Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 398 . mál.


790. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um framkvæmd laga um fangelsi og fangelsisvist.

    Á landinu eru 138 fangapláss í fimm fangelsum. Þau eru:
    Fangelsið Litla-Hrauni: 87 fangapláss.
    Hegningarhúsið í Reykjavík: 16 fangapláss.
    Fangelsið Kópavogsbraut 17, Kópavogi: 12 fangapláss.
    Fangelsið Kvíabryggju: 14 fangapláss.
    Fangelsisdeildin í lögreglustöðinni á Akureyri: níu fangapláss.

    Hvernig er staðið að framkvæmd 14. gr. laga um fangelsi og fangavist þar sem kveðið er á um að fangi skuli eiga kost á að stunda nám? Hversu margir fangar stunduðu nám árin 1995 og 1996 og hversu margir áttu þess ekki kost, sundurliðað eftir fangelsum?
         Það er einungis í fangelsinu Litla-Hrauni sem boðið er upp á reglubundið nám. Fjölbrautaskóli Suðurlands rekur þar sérstaka deild fyrir fanga. Óski karlfangi í upphafi afplánunar að stunda nám er yfirleitt unnt að verða við því með því að hann afpláni refsingu sína á Litla-Hrauni. Allir fangar á Litla-Hrauni eiga kost á að stunda nám svo framarlega að þeir séu komnir í fangelsið í síðasta lagi u.þ.b. mánuði eftir upphaf skólaannar. Á vorönn 1995 stunduðu 24 fangar nám við skólann og á haustönn voru þeir 26. Á vorönn 1996 stundaði 21 fangi nám og 35 á haustönn.
    Þá hefur föngum á Litla-Hrauni með reglubundnum hætti verið boðið upp á að sækja grunnnámskeið í stjórnun og meðferð þungavinnuvéla og námskeið í siglingafræði til 30 tonna skipstjórnarréttinda.
    Kvenfangar afplána refsingu sína í fangelsinu Kópavogsbraut 17, Kópavogi. Að jafnaði eru 2–6 konur í afplánun. Í einstökum tilvikum hefur Fangelsismálastofnun í samráði við menntamálaráðuneytið fengið kennara til að kenna einstökum föngum í fangelsinu. Á árunum 1995 og 1996 fékk einn kvenfangi slíka kennslu. Komið hefur fyrir að fangar á Kvíabryggju hafi fengið kennslu með sambærilegum hætti.
    Karl- og kvenfangar sem eiga kost á að ljúka afplánun á áfangaheimili Verndar að Laugateigi 19 í Reykjavík geta fullnægt skilyrðum um slíka vistun með því að stunda fullt nám.
    Auk framanritaðs kemur það fyrir að fangar sem eru í námi fyrir afplánun reyni að halda því námi áfram utan skóla meðan á afplánun stendur.

    Hversu margir fangar hafa á síðustu fimm árum
         
    
    stundað nám á verknámsbraut,
         
    
    lokið slíku námi,
         
    
    stundað nám á bóknámsbraut,
         
    
    lokið slíku námi,
        á meðan á refsivist stóð?

    Á tíu skólaönnum á tímabilinu 1992–96 hafa 216 fangar samtals verið innritaðir í skólann á Litla-Hrauni. Oft er um það að ræða að sömu fangarnir innritist á fleiri en eina önn, en ekki eru tiltækar upplýsingar um það hversu margir einstaklingar hafi stundað þar nám. Á þessu tímabili hafa 177 fangar lokið prófum upp á 866 einingar. Auk þess hafa margir fangar lokið einingalausu fornámi. Ekki er hægt að greina á milli verknáms- og bóknámsbrauta. Fangar eru almennt ekki komnir lengra í námi en það að þær námseiningar sem þeir ljúka nýtast þeim á báðum brautum. Tveir fangar hafa lokið stúdentsprófi á framangreindu tímabili.

    Hver var heildarkostnaður við nám fanga innan og utan fangelsa á sama tímabili, annars vegar kostnaður ríkisins og hins vegar kostnaður fanga?
    Kostnaður við laun kennara og akstur þeirra til Litla-Hrauns er greiddur af Fjölbrautaskóla Suðurlands. Árið 1995 var þessi kostnaður 4.351.863 kr. og árið 1996 6.166.736 kr.
    Fangelsið á Litla-Hrauni greiðir kostnað við tækjabúnað og námsgögn og nam sá kostnaður 417.498 kr. árið 1995 og 1.223.000 kr. árið 1996. Árið 1996 er meðtalinn kostnaður við að koma upp aðstöðu vegna kennslu í málmsuðu sem bættist við námsgreinarnar á árinu. Fangelsisyfirvöld hafa ekki upplýsingar um kostnað fanga við að stunda nám á Litla-Hrauni. Til að hvetja fanga til að stunda nám í fangelsinu fá þeir greidd fangalaun fyrir skólagöngu.

    Hvernig er staðið að framkvæmd 15. gr. laga um fangelsi og fangavist þar sem kveðið er á um að fanga skuli séð fyrir aðstöðu til tómstundaiðkana og líkamsþjálfunar? Í hvaða fangelsum er slík aðstaða og hvernig er hún? Í hvaða fangelsum er ekki slík aðstaða? Má þar vænta úrbóta og ef svo er, hvenær?
    Á Litla-Hrauni var nýlega tekinn í notkun nýr, tæplega 200 m 2 íþróttasalur sem búinn er mjög fullkomnum tækjum til þrekæfinga, boltaleikja o.fl. Á svæðinu er einnig fótboltavöllur utan húss. Þá eru í fangelsinu fjögur billjardborð. Sjónvarpstæki eru í sameiginlegu rými á öllum deildum. Þar hafa allir fangar aðgang að ríkissjónvarpinu og Stöð 2. Á sumum deildum er aðgangur að sex sjónvarpsrásum. Fangar hafa heimild til að hafa eigin sjónvarpstæki í klefum sínum og sama gildir um hljómflutningstæki. Þá fá margir fangar að hafa eigin tölvu í klefum sínum. Sérstakur íþróttafulltrúi var ráðinn til starfa á Litla-Hrauni á árinu 1996 og hefur hann umsjón með íþrótta- og tómstundastarfi fanga, auk þess sem hann sinnir almennum gæslustörfum. Þá er nokkuð um að tónlistarmenn og aðrir listamenn komi og heimsæki fangelsið og hafi ofan af fyrir föngum og einnig koma hópar valinkunnra manna og leika knattspyrnu við fanga.
    Í Hegningarhúsinu hafa fangar aðgang að sérstöku herbergi þar sem eru áhöld til líkamsræktar, svo sem fjölnota æfingabekkur og þrekhjól. Í fangagarðinum er lítill völlur sem unnt er að nota til körfubolta- og fótboltaæfinga. Í sameiginlegu rými er sjónvarp sem unnt er að tengja við myndbandstæki á varðstofu. Þá geta fangar almennt fengið að hafa eigin sjónvarpstæki og tölvur í klefum sínum. Föngum er séð fyrir spilum og búnaði til skákiðkunar.
    Í fangelsinu Kópavogsbraut 17, Kópavogi hafa fangar aðgang að sérstöku herbergi þar sem eru áhöld til líkamsræktar, svo sem fjölnota æfingabekkur og þrekhjól. Fangavörður sem hefur umsjón með vinnu fanga liðsinnir einnig föngum við tómstundaiðkun. Haldin eru námskeið í handavinnu og föndri. Í fangelsisgarði er aðstaða til iðkunar boltaleikja og fleiri útiíþrótta.
    Á Kvíabryggju er aðstaða innan húss þar sem fangar hafa aðgang að æfingartækjum. Þá hafa þeir aðgang að billjardborði, spilum og búnaði til skákiðkunar. Sjónvarps- og myndbandstæki eru í sameiginlegu rými og fangar geta fengið að hafa eigin sjónvarpstæki og tölvur í klefum. Lóð fangelsisins er stór og geta fangar notað hana alla til útiveru og íþróttaæfinga. Á staðnum er golfvöllur.
    Í fangelsisdeildinni á Akureyri er sérstakt herbergi með fullkomnu æfingatæki til líkamsræktar. Í fangelsisgarði er aðstaða til iðkunar boltaleikja og fleiri útiíþrótta. Föngum eru útveguð spil og búnaður til skákiðkunar. Sjónvarpstæki er í sameiginlegri aðstöðu og unnt er að tengja það við myndbandstæki á varðstofu. Fangar geta fengið að hafa eigin sjónvarpstæki og tölvur í klefum.
    Eins og að framan er rakið er aðstaðan allt frá því að vera viðunandi upp í það að vera mjög góð og eru ekki uppi frekari áætlanir um endurbætur á þessu sviði, en gert er ráð fyrir stígandi þróun í takt við tíðarandann.