Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 424 . mál.


728. Frumvarp til laga



um Lánasjóð landbúnaðarins.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    Lánasjóður landbúnaðarins er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir landbúnaðarráðherra.

2. gr.


    Hlutverk Lánasjóðs landbúnaðarins er að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Sjóðurinn veitir lán til bænda og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

3. gr.


    Landbúnaðarráðherra skipar fimm menn í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins til fjögurra ára í senn. Bændasamtök Íslands skulu tilnefna tvo menn í stjórnina en þrír skulu skipaðir af landbúnaðarráðherra án tilnefningar. Landbúnaðarráðherra skipar formann og varaformann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra ákveður þóknun stjórnar.

4. gr.


    Verkefni stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins eru meðal annars þessi:
    að ráða framkvæmdastjóra,
    að setja almennar reglur um lánveitingar og lánakjör,
    að ákveða rekstrar- og starfsáætlun sjóðsins,
    að samþykkja ársreikninga,
    að taka ákvörðun um lántöku samkvæmt heimild í lánsfjárlögum ár hvert,
    að semja við aðrar stofnanir um einstaka rekstrarþætti í starfsemi sjóðsins þyki það hagkvæmt.

5. gr.


    Verkefni framkvæmdastjóra Lánasjóðs landbúnaðarins eru meðal annars þessi:
    að stjórna og bera ábyrgð á daglegum rekstri,
    að gera tillögur til stjórnar um starfsskipulag,
    að gera tillögur um rekstur og starfsáætlun,
    að gera tillögur um lánareglur,
    að gera tillögur að lántökum sjóðsins,
    að gera tillögu um framlag í afskriftarsjóð,
    að ráða starfsmenn,
    að taka ákvörðun um einstakar lánveitingar á grundvelli almennra reglna sem stjórnin setur, sbr. b-lið 4. gr.

6. gr.


    Tekjur Lánasjóðs landbúnaðarins eru:
     vaxtatekjur og þjónustugjöld,
    1,1% af stofni búnaðargjalds.

7. gr.


    Sjóðurinn veitir lán til eftirtalinna verkefna:
    til jarðakaupa,
    til ræktunar, útihúsa og hvers konar annarra bygginga er varða landbúnað, þar með talið lax- og silungseldi,
    til vatns- og varmaveitna,
    til bústofns- og vélakaupa,
    til verkefna er leiða til hagræðingar og framleiðniaukningar,
    til vinnslustöðva landbúnaðarafurða.

8. gr.


    Um ákvörðun útlána skal hafa hliðsjón af því hverjar rekstrarforsendur viðkomandi búgreina eru og hversu há veðlán hvíla á eigninni og skal eigi veita lán ef ástæða er til að ætla að búrekstur á jörðinni geti ekki staðið undir auknum lánum.
    Upphæð lána má vera allt að 60% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Lán er heimilt að veita í áföngum.

9. gr.


    Lán má veita gegn þessum tryggingum:
    veði í fasteign, enda hvíli eigi veðskuldir á henni til annarra en Lánasjóðs landbúnaðarins eða annarra opinberra sjóða á undan veðrétti þeim sem sjóðurinn fær,
    veði í þeim húsum sem lánað er til, ásamt tilheyrandi lóð og lóðarréttindum, ef þau eru byggð fyrir sjálfstæðan rekstur,
    veði í þeim vélum sem keyptar eru,
    ábyrgð sveitarsjóðs vegna eigin framkvæmda.

10. gr.


    Lánstími skal vera 5–25 ár eftir lánaflokkum. Lán til nýrra bygginga, jarðakaupa og ræktunar mega vera til allt að 25 ára, svo og til þeirra framkvæmda, sem varanlegar teljast, en 5–12 ár til vélakaupa, bústofnskaupa og annars þess sem hefur skemmri endingu. Skal nánar kveðið á um í lánareglum hve langur lánstími má vera í hverjum lánaflokki.
    Heimilt er að lán til jarðakaupa og húsbygginga séu afborgunarlaus fyrstu tvö árin.

11. gr.


    Lánasjóður landbúnaðarins skal varðveita raungildi eigin fjár síns. Arð af eigin fé skal einungis heimilt að nota til að greiða niður vexti á útlánum sjóðsins, sbr. ákvæði í 4. gr., nema raungildi eigin fjár hafi rýrnað.
    Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Lánasjóðs landbúnaðarins og greiðir þær ef eignir og tekjur sjóðsins hrökkva ekki til.

12. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, með síðari breytingum.
    Lánasjóður landbúnaðarins tekur frá og með 1. janúar 1998 við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skal landbúnaðarráðherra þegar skipa stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins skv. 3. gr. og skal hún undirbúa starfsemi sjóðsins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í framhaldi af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða ákvað landbúnaðarráðherra 12. janúar 1996 að skipa þriggja manna nefnd sem skyldi undirbúa lagafrumvarp um sjálfstæðan og óháðan lánasjóð til að sinna þörfum landbúnaðarins og um leið taka yfir Stofnlánadeild landbúnaðarins. Nefndina skipuðu þeir Ólafur Friðriksson, rekstrarhagfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Guðmundur Malmquist forstjóri og Þórólfur Sveinsson bóndi.
    Stofnlánadeild landbúnaðarins starfar samkvæmt I. kafla laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, og reglugerð nr. 536/1990, um innheimtu gjalda til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Enn fremur gilda um deildina lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.
    Samkvæmt lögum er Stofnlánadeild landbúnaðarins deild í Búnaðarbanka Íslands. Stofnlánadeildin er því í nánu stjórnunar- og starfslegum tengslum við Búnaðarbankann sem eðlilegt er að breyta. Einnig eru uppi hugmyndir um að breyta bankanum í hlutafélag og því er vilji stjórnvalda fyrir hendi til að skilja deildina frá rekstri bankans.
    Tilgangurinn með nefndarstarfinu var að semja lagafrumvarp um Stofnlánadeildina þar sem hlutverk hennar yrði tryggt. Markmiðið var að aðlaga reksturinn breyttum tímum, endurskoða sjóðagjöld og útlánavexti, tryggja lágmarksrekstrarkostnað og viðhalda sterkri eiginfjárstöðu.
    Auk venjulegrar gagnasöfnunar hefur nefndin m.a. rætt við marga aðila er tengjast Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þeir eru Pálmi Jónsson formaður og Leifur Kr. Jóhannesson, framkvæmdastjóri deildarinnar, Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbankans, Ari Teitsson formaður og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Gísli Karlsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Auk þess skrifaði nefndin einstökum búgreinafélögum og gaf þeim kost á að koma á framfæri ábendingum eða samþykktum og/eða eftir atvikum að koma á fund nefndarinnar og ræða um þau málefni er Stofnlánadeildina varða. Þá hefur nefndin einnig fundað með Eiríki Tómassyni lagaprófessor og fengið álit hans á einstökum efnisatriðum frumvarpsins.
    Samhliða nauðsynlegri gagnasöfnun og viðtölum leit nefndin á það sem forgangsverkefni að láta fara fram reikningslega úttekt á stöðu Stofnlánadeildar landbúnaðarins næstu árin, byggða á mismunandi forsendum. Sér til aðstoðar við úttekt þessa fékk nefndin þá Lárus Finnbogason, löggiltan endurskoðanda, og Sigurð Pál Hauksson, viðskiptafræðing frá Endurskoðun Sig. Stefánssonar hf. Þá hefur Bjarki Bragason, hagfræðingur frá Byggðastofnun, einnig unnið að úttektinni. Sett var upp áætlunarlíkan fyrir Stofnlánadeildina, byggt á almennum forsendum auk sértækra forsendna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í frumvarpinu er lagt er til að sjóðurinn heiti Lánasjóður landbúnaðarins og sé í eigu ríkisins , enda hefur ríkissjóður borið ábyrgð á öllum skuldbindingum Stofnlánadeildar landbúnaðarins og er gert ráð fyrir að svo verði áfram með Lánasjóð landbúnaðarins. Rétt er að benda á að eigið fé Stofnlánadeildar landbúnaðarins var orðið neikvætt í árslok 1978. Þá var ákveðið að byggja það upp að nýju, ekki einungis með beinu framlagi úr ríkissjóði heldur einnig með hækkun sjóðagjalda úr 1% í 2% af heildsöluverðmæti. Auk þessa héldu greiðslur framleiðendagjalds áfram til deildarinnar eins og verið hafði, en þær greiðslur hafa alltaf verið reiknaðar af verði til bóndans og ekki komið fram í búvöruverði . Síðast var greitt framlag úr ríkissjóði til Stofnlánadeildar landbúnaðarins árið 1986. Árið 1996 námu sjóðagjöld samtals rúmum 392 millj. kr. en þau voru 348,5 millj. kr. árið 1995.

Um 2. gr.


    Skilgreint hlutverk sjóðsins nú er eðlilega svipað hlutverki Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Heimildir eru nokkuð rýmkaðar varðandi útlán til framkvæmda bænda og ekki lengur takmarkaðar við framkvæmdir á lögbýlum.

Um 3. gr.


    Almennt séð er gert ráð fyrir meira sjálfstæði sjóðsins. Ráðherra skipar þrjá menn í sjóðstjórn án tilnefningar og tvo menn eftir tilnefningu Bændasamtaka Íslands. Stjórnin er því ábyrg gagnvart ráðherra. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sem er ábyrgur gagnvart stjórn og framkvæmdastjóri ræður síðan starfsmenn sem eru ábyrgir gagnvart honum. Að öðru leyti er hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra skilgreint svo sem kostur er.

Um 4. og 5. gr.


    Rétt þykir að skilgreina með upptalningu hver séu helstu verkefni stjórnar sjóðsins, þó svo að það sé gert með almennum hætti í lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Á sama hátt var talið rétt að skilgreina í stuttu máli hver væru helstu verkefni framkvæmdastjóra Lánasjóðs landbúnaðarins. Að öðru leyti vísast til laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 6. gr.


    Hér eru lagðar til veigamiklar breytingar frá lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Aðalbreytingin er fólgin í því að horfið verður frá innheimtu 1% neytendagjalds og 1% jöfnunargjalds á heildsöluverð seldra landbúnaðarvara. Þess í stað renni hluti búnaðargjalds til sjóðsins, þ.e. 1,1% af veltu búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum, sbr. frumvarp til laga um álagningu og innheimtu búnaðargjalds. Ætlunin er að leggja það frumvarp fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi. Gert er ráð fyrir að tekjur Lánasjóðs landbúnaðarins af lánajöfnunargjaldi verði á bilinu 165–170 millj. kr. á ári og er þá miðað við veltu í landbúnaði 1995. Árið 1996 nam samanlögð innheimta neytenda- og jöfnunargjalds rúmum 366 millj. kr. Í frumvarpinu um álagningu og innheimtu búnaðargjalds er miðað við að svokallað stofnlánadeildargjald verði einnig lagt niður, en það var hluti af búnaðarmálasjóðsgjaldinu samkvæmt gildandi lögum sem var 0,1–0,2%. Árið 1996 nam þessi fjárhæð rúmum 26 millj. kr. Samanlögð gjöld til Stofnlánadeildar landbúnaðarins voru því rúmar 392 millj. kr. árið 1996 þannig að heildarlækkun á sjóðagjöldum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins/Lánasjóðs landbúnaðarins nemur u.þ.b. 225 millj. kr. á ári. Forsenda fyrir framangreindri lækkun gjaldsins er að lægstu útlánavextir nýrra útlána verði hækkaðir a.m.k. úr 2% í 3%, auk annarra minni háttar tilfærslna útlána milli vaxtaflokka. Það verður hins vegar hlutverk stjórnar sjóðsins að fylgja þeirri breytingu eftir með ákvörðun um lána- og vaxtakjör sjóðsins.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er gengið út frá svipuðum útlánaverkefnum og verið hafa í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þó er sérstaklega getið um að sjóðurinn veiti lán til verkefna er leiða til hagræðingar og framleiðniaukningar í landbúnaði og er það sett í vald stjórnar sjóðsins að meta slíkt hverju sinni.

Um 8. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir auknu sjálfstæði stjórnarinnar varðandi lánveitingar og lánakjör og ekki þarf lengur staðfestingu landbúnaðarráðherra á útlánareglunum eins og í eldri lögum. Aukin áhersla er lögð á faglegt mat við ákvörðun útlána og útlánastefnu. Við útlán skal m.a. höfð hliðsjón af rekstrarforsendum og markaðsaðstæðum viðkomandi búgreina. Engu að síður er gengið út frá því að sjóðurinn gefi út lánareglur.

Um 9. gr.


    Lán, sem má veita gegn veðtryggingum, eru svipuð og í eldri lögum. Nýmæli er að nú er heimilt að veita lán gegn ábyrgð sveitarsjóðs vegna eigin framkvæmda án þess að til komi fasteignaveð. Með eigin framkvæmdum sveitarsjóðs er m.a. átt við byggingu fjárrétta og leitarmannaskála.

Um 10. gr.


    Ekki eru neinar efnislegar breytingar frá núgildandi lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Um 11. gr.


    Eitt af meginmarkmiðunum er að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu Lánasjóðs landbúnaðarins þrátt fyrir brottfall neytendagjalds og hlutdeildar Stofnlánadeildar landbúnaðarins í búnaðarmálasjóðsgjaldi sem uppi eru hugmyndir um. Þetta markmið þykir rétt að árétta í þessari grein þar sem talað er um að varðveita raungildi eigin fjár. Ákvæðið um að arð af eigin fé skuli einungis heimilt að nota til að lækka vexti á útlánum sjóðsins er sett vegna þess að eigið fé er byggt upp með gjöldum sem annars vegar hafa verið lögð á búvöruframleiðendur og hins vegar á búvöruframleiðsluna, sjá nánar athugasemdir við 1. gr.

Um 12. gr.


    Miðað er við að frumvarp þetta öðlist gildi 1. janúar 1998. Frá þeim tíma tekur Lánasjóður landbúnaðarins við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Með skuldbindingum er m.a. átt við lífeyrisskuldbindingar og önnur þau réttindi sem starfsfólk Stofnlánadeildar landbúnaðarins hefur öðlast gegnum árin.
    Um leið og Alþingi hefur samþykkt frumvarpið um Lánasjóð landbúnaðarins getur landbúnaðarráðherra skipað stjórn sjóðsins og stjórnin síðan hafið strax undirbúning að starfsemi hans, þó svo að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1998.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    
Þrátt fyrir að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1998 er nauðsynlegt talið að stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins verið skipuð svo fljótt sem kostur er til að undirbúa starfsemi sjóðsins, svo sem ráðningu framkvæmdastjóra, lánareglur og ákvörðun útlánavaxta.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Lánasjóð landbúnaðarins.


    Frumvarp þetta fjallar um Lánasjóð landbúnaðarins og er ætlað að koma í stað gildandi laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur verið deild í Búnaðarbanka Íslands og því verið í nánum stjórnunar- og starfslegum tengslum við bankann. Markmiðið með þessu frumvarpi er að aðlaga rekstur Stofnlánadeildarinnar breyttum tímum, endurkoða sjóðagjöld og útlánavexti, stuðla að lágmarksrekstrarkostnaði og viðhalda sterkri eiginfjárstöðu. Verði frumvarpið að lögum þarf að gera breytingar á reglugerð nr. 536/1990 um innheimtu gjalda til Stofnlánadeildar landbúnaðarins.
    Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum á tekjum sjóðsins frá því sem nú gildir. Þar er lagt til að horfið verði frá innheimtu 1% neytendagjalds en haldið áfram að innheimta 1% jöfnunargjald á óniðurgreitt heildsöluverð landbúnaðarvara. Á árinu 1995 gaf neytendagjaldið Stofnlánadeildinni 161 m.kr. í tekjur. Til þess að bæta sjóðnum upp þetta tekjutap að hluta er áformað að hækka lægstu vexti nýrra útlána úr 2% í 3% auk þess að færa til útlán milli vaxtaflokka.
    Vakin er athygli á að ákvæði um útlánareglur eru einfölduð í frumvarpinu frá því sem er í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þannig er ekki gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra þurfi að staðfesta útlánareglur sjóðsins.
    Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps hafi í för með sér beinan kostnað fyrir ríkissjóð.