Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 574 . mál.


1104. Svar


menntamálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um málskot úrskurða stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til menntamálaráðuneytisins.

    Hversu mörgum úrskurðum stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið skotið til ráðuneytisins frá því að lög nr. 21/1992 tóku gildi?
    Á tímabilinu maí 1992 til febrúar 1997 hafa ráðuneytinu borist um 40 mál er varða kvartanir viðskiptamanna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna ákvarðana stjórnar sjóðsins í einstökum málum. Þá hafa einstakir lánþegar snúið sér með óformlegum hætti til ráðherra.

    Í hversu mörgum tilvikum hefur ráðuneytið lagt efnislegt mat á ákvörðun stjórnar LÍN?
    Ráðuneytið hefur í eitt skipti kveðið upp formlegan stjórnsýsluúrskurð. Í öðrum tilvikum hefur ráðuneytið ekki tekið efnislega afstöðu til einstakra ákvarðana sjóðstjórnar, ef frá eru talin sex tilvik þar sem ráðuneytið tjáði sig um það hvort stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefði haldið sig innan þeirra starfsreglna sem sjóðnum eru settar með lögum og reglugerðum.

    Um hvaða mál er þar að ræða og hvenær kvað ráðuneytið upp úrskurð sinn?
    Í því tilviki sem ráðuneytið kvað upp stjórnsýsluúrskurð laut málið að ákvörðunum stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um synjun um greiðslu fulls láns, um frítekjumarksviðmiðun og ákvörðun um eftirágreiðslu námslána. Stjórnsýsluúrskurðurinn var kveðinn upp hinn 6. júní 1995.

    Í hve mörgum tilvikum á þessu tímabili hefur ráðuneytið breytt efnislega niðurstöðu stjórnar LÍN?
    Í engu tilviki.

    Hvenær voru þeir úrskurðir kveðnir upp?
    Sjá svar við 4. spurningu.

    Hve lengi hefur sú framkvæmd tíðkast, sem vitnað er til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, að ekki sé unnt að skjóta úrskurðum stjórnar LÍN til æðra stjórnvalds?
    Með vísan til svara við framangreindum spurningum er ljóst að ráðuneytið hefur ætíð litið svo á að framkvæmd laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna hafi verið falin stjórn hans innan þess ramma sem starfsemi sjóðsins er sett með lögum, reglugerðum og úthlutunarreglum annars vegar og fjárveitingum samkvæmt fjárlögum og lánafyrirgreiðslu á grundvelli lánsfjárlaga hins vegar. Þessi afstaða ráðuneytisins byggist á ákvæðum laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, enda er stjórn sjóðsins með þeim lögum falið með skýrum hætti veigamikið hlutverk við framkvæmd laganna, þar með talið vald sem ráðherra hafði áður haft um starfsemi sjóðsins. Því leit ráðneytið ekki svo á að unnt væri að skjóta ákvörðunum stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til þess.
    Í þessu sambandi má enn fremur benda á að umboðsmaður Alþingis hefur tekið kvartanir vegna ákvarðana stjórnar Lánsjóðs íslenskra námsmanna til umfjöllunar án þess að mál hafi fyrst sætt málskoti til menntamálaráðuneytisins, en í 3. mgr. 6. gr. laga nr 13/1987, um umboðsmann Alþingis, segir að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en hið æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð í málinu. Hefur umboðsmaður Alþingis því litið svo á að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafi verið tæmdar, þrátt fyrir að ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefðu ekki sætt málskoti til menntamálaráðuneytisins. Það skal tekið fram að umboðsmaður Alþingis hefur ekki fjallað með beinum hætti um þetta atriði í álitum sínum.
    Í árslok 1994 barst menntamálaráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna ákvarðana stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ráðuneytið tók stjórnsýslukæruna til efnislegrar meðferðar á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga og kvað upp úrskurð í því máli hinn 6. júní 1995.
    Þegar það lá fyrir að umboðsmaður Alþingis fjallaði í álitum sínum í febrúar 1996 um ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna án þess að þær hefðu fyrst sætt málskoti til menntamálaráðuneytisins, taldi ráðuneytið óhjákvæmilegt að taka á ný til yfirvegunar hvort málskotsréttur vegna ákvarðana stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna teldist almennt fyrir hendi.
    Eftir ítarlega athugun varð það niðurstaða ráðuneytisins hinn 17. apríl 1996 að líta yrði svo á að innan þess ramma sem settur er með ákvæðum laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé málskotsréttur á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki fyrir hendi a.m.k. vegna þeirra einstöku ákvarðana stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem varða framkvæmd laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og sem stjórn sjóðsins hefur verið falið að fjalla um með ákvæðum laga nr. 21/1992. Var í samræmi við þessa niðurstöðu eftirfarandi ákvæði, nr. 5.1.5., sett í úthlutunarreglur sjóðsins þegar þær voru gefnar út árið 1996: „Umsóknum um námslán er svarað af starfsmönnum sjóðsins sem samþykkja lán eða synja í samræmi við gildandi reglur. Vilji námsmaður skjóta slíkum úrskurði til meðferðar stjórnar skal hann gera það með rökstuddu erindi. Úrskurður stjórnar er endanlegur, en unnt er að óska álits umboðsmanns Alþingis eða skjóta úrskurði til dómstóla.“