Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 531 . mál.


885. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Menntamálaráðherra skipar stjórn sjóðsins þannig: Einn samkvæmt tilnefningu stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra sérskólanema, einn samkvæmt tilnefningu Iðnnemasambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra og þrjá án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður stjórnar og annar varaformaður.
    4. mgr. orðast svo:
                  Menntamálaráðherra skipar framkvæmdastjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk með samþykki sjóðstjórnar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
    5. tölul. 1. mgr. orðast svo: að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum. Úskurðir stjórnarinnar í þessu sambandi eru endanlegir og verða ekki kærðir til æðra stjórnvalds.
    Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Stjórn sjóðsins er heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins.

3. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Námsmaður fær greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt hans til námsláns á hverjum tíma. Styrkurinn greiðist við útborgun námsláns og miðast við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma samkvæmt nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.

Prentað upp.


4. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Lán úr sjóðnum skulu verðtryggð. Verðtryggingin er miðuð við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. lög nr. 12/1995. Verðtryggingin reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lán er veitt eða einstakir hlutar þess greiddir út, til fyrsta dags þess mánaðar er greiðsla fer fram.

5. gr.

    2.–4. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Fastagreiðslan er 52.698 kr. miðað við vísitölu neysluverðs 177,8 nema eftirstöðvar láns ásamt verðbótum og vöxtum séu lægri. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við vísitölu neysluverðs 1. janúar hvers árs.
    Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári. Hundraðshluti þessi er 4,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fastagreiðslan skv. 2. mgr.
    Fjárhæðin skv. 3. mgr. skal margfölduð samkvæmt hlutfallslegri breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.

6. gr.

    3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og yrði hámark árlegrar endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum ríflegan útsvarsstofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Komi í ljós að áætlun þessi sé röng eiga ákvæði 2. mgr. við.

7. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.

8. gr.

    Við 13. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Ríkisborgari ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, sem starfað hefur sem launþegi á Evrópska efnahagssvæðinu í a.m.k. fimm ár, sbr. lög nr. 47/1993, á rétt á aðstoð til starfstengds náms hafi hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár. Sama gildir um maka hans og börn þeirra sem eru yngri en 21 árs eða eru á framfæri þeirra hér á landi.
    Skilyrði til lánveitingar frá sjóðnum er að viðkomandi hafi átt lögheimili á Íslandi í eitt ár áður en nám hefst. Íslenskur ríkisborgari heldur þó að jafnaði lánsrétti sínum í tvö ár eftir að hann flytur lögheimili sitt til annars lands.

9. gr.


    3. tölul. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Lánsfé. Sjóðnum er þó ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.

10. gr.

    2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Sjóðstjórn setur reglur um önnur atriði er greinir í lögum þessum og reglugerð skv. 1. mgr. Reglurnar skulu samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

11. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Þá gildir endurgreiðsluhlutfallið 4,75% einnig gagnvart þeim sem tóku lán frá árinu 1992 með endurgreiðsluhlutfallið 5–7%. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Menntamálaráðherra skipaði með bréfi dagsettu 14. ágúst 1995 nefnd til að endurskoða lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nefndin var þannig skipuð: Þorvaldur Búason eðlisfræðingur, sem var formaður nefndarinnar, Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Hilmar Þ. Hilmarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Hjálmar Árnason alþingismaður og Dagur Eggertsson, fulltrúi samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna. Nefndin hélt 25 fundi. Hún var leyst frá störfum 6. janúar 1997 en frumvarp þetta er byggt á því starfi sem fram fór í nefndinni, samkomulagi sem náðist milli stjórnarflokkanna, auk þess sem tekið hefur verið tillit til tillagna og athugasemda samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna.
    Meginbreytingar frumvarpsins eru eftirfarandi:
    Endurgreiðsluhlutfall hefur verið lækkað frá því sem var í fyrri lögum, þ.e. í 4,75% en var allt að 7%.
    Teknir eru upp beinir styrkir til námsmanna vegna fjármagnskostnaðar sem þeir verða fyrir vegna lántöku hjá bönkum.
    Skipan stjórnar sjóðsins er breytt með þeim hætti að stjórnarmönnum er fjölgað úr sex í átta. Iðnnemasamband Íslands fær aðalmann í stað áheyrnarfulltrúa áður og menntamálaráðherra einn fulltrúa til viðbótar.
    Lagt er til að sett sé sérstök heimild í lög fyrir stjórn sjóðsins til að geta komið til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla.
    Tekin hafa verið inn í lögin ákvæði vegna aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að stjórnarmönnum sé fjölgað úr sex í átta. Iðnnemasamband Íslands fær aðalmann í stjórn sjóðsins en það hefur einungis haft áheyrnarfulltrúa. Þá fær menntamálaráðherra þrjá fulltrúa í stað tveggja áður. Ekki er gert ráð fyrir því að varamenn sitji stjórnarfundi nema í forföllum aðalmanna, sbr. 32. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Þá er lagt til að skipunartími framkvæmdastjóra verði lengdur úr fjórum árum í fimm til samræmis við það sem gildir um forstöðumenn annarra opinberra stofnana.

Um 2. gr.


    Lagt er til að úrskurðir stjórnarinnar séu endanlegir og verði ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Þetta ákvæði er í samræmi við þá venju sem verið hefur og niðurstöðu menntamálaráðuneytis frá 17. apríl 1996 þegar á þetta reyndi. Þar segir m.a.: „Menntamálaráðuneytið fer með mál er varða Lánasjóð íslenskra námsmanna skv. 1. tölul. 10. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda nr. 96/1969, með síðari breytingu í reglugerð um breyting á þeirri reglugerð samkvæmt auglýsingu í sömu deild nr. 77/1990. Samkvæmt meginreglum íslenskrar stjórnskipunar fara ráðherrar ávallt með yfirstjórn stjórnsýslunnar, nema hún sé að lögum undanskilin. Af ákvæðum laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sést að stjórn sjóðsins er falið með skýrum hætti veigamikið hlutverk við framkvæmd laganna, enda var stjórninni með núgildandi lögum falið vald sem ráðherra hafði áður haft. Framkvæmd laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna virðist samkvæmt einstökum ákvæðum laga um sjóðinn vera falin stjórn hans innan þess ramma sem starfsemi sjóðsins er sett með lögum, reglugerðum og úthlutunarreglum annars vegar og fjárveitingum á fjárlögum og lánafyrirgreiðslu á grundvelli lánsfjárlaga hins vegar. Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið að líta verði svo á að innan þess ramma sem settur er með ákvæðum laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé málskotsréttur á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki fyrir hendi a.m.k. vegna þeirra einstöku ákvarðana stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem varða framkvæmd laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og sem stjórn sjóðsins hefur verið falið að fjalla um með ákvæðum laga nr. 21/1992.“
    Þá er lagt til að stjórn sjóðsins verði veitt formleg heimild til að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna. Þetta er í samræmi við þá venju sem tíðkast hefur í störfum stjórnar. Nú eru starfandi þrjár undirnefndir stjórnar, vafamálanefnd, endurgreiðslunefnd og framfærslunefnd. Hver nefnd er skipuð einum fulltrúa stjórnvalda og einum fulltrúa námsmanna. Nefndirnar leysa úr málum einstakra námsmanna, en fundargerðir þeirra eru staðfestar af stjórn. Stjórnarmenn geta tekið til umfjöllunar á stjórnarfundum einstök mál sem áður hefur verið fjallað um í undirnefndum.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að námsmönnum sé veittur styrkur fyrir þeim vaxtakostnaði sem bankafyrirgreiðsla hefur óhjákvæmilega í för með sér en bankar og sparisjóðir hafa veitt námsmönnum lán eða yfirdráttarheimild út á væntanleg námslán. Gert er ráð fyrir að allir þeir sem sækja um og fá námslán njóti vaxtastyrksins án tillits til þess hvort þeir hafi raunverulega þurft að greiða fjármagnskostnað eða ekki. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um ákvörðun styrksins.

Um 4. gr.


    Með þessu er lagt til að lánskjaravísitölu verði skipt út fyrir vísitölu neysluverðs, sbr. lög nr. 12/1995.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er fastagreiðslan uppfærð miðað við vísitölu neysluverðs og í 2 mgr. kemur fram sú meginbreyting sem frumvarp þetta felur í sér að endurgreiðsluhlutfall er lækkað úr 5–7% í 4,75%. Um 3. mgr. vísast til umfjöllunar um 4. gr.

Um 6. gr.


    Þetta ákvæði var í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 72/1982, féll niður við setningu laga nr. 21/1992 en hefur verið í 35. gr. reglugerðar nr. 210/1993. Nauðsynlegt þykir að hafa þessa heimild í lögum.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að sett sé sérstök heimild í lög fyrir stjórn sjóðsins til að geta komið til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla.

Um 8. gr.


    Lagt er til að lögfest séu ákvæði sem verið hafa í úthlutunarreglum LÍN (grein 1.2.4) og lúta að lánsrétti erlendra ríkisborgara á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem er samhljóða ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 210/1993 og er í samræmi við núverandi framkvæmd hjá sjóðnum.

Um 9. gr.


    Með þessari breytingu er lagt til að tekin séu af tvímæli um að Lánasjóðurinn falli ekki undir lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 10. gr.


    Hér er lagt til að ekki sé lengur áskilið að stjórn sjóðsins gefi út úthlutunarreglur árlega. Þá er það enn fremur áskilið að við útgáfu reglnanna birti stjórn sjóðsins þær í Stjórnartíðindum svo sem verið hefur í framkvæmd.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 12. gr.


    Gert er ráð fyrir að lög þessi taki gildi við úthlutun námslána á haustmissiri 1997 og við ákvörðun á heildarendurgreiðslu 1. september á þessu ári.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.


    Meginbreytingar frumvarpsins eru fimm. Í fyrsta lagi að endurgreiðsluhlutfall lána lækkar úr 5 og 7% af útsvarstekjum lánþega í 4,75%, í öðru lagi að teknir eru upp styrkir til námsmanna vegna fjármagnskostnaðar á námstíma, í þriðja lagi að stjórn sjóðsins fái lagaheimild til að veita viðbótarlán þeim sem tefjast í námi vegna veikinda eða skipulags kennslu í skólum, í fjórða lagi að tekin eru inn ákvæði vegna aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið og að lokum er lögð til breytt skipan stjórnar.
    Helstu breytingar sem hafa áhrif á kostnað fara hér á eftir, en fyrst skal gerð stutt grein fyrir almennum forsendum útreikninga.
    Miðað er við að lánþegar séu um 6.500 og meðallántökutími sé 3,22 ár. Samkvæmt því eru um 2.000 lánþegar í árgangi. Miðað er við að 68% námsmanna stundi nám innan lands en 32% erlendis. Meðallán á missiri er um 225 þús. kr. innan lands á vormissiri en 178 þús. kr. á haustmissiri og 351 þús. kr. erlendis á vormissiri en 311 þús. kr. á haustmissiri. Reiknað er með að meðallánþegi taki um 1,4 m.kr. lán og endurgreiði sinn hlut á 16 árum en ríkið greiði 52% lánsins miðað við að vextir af lánum sem sjóðurinn tekur séu 6% en það er í samræmi við lánakjör sjóðsins um þessar mundir.
    Staða sjóðsins er viðkvæm fyrir forsendum um meðallán og vaxtakjör. Meðalvextir lána sem sjóðurinn tekur hafa undanfarin ár verið nokkru hærri en 6% en hafa farið lækkandi og gætu lækkað enn meira þegar til langs tíma er litið ef það rætist sem fram kemur í Þjóðhagsáætlun 1997 sem gefin var út í október síðastliðnum. Eins benda athuganir á lántöku um 3.300 námsmanna, sem hafa lokið námi að undanförnu, til þess að meðalnámstíminn hafi lengst, meðallánið geti hafa hækkað í um 2 m.kr. og meðalendurgreiðslutími geti verið um 21 ár.
    Í 1. gr. er lagt til að stjórnarmönnum verði fjölgað um tvo frá því sem nú er og er áætlað að það kosti 0,6–0,8 m.kr. á ári.
    Í 3. gr. er lagt til að námsmönnum verði veittur styrkur fyrir vaxtakostnaði af lántöku í samræmi við rétt til lántöku á hverjum tíma. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir að allir þeir sem sækja um og fá námslán njóti styrksins án tillits til þess hvort þeir hafi raunverulega þurft að greiða fjármagnskostnað eða ekki. Miðað er við að í lok missiris þegar námsárangur liggur fyrir greiði sjóðurinn viðkomandi námsmanni fullt námslán fyrir missirið og styrk sem miðast við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur. Áætlað er að kostnaður við vaxtastyrki ráðist af þeim reglum sem settar verða um styrkina. Þannig er kostnaður talinn verða um 36 m.kr. ef eingöngu verða veittir styrkir vegna þess hluta lánanna sem eru greidd eftir á og miðað við að bankalán séu tekin í lok hvers mánaðar, en um 60 m.kr. ef öll lán eru lögð til grundvallar og miðað við að bankalán séu tekin í upphafi hvers mánaðar.
    Samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins hafa námsmenn fengið viðbótarlán fyrir áætluðum vaxtakostnaði. Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna vaxtaábótar á síðasta skólaári hafi verið um 20 m.kr. og er gert ráð fyrir að hann falli niður.
    Í 5. gr. er lögð til breyting á endurgreiðslu námslána. Samkvæmt gildandi lögum skiptist endurgreiðsla námslána í fastan hluta sem er um 53 þús. kr. á ári og í viðbótargreiðslu sem er háð útsvarsstofni lánþega árið á undan, 5% fyrstu fimm ár endurgreiðslutíma en 7% eftir það. Í frumvarpinu er lagt til að viðbótargreiðslan verði 4,75% af útsvarsstofni. Áætlað er að breytingar á endurgreiðslu lána leiði til þess að árlegt framlag ríkisins þurfi að hækka úr 52% í 57% af útlánum eða um 140 m.kr. miðað við áætluð útlán í fjárlögum og það markmið að halda eiginfjárstöðu sjóðsins óbreyttri þegar litið er til langs tíma.
    Í 7. gr. er lagt til að stjórn sjóðsins verði veitt lagaheimild til að veita lán til námsmanna sem verða fyrir töfum í námi vegna veikinda, kennsluskipulags skóla o.þ.h. Ákvæðið eykur sveigjanleika sjóðstjórnar til að koma til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum í námi, en þar sem gert er ráð fyrir því að slík tilvik séu ófyrirsjáanleg eru ekki forsendur til að meta kostnað sem af þeim getur hlotist.
    Í 11. gr. er lagt til að endurgreiðsluhlutfallið 4,75% gildi einnig gagnvart þeim sem endurgreiða lán samkvæmt gildandi lögum um Lánasjóðinn. Talið er að kostnaður ríkisins af þessu geti verið á bilinu 400–500 m.kr. í heildina. Ef kostnaðurinn dreifist á meðalendurgreiðslutíma lána eykst kostnaður ríkisins um 40–50 m.kr. á ári.
    Ætla má að þær breytingar á endurgreiðslum og meðferð vaxtakostnaðar, sem lagðar eru til í frumvarpinu, auki eftirspurn eftir námslánum. Engar forsendur eru þó til að meta hve mikil aukningin verður umfram það sem áður hefur komið fram í umsögninni. Í þessu sambandi má minna á að heildarútlán drógust verulega saman milli áranna 1991 og 1992 eftir að lögum um sjóðinn var breytt og hafa breyst tiltölulega lítið frá þeim tíma. Ef lánþegum fjölgar um 1% er talið að kostnaður ríkisins aukist um 17 m.kr. á ári miðað við að ríkið beri 57%. Á hinn bóginn mun lækkun vaxta almennt og á lánum sem sjóðurinn tekur leiða til minni vaxtamunar inn- og útlána og draga úr kostnaði ríkisins. Áætlað er að vaxtalækkun úr 6% í 5,5% leiði til þess að framlag ríkisins geti lækkað úr 57% í 52% af útlánum eða um 140 m.kr. miðað við áætluð útlán í fjárlögum.
    Breytingar samkvæmt frumvarpinu leiða til þess að gera þarf breytingar á tölvukerfi Lánasjóðsins. Áætlað er að kostnaður við breytingarnar verði á bilinu 2–5 m.kr.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir breytingar á árlegum kostnaði ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu og er þá áætlaður kostnaður við breytingar á tölvukerfi ekki meðtalinn.

M.kr.Fjölgun stjórnarmanna um tvo     
0,6–0,8

Styrkir vegna vaxta- og lántökukostnaðar     
36–60

Vaxtaábót fellur niður     
-20

Lækkað endurgreiðsluhlutfall nýrra lána     
140

Lán til námsmanna sem verða fyrir töfum í námi     
Ekki metið

Breyting á endurgreiðslu eldri lána     
45

Áhrif breyttra reglna á eftirspurn eftir lánum     
Ekki metin

Samtals     
202–226


    Tekið skal fram að framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna var hækkað í fjárlögum 1997 um 100 m.kr. til að mæta kostnaði af breytingum á lögum um sjóðinn.