Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 217 . mál.


968. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 115 31. desember 1985, um skráningu skipa, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti, og Svein Snorrason hrl.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Verslunarráði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Seðlabanka Íslands, Samtökum iðnaðarins, Sjómannasambandinu, Vélstjórafélaginu, Farmanna- og fiskimannasambandinu, laganefnd Lögmannafélags Íslands og Sveini Snorrasyni hrl.
    Með lögum nr. 46/1996, um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, var rýmkuð heimild útlendinga til þátttöku í íslenskum atvinnurekstri með óbeinni hlutdeild, þar á meðal þátttöku í hlutafélögum sem aftur voru eigendur lögaðila sem stunda útgerð. Þær breytingar sem hér eru lagðar til miða að því að sömu reglur gildi um eignarhald útlendinga í fiskiskipum og gilda um eignarhald þeirra í fiskvinnslu og fiskveiðum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    Í stað 4. málsl. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðeins má skrá til fiskveiða hér á landi skip sem eru í eigu eftirtalinna aðila:
    Íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi.
    Íslenskra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara, sem eiga lögheimili hér á landi, eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
         
    
    Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
         
    
    Eru í eigu erlendra aðila að hámarki 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í öðrum lögaðila, sem er skráður eigandi skips, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.

    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.
    Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 1997.



Einar K. Guðfinnsson,

Stefán Guðmundsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Kristján Pálsson.

Árni Johnsen.

Ragnar Arnalds.



Guðmundur Árni Stefánsson.

Ásta R. Jóhannesdóttir.