir, vöruþróunar- og kynningarverkefni, og starfræksla tryggingardeildar útflutningslána.
    Það skal undirstrikað að með þátttöku sjóðsins í fjárfestingarverkefnum er ekki átt við hefðbundna stofnlánastarfsemi. Þátttaka sjóðsins getur annars vegar verið í formi eiginfjár, þ.e. kaup á venjulegum hlutabréfum, hlutum eða forgangshlutabréfum, og hins vegar í formi lánsfjár með eiginleikum eigin fjár, svo sem lán með breytirétti í hlutafé, lán með kjörum sem tengd eru árangri verkefnisins eða lán með kauprétti hlutabréfa.
    Undir stuðningsverkefni sjóðsins falla verkefni á sviði forathugana, þróunar- og kynningarverkefna. Með forathugunum er m.a. átt við hagkvæmniathuganir, gerð viðskiptaáætlana og undirbúning verkefna sem falla undir meginverksvið sjóðsins. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki ekki beinan þátt í einstökum þróunarverkefnum, heldur verji hann hluta af ráðstöfunarfé sínu til slíkra verkefna og feli hugsanlega sérhæfðum aðila ráðstöfun þess fjár. Til að greiða fyrir alþjóðlegum verkefnum hér á landi getur sjóðurinn tekið þátt í að fjármagna verkefni er varða kynningu á fjárfestingarkostum hér á landi . Fjármagn til stuðningsverkefna getur verið í formi styrkja eða skilyrtra lána.
    Um starfrækslu tryggingardeildar útflutningslána er fjallað í II. kafla frumvarpsins, 11.–13. gr.
    Með hliðsjón af ákvæðum 61.–64. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar frá 19. janúar 1994 er ljóst að tilkynna verður stofnuninni þá aðstoð við atvinnulífið sem felst í starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Eins og áður segir mun stjórn sjóðsins móta sér starfsreglur og mun við gerð þeirra höfð hliðsjón af reglum EES. Slíkar starfsreglur, staðfestar af ráðherra, eða eftir atvikum reglugerð ráðherra, munu síðan tilkynntar Eftirlitsstofnun EFTA.


Um 3. gr.

    Það er alkunna að kröfur innlendra lánastofnana um haldgóðar tryggingar fyrir lánum sem þær hyggjast veita til nýsköpunarverkefna hafa reynst mörgum einstaklingum og fyrirtækjum óyfirstíganlegar. Auk framlags í formi hlutafjár, sbr. 2. gr., er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti veitt áhættulán. Með áhættulánum er átt við lán sem veitt eru án sérstakra trygginga. Litið er svo á að slíkt lán verði endurgreitt að fullu ef verkefnið sem lánað er til ber tilætlaðan árangur en jafnframt er lánveitandi reiðubúinn til að afskrifa lán að hluta eða öllu leyti heppnist verkefnið ekki. Það gefur hins vega auga leið að áhættulán er einungis veitt að undangenginni ítarlegri athugun á verkefninu og raunsæju mati á þeim áhættuþáttum sem hafa áhrif á það hvort verkefni heppnast eða ekki.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sjóðurinn geti nýtt sér afl atkvæða sinna í hlutafélögum í samræmi við hlutafjáreign sína, þar með talið til að velja fulltrúa í stjórnir þeirra. Hér er um að ræða sjálfsagðan rétt hvers fjárfestis í hlutafélagi, þ.e. að geta haft áhrif á stjórnun félags og náið eftirlit með starfsemi þess.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um skipun stjórnar Nýsköpunarsjóðs. Eins og fram kom í almennum athugasemdum er stofnun Nýsköpunarsjóðs liður í endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna. Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði lagt til stofnfé af sameiginlegu eigin fé Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Skiptar skoðanir hafa verið um eignarhald á þessum sjóðum, einkum Fiskveiðasjóði Íslands og Iðnlánasjóði. Af hálfu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og iðnaði hefur verið lögð áhersla á að atvinnuvegirnir og jafnvel fyrirtæki hafi með viðskiptum sínum við sjóðina og greiðslum til þeirra öðlast eignarrétt eða hlutdeild í sjóðunum. Lögum samkvæmt eru sjóðirnir ótvírætt í eigu ríkisins. Í umræðum um breytingar á sjóðunum hafa hins vegar á liðnum árum komið fram hugmyndir að leiðum til að taka tillit til þessara sjónarmiða.
    Lagt er til að hagsmunasamtökum í sjávarútvegi og iðnaði verði tryggð áhrif við stjórnun Nýsköpunarsjóðs. Því er í þessari grein lagt til að samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði, ásamt Alþýðusambandi Íslands, eigi þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, auk tveggja fulltrúa ríkisins sem tilnefndir verði af iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra.
    Gert er ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra tilnefni tvo menn hvor í stjórn sjóðsins. Þar af tilnefnir iðnaðarráðherra einn eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, en með því er átt við Samtök iðnaðarins. Þá tilnefnir sjávarútvegsráðherra annan fulltrúa sinn eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi, en með því er átt við Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva. Þá er gert ráð fyrir að Alþýðusamband Íslands tilnefni beint í stjórnina. Þar sem viðskiptaráðherra fer með yfirumsjón með sjóðnum mun hann skipa stjórnina formlega.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um meginverksvið stjórnar sjóðsins. Stjórnin fer með allt vald í málefnum sjóðsins sem ekki er falið öðrum samkvæmt lögum þessum. Stjórnin mótar stefnu og starfsreglur sjóðsins. Til ákvörðunar stjórnar þarf meiri hluta atkvæða. Samkvæmt greininni skal stjórnin ákveða áherslur í starfi sjóðsins í samræmi við ákvæði 2. gr. og setja reglur um skilyrði fyrir þátttöku sjóðsins í verkefnum, um umsóknir þar að lútandi og meðferð þeirra og um eftirfylgni þeirra verkefna sem sjóðurinn tekur þátt í. Í reglunum mætti t.d. setja ákveðin fjárhæðar- eða hlutfallsmörk á eiginfjárframlög, styrki, áhættulán og ábyrgðir, skilyrði um að ákveðnar upplýsingar þurfi að liggja fyrir til að þátttaka komi til greina og skilyrði viðvíkjandi þátttöku sjóðsins í fjármögnun verkefna . Þess skal gætt að reglur um meðferð mála tryggi sem best óháða og faglega umfjöllun um þær.
    Verði talin þörf á því síðar að kveða nánar á um verkefni og starfshætti stjórnar sjóðsins getur ráðherra gert það í reglugerð á grundvelli almennrar heimildar í 18. gr. frumvarpsins.


Um 6. gr.

    Framkvæmdastjóri sjóðsins fer með daglega stjórn hans í umboði sjóðstjórnar. Verkefni hans er að ráða starfsfólk sjóðsins. Þótt það sé ekki tekið fram í greininni, leiðir það af eðli máls að framkvæmdastjóra er ekki heimilt að gera ráðstafanir sem teljast óvenjulegar eða sérstaklega umfangsmiklar miðað við umsvif sjóðsins.
    Í 2. mgr. er stjórn sjóðsins, með samþykki ráðherra, heimilað að semja við utanaðkomandi aðila um að taka að sér ákveðna þætti í rekstri hans, eftir því sem hagkvæmt þykir. Þykir eðlilegt að hafa þennan sveigjanleika í rekstri sjóðsins.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að stofnfé sjóðsins verði 4.000 millj. kr. Þar af verði sjóðnum lagðar til 3.000 millj. kr. annars vegar með markaðshæfum hlutabréfum og hins vegar með skuldabréfi sem útgefið verður af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Auk þess mun ríkissjóður leggja sjóðnum til 1.000 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði greitt af fyrsta söluandvirði hlutabréfa. Einnig tekur tryggingardeild útflutningslána við eignum og skuldbindingum tryggingardeildar við Iðnlánasjóð sem ekki teljast til stofnfjárins. Þá verða eignir Vöruþróunar- og markaðsdeildar varðveittar í sérstakri deild til afmarkaðrar ráðstöfunar en þær teljast ekki til stofnfjárins.
    Í 3. gr. frumvarps til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. er kveðið á um að fjárfestingarbankinn taki við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, öðrum en þeim sem ráðstafað er með öðrum hætti samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Með þessu er einkum vísað til 7. gr. frumvarps þessa. Samkvæmt þessu verður fjárfestingarbankinn ekki eigandi alls eigin fjár sjóðanna og undanskilið það fé sem lagt er til Nýsköpunarsjóðs þótt formlega séð sé bankinn útgefandi þess skuldabréfs sem kveðið er á um í greininni, enda tekur hann á móti við eignum sjóðanna öðrum en markaðshæfum hlutabréfum þeirra.


Um 8. gr.

    Til ráðstöfunar verður eingöngu arður af stofnfénu. Hann getur m.a. verið fólginn í tekjum af útlánum sjóðsins, innleystum söluhagnaði eða arði af hlutafjáreign sjóðsins, vöxtum af lausu fé og af markaðsverðbréfum. Sjóðurinn getur og fengið til ráðstöfunar viðbótarframlög eða aðrar tekjur, sem ætlaðar eru til sérstakra verkefna.


Um 9. gr.

    Fyrir öll verkefni, sem sjóðurinn tekur þátt í, skal hann halda sérstakan afskriftareikning í samræmi við góða reikningsskilavenju. Fjárhæðir, sem færðar eru á afskriftareikninginn, skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er og metin er í samræmi við reglur sem ráðherra staðfestir. Stjórn sjóðsins skal gera rekstraráætlun fyrir hvert almanaksár, sbr. 5. gr. Skal hún miðast við að ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins. Til verkefna má sjóðurinn því ekki verja hærri upphæð en svo að áætlaðar afskriftir vegna þeirra, auk áætlaðs rekstrarkostnaðar, rúmist innan hennar.
    Í 2. mgr. er tekið fram að sjóðnum sé óheimilt að ganga á stofnfé sitt. Í þessu felst að stjórn sjóðsins ber að viðhalda eigin fé hans, þar með talið gagnvart almennum verðlagsbreytingum. Áhætta og arðsemi þeirra verkefna sem sjóðurinn tekur þátt í þarf að miðast við að raunávöxtun stofnfjár hans samsvari almennum hagvexti til lengri tíma litið.

Um 10. gr.

    Í ljósi sterkrar eiginfjár- og lausafjárstöðu sjóðsins á stofndegi er lagt til að hann geti ekki tekið langtímalán. Þess í stað verði honum einungis heimilt að taka skammtímalán til að jafna sveiflur í greiðslustreymi sínu. Með niðurlagi greinarinnar er útilokað að sjóðurinn geti fallið undir lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, en heimild til lántöku af þessu tagi er skilgreiningaratriði við túlkun á því hvort fjármálastofnanir falli undir lögin.

Um II. kafla

    Í þessum kafla er kveðið á um tryggingardeild útflutningslána. Eins og áður er komið fram er lagt til að Nýsköpunarsjóður taki við starfsemi tryggingardeildar útflutningslána hjá Iðnlánasjóði, sbr. lög nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, og tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð, sbr. lög nr. 60/1970. Gert er ráð fyrir að lög um þessar deildir falli niður við tilkomu tryggingardeildar við Nýsköpunarsjóð. Sú fyrrnefnda fellur sjálfkrafa niður þegar lög um Iðnlánasjóð verða felld úr gildi í kjölfar endurskipulagningar á sjóðakerfi atvinnuveganna. Þá þykir eðlilegt að starfsemi hennar og starfsemi síðarnefndu deildarinnar verði á einum stað en tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð hefur dregið úr starfsemi sinni og hefur nú aðeins eitt verkefni á sinni könnu.
    Sókn á nýja erlenda markaði er oft það áhættusöm að einkaaðilar eru þess ekki megnugir að veita útflytjanda tryggingar gegn greiðslufalli erlends kaupanda. Þess vegna er ríkistryggð útflutningstryggingarstarfsemi talin nauðsynleg forsenda þess að útflutningur aukist. Með útflutningstryggingum er átt við tryggingar sem bæta seljanda tjón sem verður vegna vanefnda eða greiðslufalls kaupanda. Skipta má útflutningstryggingum í tvennt, tryggingum gegn viðskiptaáhættu og tryggingum gegn stjórnmálaáhættu.
    Ætla má að nauðsynlegt verði að endurskoða ákvæði þessa kafla á næstu árum með hliðsjón af þróun í nágrannalöndum og reynslu af starfseminni.


Um 11. gr.

    Hlutverk tryggingardeildarinnar er í meginatriðum í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð. Þó er felldur brott 3. tölul. þeirrar greinar en þar er kveðið á um tryggingar samkeppnislána til innlendra aðila. Ákvæði 4. og 5. tölul. eru nýmæli. Í 4. tölul. er kveðið á um að heimilt verði að tryggja fjárfestingar innlendra aðila erlendis. Í nágrannalöndunum er víða boðið upp á slíkar tryggingar. Nauðsynlegt er talið að íslenskum útflytjendum standi slíkar tryggingar einnig til boða. Í 5. tölul. er kveðið á um heimild til að tryggja búnað sem fluttur er á erlenda grund í tengslum við verkefni. Hingað til hafa íslenskum útflytjendum ekki staðið slíkar tryggingar til boða, en boðið er upp á slíkar tryggingar á vegum hliðstæðra tryggingardeilda í nágrannalöndunum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um sérstaka stjórnarnefnd til að fara með stjórn nefndarinnar. Þar sem starfsemi þessarar deildar er með ríkisábyrgð þykir nauðsynlegt að ríkið fari með stjórn deildarinnar, með aðild atvinnulífsins.
    Deildin tekur við eignum og skuldbindingum tryggingardeildar útflutningslána við Iðnlánasjóð og er stofnfé deildarinnar ekki hluti af stofnfé sjóðsins. Deildin mun vera í jafnvægi miðað við síðustu áramót, þ.e. ekki með verulegar eignir eða skuldir. Ekki er gert ráð fyrir að þessi deild taki við eignum og skuldum tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðarsjóð þótt hún taki við starfsemi hennar. Gert er ráð fyrir að eignir og skuldbindingar þeirrar deildar falli til Ríkisábyrgðarsjóðs við brottfall laga um deildina.

Um 12. gr.

    Þessi grein er í samræmi við 15. gr. laga nr. 76/1987. Þó hefur verið fellt út ákvæði þess efnis að breyta skuli iðgjöldum tryggingardeildarinnar til þess að endurgreiða Ríkisbyrgðasjóði greiðslur sem fallið hafa á hann skv. 2. mgr. Umfang útflutningstrygginga er það lítið hér á landi að ekki þykir fært að hækka iðgjöld hjá tryggingardeildinni ef til þess kemur að eigið fé deildarinnar nægi ekki til að greiða tjón. Slíkt gæti haft í för með sér að starfsemi deildarinnar legðist af.

Um 13. gr.

    Greinin er í samræmi við 16. gr. laga nr. 76/1987.

Um 14. gr.


    Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins sjái um að semja ársreikning í samræmi við góða reikningsskilavenju og lög nr. 144/1994, um ársreikninga. Er eðlilegt að miða við að fjárhagsárið sé almanaksárið.
    Þar sem sjóðurinn er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins skal endurskoðun á ársreikningi sjóðsins vera í höndum Ríkisendurskoðunar, sbr. lög nr. 12/1986.

Um 15. gr.

    Rétt þykir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi eftirlit með starfsemi sjóðsins samkvæmt lögunum. Starfsemi sjóðsins byggist á nákvæmu mati á afskriftum, en skv. 9. gr. frumvarpsins skal varðveita eigið fé hans. Bankaeftirlitið býr yfir þekkingu á slíku mati. Jafnframt eru ýmsir þættir í starfsemi og stjórnun sjóðsins sambærilegir starfsemi þeirra stofnana sem bankaeftirlitið hefur eftirlit með.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Með hliðsjón af þeirri starfsemi sem sjóðnum er ætlað að inna af hendi er hvorki gert ráð fyrir að hann greiði tekjuskatt né eignarskatt. Sömu forsendur eiga við hvað varðar stimpilgjöld af lántökum og lánveitingum sjóðsins.

Um 18.–19. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. er lagt er til að stjórn Nýsköpunarsjóðs verði skipuð a.m.k. hálfu ári áður en sjóðurinn tekur til starfa. Hlutverk hennar á þeim tíma verður að undirbúa starfsemi sjóðsins. Í því sambandi er m.a. gert ráð fyrir að sjóðurinn ráði starfsmenn til sjóðsins og hafi um það samráð við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um að starfsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs skuli eiga rétt á starfi hjá Nýsköpunarsjóðnum, hafi þeim ekki verið boðið starf hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Ákvæði þetta er sambærilegt 10. gr. frumvarps til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að lífeyrisskuldbindingar vegna starfsmanna sjóðanna, sem taka við starfi hjá Nýsköpunarsjóði, flytjist til hans. Óeðlilegt þykir að Fjárfestingarbankinn taki við þessum skuldbindingum samkvæmt hinu almenna ákvæði 9. gr. frumvarps til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Samkvæmt 8. og 9. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, er starfrækt við sjóðinn sérstök vöruþróunar- og markaðsdeild með afmarkaðan tilgang og aðskilinn fjárhag. Starfsemi deildarinnar er fjármögnuð með Iðnlánasjóðsgjaldi sem innheimt er af iðnaðinum í landinu skv. 5. gr. sömu laga. Lagt er til að halda eignum þessarar deildar aðgreindum til sérstakrar ráðstöfunar. Því er í 5. mgr. kveðið á um að eigið fé hennar verði flutt í Nýsköpunarsjóð og varðveitt í sérstakri deild sem haldið verði aðgreindri í bókhaldi og reikningum. Á fyrstu þremur starfsárum sjóðsins verði eignum deildarinnar síðan ráðstafað til sérstakra framlaga til vöruþróunar- og markaðsaðgerða samkvæmt sérstökum reglum. Að þeim tíma loknum verði deildin lögð niður og óráðstafaðar eignir lagðar til aðmennrar starfsemi sjóðsins.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði sjóður í eigu ríkisins með það hlutverk að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og þróunar. Einnig starfi tryggingardeild útflutningslána við sjóðinn og taki þar við hlutverki núverandi deildar við Iðnlánasjóð og deildar Ríkisábyrgðasjóðs sem veitir slík lán.
    Í 7. gr. er lagt til að stofnfé sjóðsins nemi 4 milljörðum króna. Þar af komi 3 milljarðar króna af sameiginlegu eigin fé Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs en ríkissjóður leggi 1 milljarð króna til sjóðsins af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Ekki verður séð að til annarra framlaga þurfi að koma frá ríkissjóði en að framan greinir.