Ferill 563. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 563 . mál.


922. Frumvarp til laga



um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum (leyfi til áfengisveitinga).

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    5., 6. og 8. tölul. 11. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 94/1995, orðast svo:
    Veitingastaðir og skip sem hafa almennt leyfi til áfengisveitinga, sbr. 12. gr. og 12. gr. b.
    Þeir sem hafa almennt leyfi til áfengisveitinga, sbr. 12. gr. a.
    Dómsmálaráðherra setur reglugerð um sölu áfengis til sérstakra þarfa, svo sem til eldsneytis, notkunar í iðnaði, við rannsóknir og til matargerðar og annarra verklegra nota.

2. gr.

    12. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1989, orðast svo:
    Heimilt er lögreglustjóra að veita almennt leyfi til áfengisveitinga á veitingastað. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar sem aflar umsagnar heilbrigðisnefndar sem metur innréttingu og annað svipmót veitingarekstrar. Skal sveitarstjórn í umsögn sinni gera tillögu um heimilan veitingatíma áfengis á hlutaðeigandi veitingastað samkvæmt gildandi reglum og um gildistíma leyfis. Er óheimilt að veita leyfi ef sveitarstjórn er því mótfallin eða að veita leyfi með öðrum veitingatíma eða gildistíma en sveitarstjórn gerir tillögu um.
    Umsækjandi um leyfi til áfengisveitinga skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    Hafa gilt leyfi til reksturs veitingastaðar samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði.
    Vera orðinn 20 ára að aldri.
    Ef umsækjandi er félag með ótakmarkaðri ábyrgð skulu eigendur og framkvæmdastjóri vera orðnir 20 ára að aldri. Ef um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð skulu allir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri fullnægja aldursskilyrðinu.
    Leyfi skal gefa út á nafn og kennitölu umsækjanda. Skal hann tilnefna stjórnanda sem annast daglegan rekstur og ber á honum ábyrgð ásamt umsækjanda. Ef umsækjandi rekur fleiri en einn áfengisveitingastað skal slíkur stjórnandi tilnefndur fyrir hvern þeirra. Stjórnandi skal uppfylla skilyrði laga til að fá útgefið veitingaleyfi og vera orðinn 20 ára að aldri.
    Áður en leyfi er gefið út skal umsækjandi setja tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur honum ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar kemur. Dómsmálaráðherra ákveður með reglugerð upphæð og skilmála tryggingarinnar. Skal miðað við að upphæð tryggingar sé í samræmi við umfang þess reksturs sem tryggingin nær til.
    Heimilt er að synja útgáfu leyfis til áfengisveitinga þegar hlutaðeigandi er í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða vegna iðgjalda í lífeyrissjóði sem nema a.m.k. 500.000 kr. eða ef hlutaðeigandi hefur á undanförnum fimm árum verið dæmdur til refsivistar vegna brots á almennum hegningarlögum, lögum þessum, lögum um ávana- og fíkniefni eða lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um virðisaukaskatt, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um gjald af áfengi eða um tryggingagjald, og ástæðurnar eiga við:
    umsækjanda sem er lögaðili með ótakmarkaðri ábyrgð eða einhvern eiganda hans,
    umsækjanda sem er lögaðili með takmarkaðri ábyrgð, meiri hluta eigenda hans, stjórnarmann eða framkvæmdastjóra,
    umsækjanda sem er einstaklingur.
    Leyfi til áfengisveitinga skal ekki veitt til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Nú er sótt um endurnýjun leyfis og gefur lögreglustjóri þá út nýtt leyfi, enda uppfylli umsækjandi skilyrði 2.–6. mgr. Taki nýr aðili við rekstri veitingastaðarins eða breytt er um heiti eða kennitölu leyfishafa skal sótt um nýtt leyfi. Meðan sú umsókn er til meðferðar skal lögreglustjóri gefa út leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og fyrra leyfi, þar á meðal um tryggingar skv. 5. mgr. Taki nýr stjórnandi skv. 4. mgr. við skal það tilkynnt lögreglustjóra.
    Leyfi má binda frekari skilyrðum sem lögreglustjóri eða sveitarstjórn telja nauðsynleg.
    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari reglur um áfengisveitingar, þar á meðal um veitingatíma, útgáfu leyfa, afturköllun leyfa, skilyrði leyfisveitingar, húsnæði og búnað og eftirlit með starfsemi leyfishafa.

3. gr.


    Á eftir 12. gr. laganna koma tvær nýjar greinar sem orðast svo:

    a. (12. gr. a)
    Lögreglustjóra er heimilt þegar sérstaklega stendur á að veita ábyrgðarmanni húsnæðis, sem ekki hefur almennt leyfi til áfengisveitinga, leyfi til áfengisveitinga af sérstöku tilefni, enda uppfylli hann eftirfarandi skilyrði:
    hafi veitingaleyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði,
    annist á eigin ábyrgð alla sölu og veitingar áfengis hverju sinni og
    annist sjálfur og greiði fyrir áfengi, aðrar veitingar og þjónustu sem gestum er látið í té.
    Við útgáfu leyfa samkvæmt þessari grein er heimilt að beita ákvæðum 6. og 8. mgr. 12. gr. eftir því sem við á.
    Dómsmálaráðherra er heimilt í reglugerð að takmarka útgáfu leyfa þessara við tiltekinn fjölda tilvika á hverju ári.

    b. (12. gr. b)
    Heimilt er lögreglustjóra, að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands, að veita almennt leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi í skipulögðum hópferðum innan lands.
    Auk skilyrða 3.–6. mgr. 12. gr. skal umsækjandi uppfylla skilyrði laga um veitinga- og gististaði til að fá útgefið veitingaleyfi og vera orðinn 20 ára að aldri.
    Ákvæði 7. mgr. 12. gr. gildir um útgáfu leyfa samkvæmt þessari grein. Leyfi má binda frekari skilyrðum samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.
    Heimilt er að veita leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi í hópferð sem farin er af sérstöku tilefni. Gildir 12. gr. a um leyfi þessi eftir því sem við á.
    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um leyfi samkvæmt þessari grein.

4. gr.


    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Áfengissölubúðir skulu vera lokaðar á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
    Í stað orðanna „2. mgr. þessarar greinar“ í 1. mgr. kemur: 12. gr. a.
    2. mgr. fellur brott.

6. gr.

    38. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 52/1978, orðast svo:
    Misnoti sá sem leyfi hefur til áfengisveitinga leyfi sitt með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt fyrirmæli, sem um áfengisveitingar gilda, varðar það refsingu samkvæmt lögum þessum, svo og sviptingu áfengisveitingaleyfis um stundarsakir og fyrir fullt og allt ef brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt. Hið sama gildir brjóti leyfishafi gegn öðrum lögum er um reksturinn gilda og brot á sér stað í sambandi við reksturinn.
    Brot þjónustumanna og stjórnanda, sbr. 4. mgr. 12. gr., varða og refsingu og sviptingu áfengisveitingaleyfis samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

    39. gr. orðast svo:
    Lögreglustjóri skal afturkalla leyfi til áfengisveitinga ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði laga til að fá útgefið slíkt leyfi.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Handhafar áfengisveitingaleyfis samkvæmt gildandi lögum skulu undanþegnir framlagningu tryggingar skv. 5. mgr. 12. gr. Verði þær breytingar á rekstri er getur í 7. mgr. 12. gr. skal umsækjandi leggja fram tryggingu við útgáfu leyfis.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Með bréfi, dags. 20. september 1995, skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að gera tillögur um endurskoðun á gildandi lagareglum um skilyrði fyrir veitingu leyfis til áfengisveitinga og um rekstur skemmtistaða. Var nefndinni einnig falið að gera tillögur um eftirlit með áfengisveitingahúsum og gjaldtöku í því sambandi.
    Í nefndinni áttu sæti Kristján Vigfússon, deildarstjóri í samgönguráðuneytinu, Hrafn Pálsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Áslaug Guðjónsdóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Sambands veitinga- og gistihúsa, Sigurður Guðmundsson, formaður Félags starfsfólks í veitingahúsum, og Högni S. Kristjánsson, fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Guðrún Ögmundsdóttir borgarfulltrúi var tilnefnd af borgarstjóranum í Reykjavík sem áheyrnarfulltrúi.
    Frumvarp þetta, svo og athugasemdir við það, byggist á tillögum nefndarinnar.

II. Um þörfina fyrir endurskoðun gildandi laga.


A.


    Um nokkurt skeið hefur á vegum einstakra sveitarfélaga verið fjallað um veitingastarfsemi innan þeirra. Hefur umræðan einkum beinst að áfengisveitingahúsum og vandamálum sem tengjast þeim.
    Á vegum Reykjavíkurborgar hefur verið unnið verulegt starf í þessu efni og hafa verið lagðar fram tillögur og hugmyndir um breytingar á rekstrarumhverfi áfengisveitingastaða. Hafa þær tillögur beinst að því að herða þau skilyrði sem rekstraraðilar slíkrar starfsemi þurfa að uppfylla jafnframt því sem lagt hefur verið til að útgáfa leyfa verði einfölduð. Þessar tillögur hafa varðað eftirfarandi:
    Breyta þurfi reglum um starfstíma veitingastaða. Voru tvær leiðir nefndar í því sambandi:
         
    
    Annars vegar að áfengisveitingastaðir loki kl. 24.00 eða kl. 01.00. Veitt verði leyfi fyrir nokkrum næturklúbbum í Reykjavík sem hafi opið til kl. 04.00 eða 05.00. Staðsetning slíkra klúbba verði þar sem tryggt sé að þeir valdi sem minnstri röskun, bæði hvað varðar hávaða og óþægindi vegna umferðar. Næturklúbbum verði dreift á 4–5 mismunandi staði í borginni.
         
    
    Starfstími veitingastaða verði frjáls en sett mun strangari skilyrði um staðsetningu, hávaða, aðkomu og rekstur.
    Endurskoða þurfi reglur um staðsetningu veitingastaða. Gera þurfi skýran mun á hvort verið sé að leyfa rekstur áfengisveitingastaðar í íbúðahverfi eða utan íbúðahverfis.
    Nauðsynlegt sé að herða til muna þau skilyrði sem gilda eiga um leyfishafa til reksturs áfengisveitingastaða, svo sem varðandi búsetu, ábyrgð, sakaskrá o.fl. Með sama hætti þurfi að taka reglur um endurnýjun áfengisveitingaleyfa til endurskoðunar svo og reglur um afturköllun áfengisveitingaleyfa gerist veitingamaður brotlegur við opinberar reglur.
    Eðlilegt sé að skoða hvort útgáfa áfengisveitingaleyfa eigi að vera í höndum sveitarfélaga en ekki lögreglu eins og nú er. Annað eftirlit, svo sem eldvarnaeftirlit og heilbrigðiseftirlit, sé á ábyrgð sveitarfélaga og því sé eðlilegt að þessir þættir séu samræmdir. Lögregla yrði þá umsagnaraðili en eftirlit yrði í höndum sveitarfélaga.
    Við skoðun á framangreindum álitaefnum aflaði nefndin sér upplýsinga úr könnun sem Aflvaki Reykjavíkur gerði á tíðni gjaldþrotaskipta í einstökum atvinnugreinum á tilteknu tímabili. Kemur m.a. fram í þeim tölum að á árunum 1985–94 urðu 193 veitingastaðir gjaldþrota. Er þá eingöngu um að ræða félög en ekki tekið tillit til fjölda einstaklinga er kunna að hafa orðið gjaldþrota vegna slíks rekstrar.
    Jafnframt er rétt að geta þess að umboðsmaður Alþingis vék í nokkrum álitum sínum á árinu 1995 að áfengislöggjöfinni hvað þetta varðar. Kom m.a. fram hjá honum að leyfi sem þyrfti til að stunda rekstur á þessu sviði væru mörg.

B.


    Um útgáfu áfengisveitingaleyfa er samkvæmt gildandi lögum mælt fyrir í tveimur ákvæðum áfengislaga:
    Í 12. gr. laganna kemur fram að lögreglustjóra sé heimilt að veita veitingastað sem telst fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu almennt leyfi til áfengisveitinga. Er leitað umsagnar sveitarstjórnar. Jafnframt er leitað umsagnar sérstakrar nefndar sem skipuð er af dómsmálaráðherra er metur hvort veitingastaður er fyrsta flokks.
                  Gagnrýni á leyfisveitingar á grundvelli þessa ákvæðis hefur einkum beinst að því að við mat á því hvort leyfi skuli gefin út hafi ekki farið fram mat á umsækjandanum sjálfum heldur hafi matið fremur beinst að því hvort viðkomandi veitingastaður væri fullnægjandi.
    Í 2. mgr. 20. gr. áfengislaga er heimild til að veita félögum manna leyfi til áfengisveitinga af sérstöku tilefni. Í daglegu tali eru þessi leyfi nefnd „tækifærisleyfi“.
                  Gagnrýni á leyfisveitingar á grundvelli þessa ákvæðis hefur einkum beinst að því að leyfisveitingarnar séu of rúmar. Hefur því verið haldið fram að unnt sé að reka veitingastarfsemi á grundvelli leyfa sem þessara og í skjóli þess fari fram svört atvinnustarfsemi.

III. Almennt um frumvarpið.


    Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar:

A.


    Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á 12. gr. laganna:

1. Hlutverk sveitarfélaga.
    Lagt er til að útgáfa leyfa verði áfram í höndum lögreglustjóra. Hins vegar er lagt til að nokkrar breytingar verði á þeim umsagnaraðilum sem koma að málum. Lagt er til að sveitarstjórn veiti áfram umsögn um leyfisumsókn en hins vegar er lagt til að numið verði úr lögum að sveitarstjórn beri skylda til að leita umsagnar áfengisvarnanefnar viðkomandi sveitarfélags. Þess í stað er lagt til að leitað verði umsagnar heilbrigðisnefndar í því skyni að metnar verði aðstæður á veitingastaðnum.
    Lagt er til að umsögn sveitarstjórnar skuli sérstaklega lúta að heimiluðum veitingatíma áfengis á veitingastaðnum og gildistíma leyfis og er tekið fram að óheimilt sé að veita leyfi fyrir öðrum veitingatíma og gildistíma en sveitarstjórn mælir með. Með þessu verður það algerlega í valdi sveitarstjórnar að móta þennan veitingatíma í sveitarfélagi innan þeirra marka sem almennar reglur setja. Með þessu móti skapast m.a. svigrúm fyrir sveitarstjórn til að taka sérstakt tillit til hagsmuna íbúa í nálægð við áfengisveitingastað. Getur sveitarstjórn m.a. beint umsögn heilbrigðisnefndar í þann farveg að sérstaklega verði metnir grenndarhagsmunir með tilliti til hávaða. Verður að telja að sveitarstjórn sé best til þess fallin að bera þá ábyrgð sem í þessu felst.

2. Matsnefnd áfengisveitingahúsa.
    Lagt er til að numin verði úr lögum sú viðmiðun að veitingastaður þurfi að vera fyrsta flokks til að fá almennt leyfi til áfengisveitinga. Er lagt til að nægjanlegt sé að hafa gilt veitingaleyfi. Jafnframt er lagt til að sérstök matsnefnd áfengisveitingahúsa verði lögð niður. Í þessu felst að heilbrigðisyfirvöld sveitarfélaganna verða ábyrg fyrir því að veitingastaðir þessir fullnægi á hverjum tíma almennum reglum um heilbrigðisaðstæður. Samkvæmt gildandi lögum fer fram mat heilbrigðisnefndar sveitarfélags á veitingastað þegar gefið er út veitingaleyfi fyrir viðkomandi stað á grundvelli laga um veitinga- og gististaði. Óski viðkomandi veitingastaður eftir almennu leyfi til áfengisveitinga fer að auki fram sérstök athugun matsnefndar áfengisveitingahúsa sem leggur mat á það hvort veitingastaður sé fyrsta flokks og lýtur það m.a. að sömu atriðum og heilbrigðisnefnd hefur þegar metið. Hefur þetta fyrirkomulag tryggt að almennt eru gæði áfengisveitingastaða nokkuð mikil hér á landi. Til að leitast við að tryggja gæði áfengisveitingastaða er lagt til að sveitarstjórn afli umsagnar heilbrigðisnefndar sem leggi mat á svipmót veitingastaða.

3. Hert skilyrði gagnvart leyfishöfum.
    Í þeim gögnum sem lágu fyrir nefndinni frá ýmsum aðilum er fjallað hafa um útgáfu áfengisveitingaleyfa á undanförnum mánuðum kemur fram áhersla á að í lög verði sett strangari skilyrði fyrir útgáfu leyfa til áfengisveitinga. Leggja beri aukna áherslu á að tryggja að einstaklingar sem standa að rekstri sem þessum séu fjárhagslega traustir. Slíkt muni leiða til aga innan greinarinnar og tryggja betur skil skatta og gjalda og væntanlega draga úr fjölda gjaldþrota. Hefur það verið skoðun margra að þau skilyrði sem sett eru fyrir leyfi fyrir rekstri sem þessum hafi í of miklum mæli beinst að húsnæði því sem notað er fyrir starfsemina en ekki að þeim einstaklingum sem annast reksturinn.
    Í nefnd þeirri er samdi frumvarpið fór fram veruleg umræða um þetta atriði. Voru nefndarmenn sammála um nauðsyn þess að herða þau skilyrði sem gilda að þessu leyti. Beindist umræðan að því hvaða leið væri heppilegust í því efni. Að mati nefndarinnar komu þrjár leiðir til greina:
    Gera það að skilyrði leyfis að sá einstaklingur eða einstaklingar sem standa að rekstri hafi ekki sætt gjaldþrotaskiptum eða fengið greiðslustöðvun eða gengið í gegnum nauðasamninga. Ókostur þessarar leiðar var að mati nefndarmanna sá að með þessum hætti væru sett veruleg takmörk á möguleika viðkomandi til að stunda atvinnustarfsemi, takmörk sem ekki hafa almennt verið sett í öðrum atvinnugreinum hér á landi. Taldi nefndin í ljósi þessa ekki fýsilegt að leggja þetta til.
    Gera það að skilyrði leyfis að sá einstaklingur eða einstaklingar sem standa að rekstri séu ekki í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera. Skilyrði sem þetta á sér fyrirmynd í dönskum reglum um veitingastarfsemi. Um er að ræða úrræði sem ekki hefur verið beitt í öðrum atvinnugreinum hér á landi svo kunnugt sé.
    Gera það að skilyrði fyrir útgáfu áfengisveitingaleyfis að umsækjandi leggi fram tiltekna tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur leyfishafa er stofnast í rekstrinum. Kostur þessa fyrirkomulags er að með þessu er sett almenn regla sem nær því markmiði að varða fjárhagslegt traust viðkomandi umsækjanda. Jafnframt er þess að geta að fyrirkomulag sem þetta á sér fyrirmynd í annarri atvinnustarfsemi þar sem skilyrði leyfa er annaðhvort að lögð sé fram trygging eða að eigið fé sé með tilteknum hætti. Hafa og verið settar reglur um slíkt við val á fyrirtækjum til viðskipta við ríki og sveitarfélög, sbr. t.d. reglugerð um innkaup ríkisins, nr. 302/1996.
    Nefndin ákvað að leggja til að síðasttalda leiðin yrði farin. Auk þess leggur nefndin til að heimilt verði að synja um útgáfu leyfis til áfengisveitinga eigi viðkomandi í gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði sem nemi meira en 500.000 kr. Hið sama gildi ef viðkomandi hefur sætt refsingu vegna brota á tilteknum lögum en með því skilyrði er lögð enn frekari áhersla á það markmið að herða skilyrði sem þeir sem annast rekstur sem þennan þurfa að uppfylla.
    Lagt er til að tryggingarfé þetta standi til greiðslu krafna á hendur leyfishafa ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar kemur. Það var mat nefndarinnar að með þessari leið yrði náð áðurnefndum markmiðum um hert skilyrði sem þeir sem annast reksturinn þurfa að uppfylla en ekki er óvarlegt að ætla að þeim sem ekki hefur vegnað vel í rekstri muni ganga erfiðlega að afla sér nauðsynlegra trygginga til að fá útgefið áfengisveitingaleyfi.

4. Leyfishafi.
    Lagt er til að leyfi verði gefið út á nafn og kennitölu umsækjanda hvort heldur umsækjandi er félag eða einstaklingur. Auk þessa skal umsækjandi ávallt tilnefna stjórnanda sem ber ábyrgð á rekstrinum hvort heldur umsækjandi er félag eða einstaklingur. Er þetta lagt til með það að markmiði að skerpa þá ábyrgð sem aðilar að rekstri sem þessum eiga að bera.

5. Eftirlit með leyfishöfum.
    Lagt er til að sérákvæði í 12. gr. áfengislaga um eftirlit með veitingastöðum sem hafa almennt leyfi til áfengisveitinga verði afnumið. Verður þetta eftirlit þá með sama hætti og annað eftirlit, þ.e. lögreglan mun skipuleggja það eftirlit sem hún telur nauðsynlegt í þessu skyni. Af því leiðir að lagt er til að numið verði úr gildi ákvæði um að leyfishafi skuli endurgreiða kostnað af þessu eftirliti.

B.


    Lagt er til að 2. mgr. 20. gr. áfengislaga verði afnumin en þess í stað er lagt til sérstakt ákvæði í nýrri grein, 12. gr. a, um heimild til að veita ábyrgðarmanni staðar, sem ekki hefur leyfi til áfengisveitinga, leyfi til áfengisveitinga af sérstöku tilefni með sérstökum skilyrðum. Með þessu er leitast við að ná því markmiði að allir staðir þar sem veitinga- og skemmtistarfsemi fer fram hafi leyfi til starfseminnar. Með því, og þeim skilyrðum sem lagt er til að sett verði, falla þeir inn í venjulegt rekstrarform og skulu uppfylla öll skilyrði er því fylgja, þar á meðal varðandi bókhald, skattskil o.fl. Er leitast við að færa ábyrgð á rekstrinum af þeim sem leigir viðkomandi stað hverju sinni til þess sem annast reksturinn. Er þetta viðleitni í þá átt að fyrirbyggja svarta atvinnustarfsemi.

C.


    Lagt er til að lögfest verði það nýmæli að veita megi almennt leyfi til áfengisveitinga í skipi í skipulögðum hópferðum innan lands. Í framkvæmd hafa verið veitt einstök leyfi til áfengisveitinga um borð í skipum á grundvelli 2. mgr. 20. gr. gildandi laga af sérstökum tilefnum. Hins vegar felur þetta nýmæli ekki í sér heimild til að veita slík leyfi til ferja í áætlunarsiglingum.

D.


    Lagðar eru til breytingar á 38. gr. laganna þannig að heimilt verði að svipta handhafa áfengisveitingaleyfis leyfinu ef brotið er gegn öðrum lögum en áfengislögum sem um rekstur hans gilda. Í þessu felst t.d. að svipta má leyfi gerist leyfishafi brotlegur við skattalög í rekstri sínum, heilbrigðisreglur (t.d. vegna hávaða) o.fl.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Vegna annarra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er nauðsynlegt að gera breytingar á 11. gr. áfengislaga. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða þar sem gildandi meginreglu er haldið. Þó er lagt til að 8. tölul. verði breytt efnislega, en samkvæmt skýru orðalagi þess ákvæðis hefur heimild til útgáfu reglugerðar verið bundin við sölu vínanda til annarra verklegra nota. Þar sem skýr greinarmunur er gerður á áfengi og vínanda í lögunum og lögum um gjald af áfengi er lagt til að dómsmálaráðherra verði einnig heimilt að kveða á um skilyrði fyrir sölu áfengis til annarra verklegra nota.

Um 2. gr.


    Lagt er til að 12. gr. gildandi laga verði breytt svo sem nánar er rakið hér að framan í almennum athugasemdum.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að lögreglustjóri veiti veitingastað almennt leyfi til áfengisveitinga en leiti áður umsagnar sveitarstjórnar. Lagt er til að sú regla gildi áfram að óheimilt sé að veita leyfi ef sveitarstjórn er því andsnúin. Það samrýmist almennu hlutverki sveitarstjórna að ráða að þessu leyti nokkru um bæjarbrag og uppbyggingu starfsemi sem þessarar sem er viðkvæm gagnvart öðrum þáttum í bæjarfélögum. Það nýmæli er lagt til að í umsögn sinni skuli sveitarstjórn gera tillögu um heimilan veitingatíma áfengis og um gildistíma leyfis og að lögreglustjóra sé óheimilt að gefa leyfi út með öðrum veitinga- og gildistíma en þeim sem sveitarstjórn leggur til. Eru rökin fyrir þessu þau sömu og að framan greinir. Eðlilegt er að sveitarstjórn gæti að þessu leyti réttar þeirra íbúa sem búa í nálægð við starfsemi sem þessa. Skapar þetta forsendur fyrir sveitarstjórn til að setja sér almennar viðmiðunarreglur hvað þetta varðar.
    Lagt er til að sveitarstjórn afli umsagnar heilbrigðisnefndar um innréttingu og annað svipmót veitingarekstrar. Vísast um þetta til almennra athugasemda hér að framan. Er það hlutverk heilbrigðisnefndar að meta hvort svipmót veitingastaðarins sé með þeim hætti að rétt sé að mæla með því að áfengisveitingaleyfi verði gefið út. Með þessu er leitast við að halda ákveðnum gæðum á þeim veitingastöðum sem fá leyfi til áfengisveitinga. Skapar þetta og svigrúm fyrir heilbrigðisnefnd til að meta hvort veitingastaður fullnægi skilyrðum laga að því er varðar hávaða.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði að grunnskilyrði þess að fá almennt leyfi til áfengisveitinga sé að hafa gilt leyfi til reksturs veitingastaðar samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði. Hér er gert ráð fyrir að allt mat á veitingastaðnum sjálfum hafi farið fram við útgáfu veitingaleyfis, svo sem mat á heilbrigðisþáttum, eldvörnum o.s.frv. Með þessu er lagt til að lögð verði niður sérstök nefnd sem starfað hefur samkvæmt gildandi lögum og metið hvort veitingastaður telst vera fyrsta flokks. Auk þessa er sérstaklega tekið fram að umsækjandi skuli vera orðinn 20 ára að aldri í samræmi við almennan lágmarksaldur til kaupa á áfengi.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um skilyrði sem einstaklingar skulu fullnægja sem reka fyrirtæki sem sækir um leyfi á grundvelli ákvæðisins.
    Í 4. mgr. eru lagðar til breytingar að því er varðar form á útgáfu leyfa. Lagt er til að leyfi verði bundið við nafn og kennitölu umsækjanda sem getur ýmist verið einstaklingur eða fyrirtæki. Til viðbótar þessu skal umsækjandi tilnefna stjórnanda sem annast daglegan rekstur starfseminnar og ber á honum ábyrgð ásamt umsækjanda. Þetta á að leiða til þess að ávallt sé á viðkomandi stað einstaklingur sem ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart lögreglu og öðrum yfirvöldum. Er ákvæði þetta sett að danskri fyrirmynd. Er og mælt fyrir um þau skilyrði sem stjórnandi þarf að uppfylla í þessu efni. Skal þess sérstaklega getið að heimilt er að um sé að ræða sama einstaklinginn, en skilyrði er að hann annist þá reksturinn raunverulega en feli hann ekki öðrum.
    Í 5. mgr. er að finna nýmæli. Lagt er til að allir umsækjendur um áfengisveitingaleyfi skuli leggja fram tryggingu áður en leyfi er gefið út. Er tryggingunni ætlað að standa straum af greiðslu krafna á hendur leyfishafa ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar kemur. Má finna fordæmi fyrir reglum sem þessum hvað varðar skilyrði leyfis til reksturs ferðaskrifstofa. Jafnframt eru í lögum sett skilyrði varðandi fjárhagslega afkomu fyrir rekstri samgöngutækja eins og leigubifreiða, vöruflutningabifreiða og hópferðabifreiða. Er með þessari tillögu komið til móts við þau viðhorf sem uppi eru um hert skilyrði sem þeir sem reka atvinnustarfsemi sem þessa þurfa að uppfylla.
    Í 6. mgr. er lagt til að lögfest verði það nýmæli að heimilt verði að synja um útgáfu leyfis til áfengisveitinga sé viðkomandi, svo sem nánar greinir í ákvæðinu, í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði sem nema a.m.k. 500.000 kr. Er þetta lagt til í því skyni að styrkja enn frekar það markmið frumvarpsins að herða skilyrði sem beinast að einstaklingum sem stunda rekstur á þessu sviði. Er ákvæði þetta tekið upp að danskri fyrirmynd. Með skuldum við hið opinbera er átt við skuldir vegna skatta og slíkra lögboðinna gjalda hvort heldur um er að ræða skuld við ríki eða sveitarfélög. Rétt þótti að binda heimildina einnig við vanskil á iðgjöldum til lífeyrissjóða vegna starfsmanna en slík gjöld eru meðal mikilvægustu gjalda sem innt eru af hendi fyrir starfsmenn. Má um fyrirmynd þessa vísa til 23. gr. reglugerðar um innkaup ríkisins, nr. 302/1996.
    Í 6. mgr. er jafnframt mælt fyrir um að heimilt sé að synja um leyfi ef viðkomandi hefur á undanförnum fimm árum verið dæmdur til refsivistar vegna brots á almennum hegningarlögum, áfengislögum, lögum um ávana- og fíkniefni eða lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um virðisaukaskatt, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um gjald af áfengi eða um tryggingagjald. Með þessari heimild er enn frekar leitast við að herða skilyrði sem þeir sem standa að rekstri þessum þurfa að uppfylla. Með refsivist er í ákvæðinu átt við fangelsis- og varðhaldsvist hvort heldur hún er skilorðsbundin eða óskilorðsbundin. Ákvæðið á hins vegar ekki við ef um er að ræða frestun á ákvörðun refsingar eða ef refsing er í formi sektar. Lagt er til að refsivist þurfi að hafa verið dæmd á undanförnum fimm árum. Það er lagt til með það í huga að heimild þessi leiði ekki til þess að viðkomandi verði útilokaður frá atvinnustarfsemi sem þessari ótímabundið. Lagt er til að þessi heimild nái til brota á tilteknum lögum og er í því efni leitast við að telja upp það sem alvarlegast má telja í tengslum við rekstur á atvinnustarfsemi sem þessari.
    Í 7. mgr. er mælt fyrir um að leyfi til áfengisveitinga gildi að hámarki í fjögur ár svo sem er samkvæmt gildandi lögum. Hins vegar er lagt til að við endurnýjun gefi lögreglustjóri út nýtt leyfi án frekari aðgerða ef ljóst er að umsækjandi uppfyllir enn skilyrði laganna til að hafa leyfi. Gerir þetta meðferð mála þessara einfaldari en ella. Hins vegar er sérstaklega tekið fram að sækja þurfi um nýtt leyfi taki nýr aðili við rekstrinum. Í því felst m.a. skylda til að sækja um nýtt leyfi ef breytt er um heiti á leyfishafa eða kennitölu. Er jafnframt mælt fyrir um að tilkynna skuli lögreglustjóra um breytingu að því er varðar stjórnanda veitingastaðar. Þetta er mikilvægt til að ávallt liggi ljóst fyrir hver sé réttur leyfishafi. Á árinu 1995 voru með lagabreytingum og reglugerð um framleiðslu, heildsölu og innflutning áfengis í atvinnuskyni, nr. 585/1995, gerðar breytingar á fyrirkomulagi innflutnings og dreifingar á áfengi. Byggist það fyrirkomulag á því að sá sem kaupir áfengi af heildsala hafi á hverjum tíma gilt leyfi til að selja áfengi áfram, svo sem leyfi til reksturs áfengisveitingastaðar. Í því ljósi er mikilvægt að reglur um útgáfu leyfanna séu skýrar.
    Í 8. mgr. er að finna sams konar ákvæði og í gildandi lögum um heimild til að setja frekari skilyrði fyrir leyfisveitingu. Slíkt kemur eðli málsins samkvæmt einvörðungu til við sérstakar aðstæður. Getur þetta m.a. tekið til þess að lögreglustjóri ákveði að veita leyfi til áfengisveitinga með því skilyrði að einvörðungu verði veitt létt vín og/eða áfengt öl.

Um 3. gr.


    Í a-lið 3. gr. er að finna undantekningarreglu. Er lagt til að lögreglustjóra verði heimilt í undantekningartilvikum að veita leyfi til áfengisveitinga á stað sem ekki hefur almennt leyfi til áfengisveitinga. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að núgildandi ákvæði 2. mgr. 20. gr. áfengislaganna verði numið úr gildi en á grundvelli þess ákvæðis, sem túlkað hefur verið rúmt undanfarin ár, hafa í umtalsverðum mæli verið gefin út leyfi til áfengisveitinga við ýmis tækifæri. Talið er nauðsynlegt að breyta þessu fyrirkomulagi en ástæða er til að ætla að í skjóli ákvæðis þessa hafi farið fram svört atvinnustarfsemi sem reynst hefur erfitt að taka á. Lagt er til að útgáfa leyfa þessara verði einungis heimil við sérstakar aðstæður og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Er með því leitast við að halda opnum möguleika til útgáfu áfengisveitingaleyfis á stað sem ekki hefur almennt áfengisveitingaleyfi en heldur samkomu af sérstöku tilefni. Fari hins vegar fram á viðkomandi stað starfsemi sem telst vera reglubundin veitingastarfsemi með áfengisveitingum ber að sækja um almennt áfengisveitingaleyfi og er þess vegna lagt til í 2. mgr. að ráðherra verði heimilt að takmarka útgáfu leyfa þessara við tiltekinn fjölda á ári. Þau sérstöku skilyrði sem sett eru fyrir leyfunum beinast að því að tryggja svo sem kostur er að svört atvinnustarfsemi fari ekki fram á grundvelli leyfanna. Er í því skyni lagt til að ábyrgðarmaður viðkomandi staðar verði að fullu ábyrgur fyrir rekstri sem þar fer fram án tillits til þess rekstrarforms sem er á viðkomandi starfsemi.
    Í b-lið 3. gr. er lagt til að lögfest verði nýmæli sem felst í því að heimilt verði að veita almennt leyfi til áfengisveitinga um borð í skipum sem annast skipulagðar hópferðir innan lands. Rökin fyrir þessu eru að á undanförnum árum hefur færst í vöxt að boðið sé upp á skipulagðar skoðunarferðir með skipum þar sem ferðamönnum er gefinn kostur á að sjá náttúru landsins frá sjó. Í ferðum þessum er oft boðið upp á málsverð og hefur verið óskað eftir því að fá einnig að veita áfengi. Í framkvæmd hafa verið veitt leyfi til áfengisveitinga um borð í skipum sem þessum við einstök tækifæri og má með hliðsjón af því segja að með þessu sé lagt til að framkvæmdinni verði komið í fast horf. Lagt er til að leitað verði umsagnar Siglingastofnunar sem metur öryggi í viðkomandi skipi hvað þetta varðar.
    Einnig er lagt til að heimild 12. gr. a til útgáfu leyfis til áfengisveitinga af sérstöku tilefni geti náð til skipa. Gæti útgerð skips sem að öðru jöfnu annast áætlunarsiglingar sótt um slíkt leyfi.

Um 4. gr.


    Lagt er til að bann við sölu áfengis frá hádegi á laugardögum og aðfangadögum stórhátíða, svo og þá daga er almennar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna fara fram, falli brott.

Um 5. gr.


    Lagt er til að orðalagi 1. mgr. 20. gr. laganna verði breytt í samæmi við ákvæði a-liðar 3. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að 2. mgr. 20. gr. laganna verði felld brott svo sem nánari grein er gerð fyrir hér að framan.

Um 6. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 38. gr. laganna svo sem áður er gerð grein fyrir.

Um 7. gr.


    Lagt er til að lögfest verði að afturkalla skuli leyfi fullnægi leyfishafi ekki lengur skilyrðum laganna til að fá útgefið leyfi. Með þessu skapast skýr lagaheimild til afturköllunar jafnskjótt og leyfishafi uppfyllir ekki einhver skilyrði sem krafist er, t.d. í 12. gr.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er lagt til að handhafar gildandi áfengisveitingaleyfa þurfi ekki að leggja fram tryggingu skv. 5. mgr. 12. gr. laganna. Í þessu felst að meðan leyfishafi hefur í höndum gilt leyfi þarf hann ekki að leggja fram tryggingu. Jafnframt felst í þessu að þeir einir þurfa að leggja fram tryggingu sem sækja um ný leyfi, án tillits til þess hvort þeir hafi áður stundað veitingarekstur eður ei. Endurnýjun áfengisveitingaleyfis án breytinga á rekstrarformi, kennitölu, heiti o.s.frv. leiðir ekki til þess að þörf sé á að leggja fram tryggingu.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á áfengislögum,


nr. 82/1969, með síðari breytingum.


    Frumvarpið er hluti af endurskipulagningu á fyrirkomulagi áfengisveitinga- og skemmtanaleyfa. Endurskoðuð eru ákvæði um hlutverk sveitarfélaga í veitingu leyfa til áfengisveitinga og um rekstur skemmtistaða, hert skilyrði sem leyfishafar þurfa að uppfylla, eftirlit með þeim og fleiri þætti.
    Það er mat fjármálaráðuneytis að frumvarpið muni ekki hafa í för með sér breytingar á kostnaði ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum að frátöldu því að 1,4 m.kr. kostnaður við matsnefnd áfengisveitingahúsa fellur niður en í frumvarpinu er lagt til að nefndin verði lögð niður. Einnig má benda á að lagt er til að sérstakt eftirlit með veitingastöðum sem hafa almennt leyfi til áfengisveitinga verði afnumið og verður það með sama hætti og annað eftirlit, þ.e. lögreglan mun skipuleggja það eftirlit sem hún telur nauðsynlegt í þessu skyni. Af því leiðir að lagt er til að numið verði úr gildi ákvæði um að leyfishafi skuli endurgreiða kostnað af þessu eftirliti. Endurgreiðsla kostnaðar hefur innheimst illa og innheimtuaðgerðir oft reynst kostnaðarsamar. Á heildina litið er því talið að þessi breyting muni ekki hafa teljandi áhrif á útgjöld vegna eftirlits þar sem gert er ráð fyrir að eftirlit lögreglunnar verði ódýrara en vínveitingaeftirlitsmanna. Að lokum má ætla að hert skilyrði, kröfur um tryggingar og bætt eftirlit muni hafa í för með sér færri gjaldþrot og bætt skil skatta og gjalda.