Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 326 . mál.


1227. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um fjölda slysa á helstu ferðamannastöðum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mörg slys hafa verið skráð á helstu ferðamannastöðum síðustu fimm árin?
    Svar óskast sundurliðað eftir árum og stöðum.

    Þar sem þessar upplýsingar liggja ekki fyrir í samgönguráðuneytinu eða stofnunum þess ritaði ráðuneytið landlæknisembættinu bréf, dags. 18. febrúar sl., þar sem sagði m.a.:
    „Hjá samgönguráðuneytinu og stofnunum þess liggja engar upplýsingar fyrir um efni fyrirspurnarinnar.
    Fyrir þær sakir er fyrirspurninni beint til embættis yðar með ósk um að þér látið ráðuneytinu í té umbeðnar upplýsingar.
    Ráðuneytið kann ekki að skilgreina hvað í hugtakinu „ferðamannastaður“ felst en telur þó að umferðarslys eða slys í bæjum og kauptúnum falli utan ramma fyrirspurnarinnar þótt það kunni í einstaka tilvikum að orka tvímælis. Á hinn bóginn hljóti útivistarsvæði, svo sem skíðasvæði og tjaldsvæði, að vera innan ramma fyrirspurnarinnar.“
    Svar landlæknis barst ráðuneytinu í bréfi 11. mars sl. með eftirfarandi upplýsingum um slys í óbyggðum árin 1990–95:

Íslendingar

Útlendingar



Dauðaslys 1990–94     
13
5
Slys 1991–95 (Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur)     
75
15

    Þar sem þetta svar fullnægði ekki fyrirspurn alþingismannsins að mati ráðuneytisins óskaði ráðuneytið eftir sundurliðun þessara talna eftir árum og stöðum, með bréfi 14. mars sl.
    Þegar ekkert svar hafði borist frá embætti landlæknis 21. mars sl. ritaði ráðuneytið öllum sjúkrahúsum landsins, 15 að tölu, svo og Landsbjörgu, Landssambandi björgunarsveita, og Slysavarnafélagi Íslands sams konar bréf og sent var embætti landlæknis og óskaði eftir framangreindum upplýsingum.
    Forsvarsmenn 12 sjúkrahúsa svöruðu fyrirspurn ráðuneytisins. Í öllum tilvikum kom fram að ekki væri fyrirliggjandi sérstök flokkun slysa eftir ferðamannastöðum og að ekki væri til skráning slysa eftir skíðasvæðum eða tjaldsvæðum. Frá sjúkrahúsinu á Akranesi kom eftirfarandi listi yfir slys í óbyggðum árin 1992–96:

1992          
8 slys

1993          
13 slys

1994          
8 slys

1995          
19 slys

1996          
24 slys

Samtals     
72 slys


    Svör Landsbjargar, Slysavarnafélagsins og landlæknisembættisins voru eftirfarandi:

Landsbjörg.
    Landsbjörg heldur enga skrá um slys sem verða á ferðamannastöðum eða annars staðar.
    Allar slíkar skráningar eiga að vera í höndum landlæknisembættisins. Möguleiki er á að starfsmenn og landverðir Ferðafélags Íslands á helstu ferðamannastöðum og útivistarsvæðum geti veitt slíkar upplýsingar og/eða þau sjúkrahús eða þær heilsugæslustöðvar sem eru næstar stöðunum.
    Vegna þessa var haft samband við Ferðafélag Íslands og kom fram í símtali að starfsmenn og landverðir félagsins skrá ekki slys á ferðamannastöðum enda telja þeir það ekki vera í sínum verkahring.

Slysavarnafélag Íslands.
    Þann 1. apríl sl. barst Slysavarnafélaginu fyrirspurn ráðuneytisins um slys og slysaskráningu á ferðamannastöðum síðustu fimm árin. Slíkar upplýsingar eru því miður ekki til hjá félaginu og hefur engin sérstök skráning farið fram í þessu sviði.
    Félagið tekur hins vegar undir nauðsyn þess að sérstaklega vel sé fylgst með hvaða slys eiga sér stað og tengjast ferðamannastöðum. Einnig tekur félagið undir það að nausynlegt sé að skilgreina við hvað er átt með orðinu „ferðamannastaður“.
    Hins vegar má benda á það að hægt er að hafa samband við sjúkrahúsin, heilsugæslustöðvar og almenna ferðamannastaði með fyrirspurn um slys á viðkomandi svæðum. Með því móti mætti ef til vill gera sér grein fyrir ástandi þessara mála.

Landlæknisembættið.
    Með núverandi slysaskráningarkerfi er ekki mögulegt að finna upplýsingar um slys í óbyggðum, sundurliðað eftir árum og stöðum. Stefnt er að því að um næstu áramót verði allar heilsugæslustöðvar og bráðamóttökur sjúkrahúsa farnar að skrá slys eftir slysaskráningarkerfinu NOMESCO. Þá kemst á samræmd slysaskráning á öllu landinu. Sú skráning verður mun ítarlegri en sú sem nú er viðhöfð víðast hvar á landinu og þá verður hægt að svara spurningum eins og þeim sem Hjálmar Árnason alþingismaður er að óska svara við. Ekki er hægt að afla slíkra upplýsinga sem stendur en allt horfir til betri vegar.